Alþjóðlega barokksveitin

Alþjóðlega barokksveitin

Alþjóðlega barokksveitin

ALÞJÓÐLEGA BAROKKSVEITIN Í REYKJAVÍK

Alþjóðlega barokksveitin í Reykjavík (áður Hallgrímskirkju/Den Haag) er skipuð úrvals hljóðfæraleikurum víðs vegar að úr heiminum, en meðlimir sveitarinnar eiga það flestir sameiginlegt að hafa numið við Konunglega tónlistarháskólann í Den Haag í Hollandi sem er leiðandi í kennslu á barokkhljóðfæri.

Að námi loknu hafa meðlimir Alþjóðlegu barokksveitarinnar haslað sér völl sem eftirsóttir hljóðfæraleikarar og leika nú reglulega með mörgum af helstu upprunasveitum heims undir stjórn nafntogaðra stjórnenda. Má þar nefna hljómsveitir á borð við Les Arts Florissants, Amsterdam Baroque Orchestra, Bach Collegium Japan, Orchestra of the Age of Enlightenment, Collegium Vocale Gent og stjórnendur á borð við William Christie, Ton Koopman, Masaaki Suzuki og Philippe Herreweghe.

Meðlimir Alþjóðlegu barokksveitarinnar í Reykjavík hafa verið tíðir gestir á Íslandi frá því að þeir komu fyrst til að taka þátt í flutningi á Jólaóratóríu Bachs á Jólatónlistarhátíð Hallgrímskirkju árið 2004 og aftur 2005. Sveitin kom fram á Kirkjulistahátíðum 2005, 2007, 2015 og 2019, lék á 30 ára afmælistónleikum Mótettukórsins og 30 ára vígsluafmælistónleikum Hallgrímskirkju. Síðast kom Alþjóðlega barokksveitin fram ásamt Mótettukórnum undir stjórn Harðar Áskelssonar í flutningi Messíasar eftir G.F. Händel á 40 ára afmælistónleikum Mótettukórsins og Listvinafélagsins 20. nóvember 2022 í Eldborg Hörpu, en hljómsveitin lék einnig í flutningi Jólaóratóríunnar í Eldborg Hörpu í nóvember 2021 með Mótettukórnum undir stjórn Harðar.

Hljómsveitin hefur undantekningarlaust fengið frábæra dóma fyrir leik sinn og hefur átt ómetanlegan þátt í að kynna flutningsmáta upprunastefnu og hljóðfæri barokktímans hér á landi. Um þriðjungur hljómsveitarinnar eru nú íslenskir hljóðfæraleikarar sem hafa sérhæft sig í flutningi barokktónlistar. Konsertmeistari Alþjóðlegu barokksveitarinnar í Reykjavík er finnski fiðluleikarinn Tuomo Suni.

Stjórnandi er Hörður Áskelsson.