Ómennskan tekur völdin sunnudaginn 31. janúar kl. 17.00 í Hallgrímskirkju. Þá nýtir hópur tónskálda sér hinn nýja midi-búnað Klaisorgelsins til að skapa verk sem eru langt ofar mannlegri getu í flutningi. Tónleikarnir heita Á mörkum hins mannlega og á þeim kynnast áheyrendur glænýjum hljóðheimi sem íslensk tónskáld eru rétt farin að kanna.
Þetta er í fjórða sinn sem midi-búnaðurinn er notaður á þennan hátt og hafa tónleikarnir ávallt vakið mikla athygli og verið afar vel sóttir. Tónleikarnir að þessu sinni hlutu styrk frá Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins um síðustu áramót.
Tónskáldin sem eiga verk á sunnudaginn eru Elín Gunnlaugsdóttir, Gunnar Andreas Kristinsson, Hlynur A. Vilmarsson, Úlfur Hansson, Ragnhildur Gísladóttir og Áki Ásgeirsson. Áki aðstoðar jafnframt við tæknilega útfærslu og er umsjónarmaður ásamt Gunnari Andreasi. Aðgangseyrir á tónleikana er 2500 krónur. Miðasala er við innganginn og á midi.is
Gunnar Andreas Kristinsson nam tónsmíðar í Reykjavík, Köln og Haag á árunum 1997-2004. Hann hefur samið verk af ýmsum toga, allt frá einleiksverkum til hljómsveitarverka, sem ratað hafa inn á tónlistarhátíðir víðs vegar um heim og verið flutt af ýmsum nafnkunnum tónlistarmönnum/-hópum. Gunnar hlaut Kraumsverðlaunin 2013 fyrir geisladiskinn Patterns og auk þess tilnefningar í flokkunum Tónverk ársins og Tónhöfundur ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum sama ár.
Ragnhildur Gísladóttir lauk MA-prófi í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands vorið 2013. Hún hefur starfað sem tónlistarmaður um árabil. Auk þess hefur Ragnhildur samið tónlist við kvikmyndir, leikrit og dansverk. Hún hefur verið þátttakandi í Myrkum músikdögum, Norrænum músikdögum og Listahátíð í Reykjavík sem og Reykjavík Dance Festival.
Áki Ásgeirsson tónskáld og tónlistarmaður fæddist árið 1975 í Keflavík. Hann nam við Tónlistarskólann í Reykjavík og við Konunglegu akademíuna í Den Haag í Hollandi en býr nú í Reykjavík. Hann hefur samið tónlist bæði fyrir hljóðfæri og tölvur. Verk Áka hafa verið flutt um víða veröld og hefur m.a. Sinfóníuhljómsveit Íslands flutt verk eftir hann, einnig Michael Manion og norski tónlistarhópurinn POING. Áki hefur einnig starfað sem trompetleikari og þá mestmegnis í tilraunakenndri músík. Hann hefur einnig þróað svokallaðan SensorTrompet, raftrompet með tökkum og tengjum sem gera honum kleift að kallast á við tölvu.
Hlynur A.Vilmarsson lærði tónsmíðar við Tónlistarskólann í Reykjavík og raftónlist við Tónlistarskóla Kópavogs frá 1997 til 2000. Undanfarin ár hefur hann sótt masterklassa hjá Brian Ferneyhough og fleirum og lagt stund á nám í tölvuverkfræði við Háskóla Íslands. Tónlist hans hefur verið flutt í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu af hópum á borð við Kammarensamblen, Njuton Ensemble og Uusinta Chamber Ensemble. Hlynur er einn af stofnendum Reykjavik Media Lab og er einnig starfandi innan tónskáldahópsins S.L.Á.T.U.R.
Elín Gunnlaugsdóttir er starfandi tónskáld og tónlistarkennari á Selfossi. Hún lauk tónmenntakennaraprófi og tónfræðaprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Árið 1998 lauk hún framhaldsnámi frá Konunglega tónlistarháskólann í Den Haag. Verk hennar hafa verið flutt hér heima, í Evrópu, Bandaríkjunum og Ástralíu. Elín hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir tónsmíðar sínar en skráð verk eftir hana eru um 40 talsins.
Úlfur Hansson leggur stund á raftónlist og upptökutækni við Mills College í Kaliforníu en áður lærði hann tónsmíðar og nýmiðlun við Listaháskólann. Hann hefur gefið út þrjár plötur, fyrir þá fyrstu hlaut hann tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna, og hafa þær komið út bæði í Evrópu, Norður-Ameríku og Japan. Úlfur hefur ferðast víða um heim sem tónlistarmaður, meðal annars með Jónsa úr Sigur Rós, og hlotið nýsköpunarstyrk frá Rannís til þróunar og framleiðslu á rafsegulhörpu.