Schola Cantorum

Schola CantorumSCHOLA CANTORUM:

Kammerkór Hallgrímskirkju, Schola cantorum, var stofnaður árið 1996 af Herði Áskelssyni kantor í félagi við nokkra meðlimi úr Mótettukór Hallgrímskirkju. Allar götur síðan hefur kórinn gegnt mikilvægu hlutverki í íslensku tónlistarlífi. Frumflutningur á verkum íslenskra tónskálda hefur jafnan vegið þungt á efnisskrá kórsins en einnig fjölröddun endurreisnartímans auk þess sem Schola cantorum hefur flutt ýmis stórvirki barokktímabilsins ásamt Alþjóðlegu barokksveitinni í Reykjavík (áður Hallgrímskirkju/ Den Haag).

Schola cantorum hefur komið fram á tónleikum og tónlistarhátíðum víðsvegar um Evrópu og í Japan. Haustið 2015 var kórinn m.a. valinn til að koma fram á fimm tónleikum á tónlistarhátíðinni Culturescapes í Sviss og vorið 2017 söng kórinn ferna tónleika í boði Fílharmóníusveitar Los Angeles á “Reykjavík Festival” í Walt Disney Hall í LA, auk þess að halda a cappella tónleika í First Congregational Church í LA á vegum hátíðarinnar og hlaut kórinn afburða dóma.

Í mars 2018 frumflutti Schola cantorum óratóríuna Eddu II eftir Jón Leifs með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Edda II var hljóðrituð af sænska útgáfufyrirtækinu BIS sem þáttur í heildarútgáfu fyrirtækisins á hljómsveitarverkum tónskáldsins. Kórinn kemur víðar við sögu í þeirri útgáfu. Schola cantorum sendi frá sér diskinn Meditatio árið 2016, einnig í samstarfi við BIS, þar sem hljóma margar áhrifaríkar tónsmíðar kórtónbókmenntanna frá 20. og 21. öld, íslenskar jafnt sem erlendar. Hefur diskurinn hlotið lofsamlegar viðtökur víða um heim.

Schola cantorum gaf út hljómdiskana Principium (1999) með tónlist 16. og 17. aldar og Heyr himna smiður (2001) sem geymir íslenska samtímatónlist. Einnig tók kórinn þátt í heildarútgáfu á verkum Jóns Leifs ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands á vegum sænska útgáfufyrirtækisins BIS. Árið 2010 kom svo út verkið Hallgrímspassía eftir Sigurð Sævarsson með Schola cantorum, Caput og einsöngvurum.

Sumarið 2012 sendi kórinn frá sér hljómdiskinn Foldarskart sem inniheldur íslenskar kórperlur, ungar sem gamlar. Sama ár kom út CD og DVD diskurinn Flétta með samnefndu verki eftir Hauk Tómasson en ásamt Schola cantorum frumfluttu Mótettukórinn og Kammersveit Reykjavíkur verkið á Listahátíð í Reykjavík 2011. Árið 2013 gaf enska útgáfufyrirtækið Resonus Classics út diskinn Hafliði Hallgrimsson Choral Works þar sem Schola cantorum syngur kórverk eftir Hafliða Hallgrímsson frá síðustu árum. Söng kórsins má einnig heyra á sálmadiskunum Sálmar í gleði sem Skálholtsútgáfan gaf út 2002 með úrvali af gömlum og nýjum sálmum, og Sálmar á nýrri öld, þ.s. kórinn syngur sálma eftir Aðalstein Ásberg og Sigurð Flosason og Dimma gaf út árið 2017.

Schola cantorum hefur unnið með fjölmörgum listamönnum við tónleikahald og upptökur. Má þar nefna Björk, Sigur Rós, Jóhann Jóhannsson, Kjartan Sveinsson, Tim Hecker og sænska dúettinn Wildbirds and Peacedrums. Þá má geta þess að söngur kórsins gegnir veigamiklu hlutverki í tónlist á hinum vinsæla tölvuleik “God of War” sem Sony gaf út vorið 2018.

Schola cantorum hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir söng sinn og unnið til verðlauna í keppnum í Frakklandi og á Ítalíu. Kórinn var tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2007 og valinn Tónlistarhópur Reykjavíkurborgar 2009.

Schola cantorum var valinn Tónlistarflytjandi ársins í flokki sígildrar og samtímatónlistar á Íslensku tónlistarverðlaunum 2017.

Á “Myrkum músíkdögum” í janúar 2019 flutti Schola cantorum þá máttugu tónsmíð Requiem eftir Alfred Schnittke ásamt hljómsveit og einsöngvurum úr Schola cantorum Á Kirkjulistahátíð í Hallgrímskirkju 2019 frumflutti Schola cantorum tvö íslensk tónverk- nýja mótettu “Veni, Sancte Spiritus” fyrir kór, barokksveit og 2 einsöngvara eftir Sigurð Sævarsson og óratóríuna “Mysterium op. 59” eftir Hafliða Hallgrímsson ásamt Mótettukór Hallgrímskirkju, en verkið er skrifað fyrir tvo kóra, hljómsveit, orgel og fjóra einsöngvara. Bæði tónverkið og flutningurinn á “Mysterium op.59″ voru tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna í mars 2020 fyrir tónlistarárið 2019.

Fjölmörg spennandi verkefni eru framundan á verkefnaskrá Schola cantorum. Má þar nefna frumflutning á Óratóríunni ” The Gospel of Mary” eftir Huga Guðmundsson sem verður á Alþjóðlegu kirkjutónlistarhátíðinni í Dómkirkjunni í Osló 20. mars 2022 ásamt norsku kammersveitinni Oslo Sinfonietta og sópransöngkonunni Berit Norbakken. Stefnt er að Íslandsfrumflutningi á sama verki í Reykjavík í lok mars 2022. Þá verða upptökur á tveimur geisladiskum í samvinnu við BIS haustið 2021 og janúar 2022 og tónleikar á tveimur tónlistarhátíðum í Frakklandi sumarið 2022, en öll þessi verkefni hafa frestast vegna heimsfaraldursins.. Hið mikilfenglega tónverk endurreisnartímans Maríuvesper eftir Monteverdi sem kórinn flytur ásamt upprunahljóðfærum fara fram í Reykjavík, Stokkhólmi og Kaupmannahöfn í september 2022, en fyrst áttu tónleikarnir að fara fram í lok mars 2020 en þeim hefur þurft að fresta vegna heimsfaraldursins.

Schola cantorum nýtur 3ja ára styrks frá Reykjavíkurborg fyrir árin 2020-2023 og hlaut einnig styrk frá Tónlistarsjóði Menntamálaráðuneytisins 2020 og 2021 og Nordisk Kulturfond árið 2020.

Stjórnandi kórsins frá upphafi er Hörður Áskelsson.

Heimasíða: www.scholacantorum.is