Tónleikar Schola Cantorum á allra heilagra messu í Hallgrímskirkju 2. nóvember klukkan 17.00

360 dagar í Grasagarðinum – Sýning Sigtryggs Baldurs Baldvinssonar í Hallgrímskirkju, opnaði föstudaginn 24. október.
29/10/2014
Sjá himins opnast hlið- Jólatónleikar Mótettukórsins
14/11/2014
Sýna allt

Tónleikar Schola Cantorum á allra heilagra messu í Hallgrímskirkju 2. nóvember klukkan 17.00

Schola cantorum flytur hrífandi kórtónlist í Hallgrímskirkju á sunnudaginn 2. nóvember klukkan 17.00.  Allra heilagra messa, þegar minnst er látinna, er haldin fyrsta sunnudag í nóvember. Mörg fegurstu tónverk kirkjunnar, sálumessur, mótettur og sálmar, tengjast þessum degi. Í Hallgrímskirkju hefur sú hefð skapast að halda tónleika þann dag með úrvali slíkra verka.

Schola cantorum, kammerkór Hallgrímskirkju, flytur að þessu sinni kirkjuleg kórverk eftir samtímatónskáld sem þekkt eru fyrir fagurt tónmál sem tengir saman fortíð og nútíð. Leiðarstef tónleikanna er Lofsöngur Símeons (Nunc dimittis), sem hljómar í þremur tónsetningum eftir Arvo Pärt, Pawel Lukaszewski og Hreiðar Inga Þorsteinsson. Af öðrum verkum má nefna Salve Regina fyrir kór og orgel eftir Arvo Pärt, Kyrie og Christus Vincit eftir James MacMillan og Lux Aurumque eftir Eric Whitacre. Glænýtt verk, O Crux, eftir Sigurð Sævarsson verður frumflutt, en verkið er afmælisgjöf til stjórnanda kórsins. Íslensku tónskáldin Anna Þorvaldsdóttir og Þorkell Sigurbjörnsson eiga líka verk á efnisskránni. Öll þessi verk eiga það sameiginlegt að njóta sín einkar vel í ómrými Hallgrímskirkju. Í tveimur verkanna leikur Björn Steinar Sólbergsson á Klaisorgel Hallgrímskirkju, en einsöngshlutverk eru í höndum söngvara Schola cantorum. Stjórnandi er Hörður Áskelsson.

Í næstu viku heldur Schola cantorum til Stokkhólms, þar sem hann flytur sömu efnisskrá í Dómkirkjunni (Storkyrkan) sunnudaginn 9. nóvember. Föstudaginn 7. nóvember heldur kórinn kynningartónleika með alíslenskri efnisskrá í Konunglega Tónlistarháskólanum. Þar verða kynnt kórlög sem geislaplatan Foldarskart inniheldur, en hún kom út fyrir þremur árum.