Jólatónlistarhátíð Hallgrímskirkju 30. nóv. – 31. des. 2014

Sjá himins opnast hlið- Jólatónleikar Mótettukórsins
14/11/2014
Jólatónlistarhátíð Hallgrímskirkju 3. des.
02/12/2014

Jólatónlistarhátíð Hallgrímskirkju 30. nóv. – 31. des. 2014

Jólatónlistarhátíð Hallgrímskirkju hefst sunnudaginn 30. nóvember nk. og stendur til 31. desember.
Þetta er tíunda skiptið, sem Listvinafélagið stendur fyrir Jólatónlistarhátíð. Eins og undanfarin ár býður hátíðin upp á marga spennandi viðburði.

Hátíðin hefst með hátíðarmessu 30. nóvember kl. 11.00 í beinni útsendingu á Rás 1. Schola cantorum flytur kantötuna Nun komm der Heiden Heiland BWV 61 eftir J. S. Bach ásamt hljóðfæraleikurum og einsöngvurunum Braga Bergþórssyni tenór,  Thelmu Hrönn Sigurdórsdóttur sópran og  Fjölni Ólafssyni bassa.

Stjórnandi er Hörður Áskelsson og orgelleikari Björn Steinar Sólbergsson.

Kl. 17 sama dag eru orgeltónleikar undir yfiskriftinni Nú kemur heimsins hjálparráð, þ.s. Björn Steinar Sólbergsson leikur aðventu- og jólatónlist eftir J. S. Bach, Andrew Carter, César Franck og Max Reger.

Mótettukór Hallgrímskirkju, sem nýverið vann til þriggja gullverðlauna í Alþjóðlegri kórakeppni á Spáni heldur þrenna tónleika, 6., 7. og 9. desember, sem bera yfirskriftina Sjá, opnast himins hlið þ.s. söngur kórsins og einsöngur kórfélaga er í sviðsljósinu. Kórfélagar leggja mikinn metnað í jólatónleika sína með vönduðum söng og fagurri umgjörð, og er kirkjan sett í sérstakan jóla hátíðarbúning á tónleikum kórsins. Á efnisskránni eru fjölradda kórverk endurreisnartímans fyrir tvo kóra í bland við enska og ameríska jólatónlist frá 20. öld, auk vel þekktra jólalaga. Einsöngvarar eru úr röðum kórfélaga, m.a. Þórgunnur Anna Örnólfsdóttir, Auður Perla Svansdóttir, Ásta Marý Stefánsdóttir, Alexandra Kjeld sópran og Þórhallur Sigurðsson tenór.

Schola cantorum heldur einnig þrenna tónleika á Jólatónlistarhátíðinni, tvenna hádegistónleika miðvikudagana 3. og 17. desember kl. 12 undir yfirskriftinni Kom þú kom vor Immanúel og Hátíð fer að höndum ein og einnig hátíðartónleika 28. desember kl. 17, þ.s. Fjölnir Ólafsson barítón og Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir sópran eru meðal einsöngvara. Á efnisskránni er bæði ný og þekkt jólatónlist eins og Ó, helga nótt og einnig verða frumfluttir nýir enskir jólasöngvar eftir Hafliða Hallgrímsson.

Auk orgeltónleika Björns Steinars býður Þýska sendiráðið í Reykjavík í samvinnu við Listvinafélagið tónleika með orgelstjörnunni Christian Schmitt, sem nýverið vann „Echo“, ein æðstu verðlaun tónlistarmanna í Þýskalandi. Til gamans má geta þess að Schmitt var fenginn á vegum sendiráðsins til að leika á 10 ára afmæli Klaisorgelsins. Nú kemur hann í þriðja sinn og heldur að þessu sinni jólatónleika með fjölbreyttri orgeltónlist. Óhætt er að segja að Christian Schmitt sé einn eftirsóttasti ungi konsertorganisti heimsins í dag og er það Listvinafélaginu því mikill heiður að fá hann til að koma fram á Jólatónlistarhátíðinni. Aðgangur að tónleikum hans er ókeypis.

Lokatónleikar Jólatónlistarhátíðar eru hinir sívinsælu Hátíðarhljómar við áramót 31. desember klukkan 17.00, þar sem trompetleikararnir Einar St. Jónsson, Ásgeir H. Steingrímsson og Eiríkur Örn Pálsson, pákuleikarinn Eggert Pálsson og Hörður Áskelsson organisti Hallgrímskirkju flytja hátíðartónlist eftir Vivaldi, J. S. Bach, Albinoni o. fl.

Miðasala er í Hallgrímskirkju og á midi.is.

Pdf - Icon Dagskráin í heild sinni.

Allar nánari upplýsingar veita:
Inga Rós Ingólfsdóttir sellóleikari, framkvæmdastjóri s. 696 2849 og
Hörður Áskelsson listrænn stjórnandi og kantor Hallgrímskirkju, s. 693 6690.