Listvinafélagið í Reykjavík

hallgrimskirkja

Listvinafélagið í Reykjavík – áður Listvinafélag Hallgrímskirkju – var stofnað haustið 1982 með það markmið að efla listalíf við Hallgrímskirkju og má með sanni segja að Listvinafélagið hafi náð því markmiði sínu með því að byggja upp öflugt og glæsilegt listalíf á vegum félagsins í Hallgrímskirkju í tæpa fjóra áratugi (1982–2021) og skipuleggja metnaðarfulla og vandaða listviðburði, sem fylltu kirkjuna lífi og list.

Listvinafélagið hefur nú breytt um nafn og sagt skilið við Hallgrímskirkju og var ákvörðun um nafnabreytinguna tekin á fjölmennum aðalfundi félagsins í Hörpu 26. maí 2021. Ástæðan er stefnubreyting sóknarnefndar Hallgrímskirkju, sem eftir margra ára farsælt samstarf ákvað á fundi sínum 16. júní 2020 að segja upp samstarfinu við Listvinafélag Hallgrímskirkju og eftir mikinn og vaxandi mótbyr við starf Listvinafélagsins í kirkjunni sl. 3 ár var ljóst að félagið gat ekki lengur þrifist í Hallgrímskirkju með það metnaðarfulla og vandaða listastarf, sem það var þekkt fyrir.

Tilgangur félagsins er hér eftir sem hingað til að stuðla að vönduðum listflutningi á Íslandi og stuðla að eflingu barokktónlistar og nýsköpunar í listum.

Hróður listastarfsins á vegum Listvinafélagsins hefur borist víða um heim vegna mikils listræns metnaðar og glæsilegrar frammistöðu Mótettukórsins og Schola Cantorum og stjórnanda þeirra Harðar Áskelssonar sem einnig hefur verið í fremstu röð íslenskra organista og var kantor Hallgrímskirkju frá júní 1982 til júní 2021. Einnig bera allir þeir fjölmörgu íslensku og erlendu listamenn, sem hafa komið fram á vegum félagsins, þar á meðal eftirsóttir alþjóðlegir konsertorganistar, alþjóðlegir einsöngvarar í fremstu röð og félagar í Alþjóðlegu barokksveitinni, vitni um hið mikla og vandaða listastarf sem hefur farið fram á vegum félagsins. Alþjóðlega barokksveitin í Reykjavík, sem fyrst kenndi sig við Den Haag og síðar Hallgrímskirkju og er skipuð afburða hljóðfæraleikurum, sem starfa með mörgum frægustu barokkhópum og -stjórnendum heims, mun halda áfram að starfa undir stjórn Harðar Áskelssonar. Listvinafélagið heldur einnig áfram að skipuleggja stóra viðburði með þekktum erlendum og íslenskum einsöngvurum og hljóðfærahópum í samvinnu við Mótettukórinn og Schola Cantorum, en báðir kórarnir ákváðu að fylgja stjórnanda sínum Herði Áskelssyni úr Hallgrímskirkju við starfslok hans þar.

Allir geta orðið félagar í Listvinafélagi Hallgrímskirkju án tillits til búsetu, en félagar mynda með árgjöldum sínum fjárhagslegt bakland fyrir öflugt starf félagsins. Listvinafélagið hefur einnig árlega notið mikilvægs stuðnings frá Tónlistarsjóði menntamálaráðuneytisins og Reykjavíkurborg og áður frá Hallgrímssöfnuði.

Listrænn stjórnandi Listvinafélagsins frá upphafi er Hörður Áskelsson.

Stjórn Listvinafélagsins í Reykjavík skipa:
Hörður Áskelsson, listrænn stjórnandi
Alexandra Kjeld, formaður
Helgi Steinar Helgason, varaformaður
Halldór Hauksson
Ragnheiður Þórdís Gylfadóttir
Ágúst Ingi Ágústsson
Benedikt Ingólfsson
Halla Björgvinsdóttir
Rósa Gísladóttir
Inga Rós Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri

Netfang: [email protected]
Heimasíða: listvinafelag.is

Listrænn stjórnandi: Hörður Áskelsson s. 693 6690 [email protected]

Framkvæmdastjóri: Inga Rós Ingólfsdóttir s. 696 2849 [email protected]