Flutningurinn á MESSÍAS eftir G.F. Händel fyrir fullu húsi á 40 ára afmælistónleikum Listvinafélagsins og Mótettukórsins í Eldborgarsal Hörpu 20. nóv. sl. hlaut frábærar viðtökur áheyrenda og fögnuðu tónleikagestir flytjendum vel og lengi með standandi lófataki í lok tónleikanna.
Flytjendur voru Mótettukórinn, Alþjóðlega barokksveitin í Reykjavík og einsöngvararnir Berit Norbakken sópran, Alex Potter kontratenór, Elmar Gilbertsson tenór og Oddur A. Jónsson bassi.
Stjórnandi var Hörður Áskelsson og Tuomo Suni konsertmeistari. Aðstandendur tónleikanna hafa fengið mjög sterk viðbrögð við tónleikunum úr ýmsum áttum og fjölmargir tónleikagestir hafa haft samband til að þakka fyrir sig og lýsa þeirri einstöku upplifun sem þeim fannst vera á tónleikunum og gagnrýnandi Fréttablaðsins hlóð flutninginn lofi og var samantekin niðurstaða hans um tónleikana: Magnaður Messías!
Upptakan frá tónleikunum verður á hátíðardagskrá Jóladags á Rás 1 og verður fyrri hlutinn fluttur kl. 16.55 og síðari hlutinn kl. 19 um kvöldið.
Myndir: Kristín Bogadóttir
Messías 2022 dagskrá