Þýskur jólajazz í kvöld og þriðju aðventutónleikar Schola cantorum á morgun

Leiðsögn um sýningu Erlu Þórarinsdóttur á sunnudaginn
10/12/2015
Trompetar, pákur og Fæðing frelsarans um jól og áramót
20/12/2015

Þýskur jólajazz í kvöld og þriðju aðventutónleikar Schola cantorum á morgun

Þýsku djasstónlistarmennirnir Markus Burger og Jan von Klewitz í „Spiritual Standards“ halda jólatónleika á Jólatónlistarhátíð Hallgrímskirkju í kvöld, 17. desember, í boði þýska sendiherrans á Íslandi. Þeir kynna þýsk jólalög í nýrri útgáfu, þar á meðal eftir Georg Friedrich Händel og Martin Luther, þar sem þessi þekktu verk fá „djassaðan“ tón í samleik píanós og saxófóns. Tónleikarnir eru haldnir í samvinnu við Listvinafélag Hallgrímskirkju, en með þessum tónleikum styrkir þýska sendiráðið starfsemi Landsbjargar.

Þeir félagar hafa áður leikið á Jólatónlistarhátíðinni, eða árið 2013, og léku þá fyrir fullu húsi við rífandi undirtektir. Tónleikarnir hefjast kl. 20.00 og aðgangur er ókeypis.

Í hádeginu á morgun, 18. desember, heldur kammerkórinn Schola cantorum þriðju og síðustu aðventutónleika sína þetta árið. Flutt verður falleg jólatónlist á þessum 30 mínútna löngu tónleikum. Er óhætt að segja að fyrri tónleikunum hafi verið afar vel tekið af gestum, enda eru þeir sannkallað móteitur gegn jólastressi.

Miðaverð er 2.500 krónur og eru miðar seldir við innganginn. Listvinir fá miðana á hálfvirði. Mælt er með því að vera ekki seint á ferðinni, því mikil örtröð myndast í miðasölunni síðustu mínúturnar fyrir tónleika.