Norskur spunameistari við orgelið á sunnudaginn

Ómennskt orgel – Rafmögnuð nýsköpun í Hallgrímskirkju um helgina
27/01/2016
Spásýnir og handanheimar – Myndlistasýning byggð á Sólarljóðum
11/02/2016
Sýna allt

Norskur spunameistari við orgelið á sunnudaginn

Orgelspuni er eitt af því sem er á dagskránni næstkomandi sunnudag í Hallgrímskirkju, en þá heldur Inger-Lise Ulsrud, kennari í orgelspuna við Tónlistarháskólann í Osló og organisti við Uranienborgarkirkju þar í borg, tónleika. Einnig verða á dagskránni föstutengd verk eftir J.S. Bach, Howels, Duruflé, Vierne, Reger og Mulet.

Spuni var á öldum áður á færi hvers einasta hljóðfæraleikara í löndum Evrópu og er talið að sjálfur Bach hafi spunnið heilu fúgurnar á stund og stað. Menjar um þetta eru svokallaðar kadensur í einleikskonsertum, þar sem skilið var eftir rúm fyrir hljóðfæraleikarann til að spinna, en nú til dags er yfirleitt notast við fyrirframskrifaðar kadensur.

Með tímanum urðu klassískir hljóðfæraleikarar fyrst og fremst flytjendur. En spunahefðin hefur lifað góðu lífi meðal organista bæði í Frakklandi og Þýskalandi, sem helgast af þörfinni fyrir spuna við messuhald. Vissir hlutar messunnar, til að mynda altarisgangan, hafa breytilega lengd eftir fjölda kirkjugesta og því er nauðsynlegt fyrir organistann að geta spunnið út frá sálmalagi til dæmis í sveigjanlegri tímalengd.

Inger-Lise sótti menntun sína meðal annars til Þýskalands, þar sem áhersla í orgelmenntun er á fjölhæfni: Spuna, stjórn, tónsmíðar og söng. Þar lærði hún meðal annars hjá Almut Rössler, vinkonu Messiaëns, og hefur einmitt sérhæft sig í flutningi verka hans. Hún gaf árið 2009 út geisladisk með orgelverkum Messiaëns.

Þetta er í þriðja sinn sem Inger-Lise leikur í Hallgrímskirkju, en hún var fulltrúi Noregs á Norrænu kirkjutónlistarmóti hér á landi fyrir þremur árum síðan og hefur einnig leikið á Alþjóðlegu orgelsumri í Hallgrímskirkju.

Tónleikarnir sunnudaginn 14. febrúar hefjast kl 17.00.

Aðgangseyrir: 2500 kr. / Listvinir: 50% afsláttur.