Listvinafélag Hallgrímskirkju

hallgrimskirkja

Listvinafélag Hallgrímskirkju var stofnað haustið 1982 og hefur það markmið að efla listalíf við Hallgrímskirkju og skipuleggja metnaðarfulla og vandaða listviðburði í kirkjunni sem fylla kirkjuna lífi og list.

Hróður listastarfsins í Hallgrímskirkju hefur borist víða um heim vegna mikils listræns metnaðar og glæsilegrar frammistöðu kóra og organista Hallgrímskirkju bæði hérlendis og á alþjóðlegum vettvangi. Einnig bera allir þeir fjölmörgu íslensku og erlendu listamenn, sem koma fram á vegum félagsins, þar á meðal eftirsóttir alþjóðlegir konsertorganistar og félagar í Alþjóðlegu barokksveitinni í Hallgrímskirkju, vitni um hið mikla og vandaða listastarf sem hér fer fram, en Alþjóðlega barokksveitin sem kennir sig nú við Hallgrimskirkju ( áður Den Haag) er skipuð afburða hljóðfæraleikurum, sem starfa með mörgum frægustu barokkhópum og stjórnendum heims.

Listvinafélagið skipuleggur 50-60 tónleika á ári og eru stærstu viðburðirnir Alþjóðlegt orgelsumar með um 40 tónleikum yfir sumarið og Jólatónlistarhátíð í Hallgrímskirkju með fjölmörgum jóla- og áramótatónleikum ásamt Sálmafossi með samfelldri 6 tíma tónleikadagskrá á Menningarnótt. Félagið skipuleggur þrjár til fjórar myndlistarsýningar á ári í forkirkju Hallgrímskirkju með viðurkenndum listamönnum, heildarlestur Passíusálma Hallgríms Péturssonar á föstudaginn langa o.fl.

Listvinafélagið styður einnig við fjölbreyttan og vandaðan tónlistarflutning í helgihaldi kirkjunnar ásamt kórum kirkjunnar og koma einnig margir gestakórar fram á þess vegum.

Nýsköpun hefur frá upphafi skipað stóran sess í starfi Listvinafélagsins og hafa fjölmörg verk íslenskra höfunda verið frumflutt á vegum Listvinafélagsins, tónverk, frumsamin ljóð, sálmar, leikrit auk þess sem félagið hefur staðið fyrir mikilli nýsköpun í myndlist með sýningarhaldi sínu.

Listvinafélagið er einnig bakhjarl Kirkjulistahátíðar sem haldin hefur verið á 2-3ja ára fresti allt frá hvítasunnu 1987 og verður hún haldin í 15. sinn 1.-10. júní 2019.

Félagar í Listvinafélagi Hallgrímskirkju mynda fjárhagslegan grunn að öflugu starfi félagsins með árgjöldum sínum. Listvinafélagið nýtur einnig árlega mikilvægs stuðnings frá Hallgrímssöfnuði, Tónlistarsjóði Menntamálaráðuneytisins og Reykjavíkurborg.

Listrænn stjórnandi Listvinafélags Hallgrímskirkju frá upphafi er Hörður Áskelsson kantor Hallgrímskirkju.
Framkvæmdastjóri félagsins er Inga Rós Ingólfsdóttir.

Stjórn Listvinafélags Hallgrímskirkju skipa að auki:
Sigurður Sævarsson tónskáld, formaður
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson rithöfundur
Katrín Sverrisdóttir sálfræðingur, formaður Mótettukórs Hallgrímskirkju
Rósa Gísladóttir myndlistarmaður
Dr. Salvör Nordal heimspekingur

Varamenn:
Alexandra Kjeld verkfræðingur og tónlistarmaður
Benedikt Ingólfsson söngvari, fulltrúi Schola cantorum

Fulltrúar Hallgrímskirkju, sem sitja einnig fundi Listvinafélagsins:
Jóhannes Pálmason lögfræðingur, formaður sóknarnefndar
Björn Steinar Sólbergsson organisti
Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir prestur
Sigríður Hjálmarsdóttir framkvæmdastjóri
Dr. Sigurður Árni Þórðarson sóknarprestur

Netfang:[email protected]
Heimasíða: listvinafelag.is

Listrænn stjórnandi: Hörður Áskelsson s. 693 6690 [email protected]
Framkvæmdastjóri: Inga Rós Ingólfsdóttir s. 696 2849 [email protected]