Trompetar, pákur og Fæðing frelsarans um jól og áramót

Þýskur jólajazz í kvöld og þriðju aðventutónleikar Schola cantorum á morgun
17/12/2015
Nýsköpun næstu tvær helgar
20/01/2016
Sýna allt

Trompetar, pákur og Fæðing frelsarans um jól og áramót

Aðventan í Hallgrímskirkju hefur runnið sitt skeið með fjölda hrífandi jólatónleika, þar sem Mótettukórinn, Schola cantorum, Björn Steinar Sólbergsson og þýskir jazzleikarar – allt frábærir listamenn – hafa látið ljós sitt skína. Senn líður nú að lokum jólatónlistarhátíðarinnar þetta árið, en henni lýkur með tvennum glæsitónleikum milli jóla og nýárs.

Þann 27. desember mun Björn Steinar leika La Nativité du seigneurFæðing frelsarans. Níu hugleiðingar fyrir orgel eftir Olivier Messiaën á Klaisorgel Hallgrímskirkju. Um er að ræða eitt frægasta orgelverk allra tíma, dulúðugt og áhrifamikið. Tónleikarnir hefjast kl. 17.00, aðgangseyrir er 2.500 krónur og fá listvinir 50% afslátt. Missið ekki af Birni Steinari í fantaformi.

Á Gamlársdag verða dregnir upp lúðrar og pákur og áramótin spiluð inn að vanda við drynjandi orgelundirleik. Trompetleikararnir Ásgeir H. Steingrímsson, Eiríkur Örn Pálsson og Einar St. Jónsson, Björn Steinar Sólbergsson orgelleikari og Eggert Pálsson pákuleikari flytja glæsileg hátíðarverk m.a. eftir Vivaldi, Purcell, Bach og Albinoni. Þessir gríðarlega vinsælu tónleikar hefjast kl. 17.00. Aðgangseyrir er 3.500 krónur, hálfvirði fyrir listvini.

Miðar á báða tónleika fást í Hallgrímskirkju, s. 510 1000 og við innganginn.

Listvinafélag Hallgrímskirkju óskar gleðilegra jóla, farsæls komandi árs og þakkar öllum félögum, gestum og listafólki samstarfið á árinu sem er að líða.