Myndlistin

Listvinafélagið byggði upp góða aðstöðu til listsýninga í forkirkju Hallgrímskirkju í samvinnu við kirkjuna, en nokkrar sýningar hafa teygt sig inn í kirkjurýmið og út á torgið fyrir framan kirkjuna.
Mikill fjöldi íslenskra myndlistarmanna hefur sýnt í Hallgrímskirkju frá stofnun Listvinafélags Hallgrímskirkju haustið 1982 og eru margir af fremstu listamönnum þjóðarinnar meðal þeirra sem hafa sýnt á Kirkjulistahátíð eða á vegum Listvinafélagsins á þeim tæpu fjórum áratugum, sem Listvinafélagið starfaði í Hallgrímskirkju.

Meðal þeirra sem haldið hafa einkasýningar í forkirkju Hallgrímskirkju eru:

Bragi Ásgeirsson, Rúrí, Georg Guðni, Karólína Lárusdóttir, Guðrún Kristjánsdóttir, Ólöf Nordal, Guðjón Ketilsson, Valgarður Gunnarsson, Ragnheiður Jónsdóttir, Baltasar Samper, Sigrún Eldjárn, Jón Reykdal, Kristín Gunnlaugsdóttir, Svava Björnsdóttir, Þorbjörg Höskuldsdóttir, Hörður Ágústsson, Guðjón Ketilsson, Jóhanna Vigdís Þórðardóttir, Steinunn Þórarinsdóttir, Helgi Þorgils Friðjónsson, Sólveig Baldursdóttir, Sigtryggur Bjarni Baldursson, Guðbjörg Lind Jónsdóttir, Magdalena María Kjartansdóttir, Leifur Breiðfjörð, Sigríður Jóhannsdóttir, Húbert Nói Jóhannesson, Hulda Stefánsdóttir, Aðalheiður Valgeirsdóttir, Arngunnur Ýr Gylfadóttir, Harpa Árnadóttir, Hafliði Hallgrímsson, Páll á Húsafelli, Ásgerður Búadóttir, Vignir Jóhannesson, Elín Edda Árnadóttir, Guðrún Gunnarsdóttir, Sigurlaug Jóhannesdóttir, Páll Thayer, Þóra Þórisdóttir, Valgerður Bergsdóttir, Inga Þórey Jóhannsdóttir, Anne Thorseth, Georg Guðni, Hildur Bjarnadóttir, Sigurður Guðjónsson, Rósa Gísladóttir, Erla Þórarinsdóttir, Hulda Hákon, Erla S. Haraldsdóttir, Christine Ödlund, Fredrik Söderberg, Málfríður Aðalsteinsdóttir, Erlingur Páll Ingvarsson, Sigurborg Stefánsdóttir, Inga S. Ragnarsdóttir, Kristín Reynisdóttir, Grétar Reynisson, Guðrún Sigríður Haraldsdóttir, Finnbogi Pétursson, Jón B. Ransu, Guðrún A. Tryggvadóttir, Páll Haukur Björnsson, Karlotta Blöndal, o.fl.

Fulltrúar myndlistar í stjórn Listvinafélagsins frá stofnun félagsins 1982 hafa verið myndlistarmennirnir/ listfræðingarnir Ólafur Kvaran, Snorri Sveinn Friðriksson, Sigríður Jóhannsdóttir, Jón Reykdal, Þóra Kristjánsdóttir, Elín Edda Árnadóttir, Guðrún Kristjánsdóttir, Ólöf Nordal, Þóra Sigurðardóttir og Rósa Gísladóttir, sem hefur verið í stjórn frá vorinu 2015.

Sýningarröðin KRISTIN MINNI var stofnuð 2010 að frumkvæði Guðrúnar Kristjánsdóttur myndlistarmanns, þáverandi sýningarstjóra Listvinafélagsins. Í þeirri röð var myndlistarmönnum boðið að vinna verk sérstaklega fyrir kirkjuna og að fá guðfræðing og listfræðing til samráðs og samræðu. Ævar Kjartansson guðfræðingur stýrði umræðunum en aðrir þátttakendur voru Ólafur Gíslason listfræðingur og guðfræðingarnir sr. María Ágústsdóttir (HS) og dr. Sigurður Árni Þórðarson (GK, ÓN). Samtal þeirra var hljóðritað og gátu gestir hlustað á kjarna þeirrar samræðu í heyrnartólum á sýningunni, til aukins skilnings á merkingu verkanna og tilurð þeirra. Alls hafa 3 sýningar verið haldnar undir merkjum KRISTIN MINNI, sýning Ólafar Nordal LEIÐSLA, sem opnaði í mars á Kirkjulistahátíð 2010 og stóð yfir það sumar, sýning Huldu Stefánsdóttur UPPLAUSN frá ágúst til desember 2010 og sýning Guðrúnar Kristjánsdóttur VATN, sem opnaði á Kirkjulistahátíð 2013 og stóð til loka nóvember 2013. Í upphafi var stefnt að því að hafa 3 sýningar á ári í röðinni KRISTIN MINNI, en af fjárhagsástæðum urðu sýningar færri en áætlað var í upphafi.

KIRKJULISTAHÁTÍÐ – MYNDLIST
Nýsköpun í myndlist skipaði ávallt stóran sess á Kirkjulistahátíð.
Á undanförnum hátíðum voru eftirtaldir myndlistarmenn listamenn Kirkjulistahátíðar og hafa þemu tengd yfirskrift hátíðarinnar oftar en ekki orðið þeim innblástur:

2003 Guðjón Ketilsson – listaverk hans útskorið ský á vegg í miðri forkirkju Hallgrímskirkju. (Yfirskrift hátíðarinnar: “Ég ætla að gefa vatn á jörð”)

2005 Rúrí – “Salt og ljós” – Listaverk byggt á 2 upplýstum stólpum fylltum af salti í forkirkju Hallgrímskirkju var framlag hennar til hátíðarinnar og gjörningur hennar á stórum tjöldum, sem strengd voru þvers yfir kirkjuskipið, þ.s. vídeó af fossum var varpað á tjöldin við orgelspuna Harðar Áskelssonar. Gjörningurinn vakti verðskuldaða athygli og var sýning hennar á Kirkjulistahátíð tilnefnd til myndlistarverðlauna það ár.
(Yfirskrift hátíðarinnar: “Þér eruð salt jarðar”).

2007 Svava Björnsdóttir – “Jakobsstiginn”, málmlistaverk. Sýningin var eitt listaverk, stigi sem hringaðist uppí loft og endaði í spegli sem tákn um óendanleika himinsins.
(Yfirskrift hátíðarinnar: “Ég vil lofsyngja Drottin”).

2010 Ólöf Nordal – “Leiðsla”. Fyrsta sýningin í sýningarröðinni KRISTIN MINNI, sem Guðrún Kristjánsdóttir átti frumkvæði að sem sýningarstjóri myndlistar á vegum Listvinafélags Hallgrímskirkju/ Kirkjulistahátíðar.
Í sýningarröðinni Kristin minni í Hallgrímskirkju, var listamönnum boðið að fá guðfræðing og skrifara til samráðs og samræðu. Verkið var unnið í samstarfi við Jón Nordal tónskáld, föður listamannsins, sem samdi nýtt lag fyrir verk Ólafar, við sálm Hallgríms Péturssonar, Gefðu að móðumálið mitt. Sóknarbörn kirkjunnar við Sjafnargötu ljáðu verkinu raddir sínar og ásjónur. Leiðsla var staðsett í fordyri og kirkjuskipi Hallgrímskirkju auk þess að hljóma í klukkum kirkjunnar. Sýningarstjóri var Guðrún Kristjánsdóttir. (Yfirskrift hátíðarinnar: “Frá myrkri til ljóss”).

2013 Guðrún Kristjánsdóttir – VATN var þriðja sýningin í sýningarröðinni Kristin minni og var óður til vatnsins í umhverfi okkar og trúarlífi. Sýningin var staðsett í forkirkju og kór Hallgrímskirkju og vakti vatnslistaverkið í forkirkjunni m.a. mikla athygli. Hluti verksins var tónlist Daníels Bjarnasonar tónskálds, sem leikið var á steina Páls á Húsafelli. Sýningarstjóri var Þóra Sigurðardóttir. (Yfirskrift hátíðarinnar: “Frá uppsprettum til himindjúpa”.)

2015 Helgi Þorgils Friðjónsson– “Fimm krossfestingar, Ský og Marmari”.

Málverkið FIMM KROSSFESTINGAR (8 metrar) var sett upp í kór kirkjunnar í myndröð sem byggði á verkum eldri meistara, með sjálfsmynd listamannsins. SKÝ var fyrir málað fyrir 1000 ára kristnihátíðina á Þingvöllum árið 2000. Myndin var hengd upp á hamravegginn rétt við Öxarárfoss og varð úðinn frá fossinum hluti verksins sem tákn um hringrásarferli og í raun að síðan Jóhannes skírari vígði vatnið, er allt vatn vígt. Verkið var hengt upp í hvelfingu Hallgrímskirkju. Hugmyndina sótti Helgi í þá sömu hugmynd sem er grunnurinn að bláum himnamyndum í kirkjuhvolfi, sem tengja saman himinn og jörð. Verkið MARMARI er gert sérstaklega fyrir sýninguna, eins og flest verkanna. Myndirnar eru málverk á striga, sem sýna skúlptúr. Með innrömmunninni í hurðirnar var það sett í samhengi við víddir sem opnast og lokast. Sýningarstjóri var Þóra Sigurðardóttir. (Yfirskrift hátíðarinnar: “Eldur af himni”)

2019 Finnbogi Pétursson– YFIR OG ÚT

Sýningin var í tveimur hlutum, annars vegar í Hallgrímskirkju, kirkjuskipinu og forkirkjunni og hins vegar í Ásmundarsal v/Freyjugötu og var hugsað að hljóðið myndaði eins konar ósýnilega brú á milli kirkjunnar og Ásmundarsals. Verkin sem Finnbogi gerði sérstaklega fyrir þessa sýningu voru annars vegar 8 míkrófónar staðsettir á hringlaga stálkrónu, sem minntu á þyrnikórónu og staðsettir voru í miðju kirkjuskipinu í 8 m hæð og hins vegar 8 hátalarar sem staðsettir eru í hring í Ásmundarsal. Finnbogi flutti hljóð og rými hins gríðarlega kirkjuskips Hallgrímskirkju yfir í tiltölulega lítið rými Ásmundarsals. Allt sam fram fór í kirkjunni heyrðist þar. Á sýningunni í forkirkju Hallgrímskirkju raðaði hann hins vegar fjórum stórum álplötum með mismunandi litum kirkjuársins á veggi forkirkjunnar. Hljóðlistaverkið vakti mikla athygli og stórkostlegt að geta tengt þessi tvö listrými saman á þennan hátt. Sýningarstjóri var Rósa Gísladóttir og Stefán Finnbogason sá um hljóðmynd. (Yfirskrift hátíðarinnar: “MYSTERIUM – GJAFIR ANDANS”)

Listvinafélag Hallgrímskirkju- nú Listvinafélagið í Reykjavík- var bakhjarl Kirkjulistahátíðar.

Sýningarstjóri Listvinafélagsins í Reykjavík er Rósa Gísladóttir.