Hörður Áskelsson

hordur

Hörður Áskelsson var organisti og kantor Hallgrímskirkju í 39 ár, frá því hann lauk framhaldsnámi í Düsseldorf í Þýskalandi árið 1982 til 1. júní 2021. Hann gegndi lykilhlutverki í uppbyggingu listalífs kirkjunnar og vali Klais orgelsins og stóð meðal annars að stofnun Listvinafélags Hallgrímskirkju- nú Listvinafélagsins í Reykjavík- Kirkjulistahátíðar og Alþjóðlegs orgelsumars.

Árið 1982 stofnaði hann Mótettukór Hallgrímskirkju og kammerkórinn Schola cantorum árið 1996. Með kórunum hefur hann flutt flest helstu verk kórbókmenntanna bæði með og án undirleiks. Þá hefur hann stjórnað frumflutningi margra verka fyrir kór og hljómsveit sem íslensk tónskáld hafa skrifað á undanförnum árum. Hörður hefur ásamt kórum sínum tekið þátt í ýmsum tónlistarhátíðum og -keppnum á alþjóðlegum vettvangi, og meðal annars unnið til verðlauna í Cork á Írlandi árið 1996, Noyon í Frakklandi 1998, Gorizia á Ítalíu árið 2002 og á Festival Cancó Mediterrànea 2014.

Hörður hefur haldið tónleika í mörgum stærstu kirkjum Evrópu bæði sem kórstjóri og organisti, m.a. í Kölnardómkirkju, Notre Dame og St. Sulpice í París, dómkirkjunum í Frankfurt, Brüssel og Helsinki og Münster í Basel.

Tónlistarflutningur Harðar hefur oftsinnis verið tekinn upp fyrir sjónvarp og útvarp og verið gefinn út á geislaplötum. Meditatio, nýjasta geislaplata Schola cantorum undir stjórn Harðar, sem kom út hjá sænska útgáfufyrirtækinu BIS árið 2016, hefur hlotið einróma lof virtra erlendra gagnrýnenda, en fyrir diskinn og tónleika sína á árinu 2016 hlutu kórinn og Hörður Íslensku tónlistarverðlaunin sem flytjandi ársins í flokki sígildrar og samtímatónlistar.

Hörður hefur hlotið margsháttar viðurkenningar fyrir framlag sitt til tónlistarlífs á Íslandi, þ.á m. Íslensku tónlistarverðlaunin og Menningarverðlaun DV árið 2002, Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 2004 og Íslensku bjartsýnisverðlaunin árið 2006.

Þá var hann borgarlistamaður Reykjavíkur 2002. Hörður hefur kennt orgelleik og kórstjórn við Tónskóla þjóðkirkjunnar og á árunum 1985–1995 var hann lektor í litúrgískum söngfræðum við guðfræðideild Háskóla Íslands.

Hörður var tónlistarstjóri hátíðarhalda í tilefni af 1000 ára afmæli kristnitöku á Íslandi árið 2000 og hann gegndi embætti söngmálastjóra þjóðkirkjunnar árin 2005–2011..

 

hordur_askels