Sjá himins opnast hlið- Jólatónleikar Mótettukórsins

Tónleikar Schola Cantorum á allra heilagra messu í Hallgrímskirkju 2. nóvember klukkan 17.00
31/10/2014
Jólatónlistarhátíð Hallgrímskirkju 30. nóv. – 31. des. 2014
29/11/2014
Sýna allt

Sjá himins opnast hlið- Jólatónleikar Mótettukórsins

Mótettukór Hallgrímskirkju hefur í rúm þrjátíu ár glatt Íslendinga á jólum, og skipa jólatónleikar kórsins veglegan sess í ríkulegu tónleikahaldi í Reykjavík. Í september síðastliðnum vann kórinn til þriggja gullverðlauna í alþjóðlegu kórakeppninni Cançó Mediterrània á Spáni ásamt því að hljóta Grand Prix verðlaun sem besti kór keppninnar.

Í ár heldur kórinn þrenna tónleika á aðventunni þar sem hinn hreini kórsöngur skreyttur orgelleik verður í sviðsljósinu.

Mótettukórsfélagar munu láta ljós sitt skína í ýmsum hlutverkum á tónleikunum og verður orgelleikur á hið mikla Klais-orgel Hallgrímskirkju til að mynda í höndum Lenku Matéova, organista og kórfélaga. Stjórnandi er Hörður Áskelsson.

Á Pdf - Icon efnisskránni er hátíðleg aðventu- og jólatónlist þar sem ofnir eru saman þýskir barokksálmar eftir Praetorius, Schein, Händel og Eccard, og sjaldheyrðir enskir jólasöngvar frá 20. öld eftir m.a. Gustav Holst, Andrew Carter og Harold Darke. Auk þess verður fluttur fjöldinn allur af þekktum jólasálmum og nýlegri verkum, m.a. eftir tónskáldið og lækninn Sigvalda Kaldalóns og bandarísku tónskáldin Eric Whitacre og Morten Lauridsen.

Í vændum er hugljúf stund á aðventunni.

Haldnir verða þrennir tónleikar í Hallgrímskirkju, laugardaginn 6. desember kl. 17, sunnudaginn 7. desember kl. 17 og þriðjudaginn 9.desember kl. 20. Almennt verð: 3.500 kr. / Afsláttarverð (ellilífeyrisþegar, nemar): 2.500 kr

Nánari upplýsingar veita Hörður Áskelsson, s. 693 6690, og Sara Elísabet Svansdóttir, s. 896 8501. Miðasala fer fram í Hallgrímskirkju, s. 510 1000, og á midi.is.