„Ó sól mín lífs“ – Jólatónleikar Mótettukórs Hallgrímskirkju

St. Cecilia
Tónleikar til heiðurs heilagri Cecilíu í Hallgrímskirkju laugardaginn 19. nóvember kl. 14. – Aðgangur ókeypis!
18/11/2016
Málfríður Aðalsteinsdóttir
Opnun Himinhvelfingar
25/11/2016
Sýna allt

„Ó sól mín lífs“ – Jólatónleikar Mótettukórs Hallgrímskirkju

Jólatónleikar Mótettukórs Hallgrímskirkju

Sunnudaginn 4. desember kl. 17
Þriðjudaginn 6. desember kl. 20

Fram koma:
Mótettukór Hallgrímskirkju
Maria Keohane, sópran
Mattias Wager, orgel
Stjórnandi er Hörður Áskelsson

Mótettukór Hallgrímskirkju hefur í rúm þrjátíu ár glatt Íslendinga á jólum og skipa jólatónleikar kórsins veglegan sess í tónleikahaldi í aðdraganda jólanna.
Í ár heldur kórinn tvenna tónleika á aðventunni og mun norrænn blær svífa yfir vötnum því með kórnum koma fram tvær sænskar tónlistarstjörnur. Það eru þau Mattias Wager, höfuðorganisti við Storkyrkan í Stokkhólmi og einn virtasti orgelvirtúós á Norðurlöndum, og Maria Keohane, ein dáðasta barokk- og þjóðlagasöngkona Svía.

Á efnisskránni verður fjölbreytilegt samansafn af hátíðlegri og hlýlegri aðventu- og jólatónlist, sér í lagi af norrænum uppruna, m.a. mörg af vinsælustu jólalögum Svía eins og Betlehemsstjarnan eftir Alice Tegnér og Jul, jul strålande jul eftir Gustav Nordqvist. Einnig verður hið klassíska jólalag Ó helga nótt eftir Adolphe Adam flutt á sænsku líkt og Jussi Björling gerði svo eftirminnilega. Þá mun Maria Keohane flytja aríuna ”Rejoice greatly” úr Messíasi eftir Händel. Mótettukórinn mun flytja mörg af uppáhaldsjólalögum sínum, klassískar erlendar perlur eftir Eccard, Otto Olsson o.fl. sem og íslenska jólasálma og nýrri verk, m.a. eftir Halldór Hauksson sem og hina dásamlegu Betlehemsstjörnu Áskels Jónssonar. Einnig mun Mattias Wager sýna snilli sína við orgelspuna og ásamt Mótettukórnum og Mariu velta upp óvæntum hliðum á nokkrum vel þekktum jólalögum.

Það verður enginn svikinn af einstaklega hugljúfum og hrífandi tónleikum með sænskum sjarma.

Athugið, í ár verða einungis tvennir tónleikar, sunnudaginn 4. desember kl 17. og þriðjudaginn 6. desember kl 20.

Miðasala er í Hallgrímskirkju (S: 510 1000) og á tix.is. Nánari upplýsingar veita Snorri Sigurðsson s. 823 5339 og Inga Rós Ingólfsdóttir s. 696 2849.

Nánar um flytjendurna:

Maria Keohane

Maria Keohane

Maria Keohane:

Sænska sópransöngkonan Maria Keohane er mjög fjölhæf. Hún syngur tónlist frá ólíkum skeiðum tónlistarsögunnar, allt frá barokki til samtímans, bæði í óperu- og konsertsölum. Glæsilegur söngferill hennar hefur tengt hana mörgum þekktum tónlistarhópum og stjórnendum á hátíðum víða um lönd. Hún hefur m.a. tekið þátt í uppfærslum í Drottningarhólmsleikhúsinu í Stokkhólmi, Concertgebouw í Amsterdam, á Listahátíðinni í Edinborg, Bozar í Brüssel, Tanglewood í Bandaríkjunum og Händelhátíðum í Halle og Göttingen í Þýskalandi. Hún kemur nú fram í fyrsta sinn á Íslandi.

Maria er mikill náttúruunnandi. Hún býr í Dölunum í Svíþjóð þar sem hún unir sér vel með hestunum sínum á milli þess sem hún kemur fram á tónleikum vítt og breitt um lönd.

Mattias Wager

Mattias Wager

Mattias Wager:

Er einn þekktasti organisti Norðurlandanna, og hefur gegnt starfi dómorganista við Storkyrkan í Stokkhólmi frá 2006 þar sem hann lék meðal annars við brúðkaup Viktoríu krónprinsessu og Daníels prins árið 2011. Hann nam orgelleik og kirkjutónlist við Konunglega tónlistarháskólann í Stokkhólmi og hlaut verðlaun Konunglega tónlistarháskólans fyrir lokatónleika sína árið 1992 en framhaldsnám stundaði hann í Bonn og París. Mattias hefur unnið fjölda alþjóðlegra verðlauna fyrir leik sinn og tekið þátt í listahátíðum og haldið tónleika víða um Evrópu og í Brasilíu. Hann hefur kennt orgelleik og spuna við alla helstu tónlistarháskóla Svíþjóðar.

Frá 1995 hefur Mattias Wager heimsótt Ísland reglulega og verið gestakennari við Tónskóla þjóðkirkjunnar auk þess að halda fjölda tónleika. Mattias þykir afar fær í spuna og hefur einnig skrifað tónlist fyrir leikrit sem hafa verið flutt víða um Svíþjóð.

Mótettukór Hallgrímskirkju

Mótettukór Hallgrímskirkju

Mótettukór Hallgrímskirkju:

Mótettukór Hallgrímskirkju hefur lengi verið meðal fremstu kóra Íslands. Verkefnalisti kórsins er langur og fjölskrúðugur. Þar má finna fjölmargar óratóríur, passíur og sálumessur en líka kórverk án undirleiks frá ýmsum tímum, auk þess sem kórinn hefur frumflutt fjölda íslenskra tónverka. Mótettukórinn hefur farið í margar tónleikaferðir og í september 2014 vann kórinn til þriggja gullverðlauna á Alþjóðlegu kórakeppninni Cançó Mediterrània á Spáni þar sem kórinn vann einnig Grand Prix verðlaun sem besti kór keppninnar. Meðal stórverka sem Mótettukórinn hefur flutt á síðustu árum má nefna Matteusarpassíu, Jóhannesarpassíu, Jólaóratóríu og H-moll messu Bachs, Salomon eftir Händel, sálumessur eftir Mozart, Duruflé og Fauré, óratóríurnar Elía og Paulus eftir Mendelssohn, Vesper eftir Rachmaninoff, Messu fyrir tvo kóra eftir Frank Martin og Þýska sálumessu eftir Johannes Brahms.

Meðal nýlegra verkefna kórsins má nefna flutning á lokakafla 9. sinfóníu Beethovens með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu í byrjun september og á Te Deum eftir Charpentier og Messu í F-dúr eftir Bach á 30 ára vígsluafmælistónleikum Hallgrímskirkju 29. október sl. ásamt einsöngvurum og Alþjóðlegu barokksveitinni í Hallgrímskirkju.

Mótettukórinn hefur gefið út fjölmarga geisladiska, þar á meðal nokkra vinsæla jóladiska.

Hörður Áskelsson

Hörður Áskelsson

Hörður Áskelsson:

Hörður Áskelsson hefur verið organisti og kantor Hallgrímskirkju frá því hann lauk framhaldsnámi í Düsseldorf í Þýskalandi árið 1982. Hann hefur gegnt lykilhlutverki í uppbyggingu listalífs kirkjunnar og stóð meðal annars að stofnun Listvinafélags Hallgrímskirkju, Kirkjulistahátíðar og Alþjóðlegs orgelsumars. Árið 1982 stofnaði hann Mótettukór Hallgrímskirkju og kammerkórinn Schola cantorum árið 1996. Með kórunum hefur hann flutt flestar helstu perlur kórbókmenntanna bæði með og án undirleiks.

Hörður hefur kennt orgelleik og kórstjórn við Tónskóla þjóðkirkjunnar og á árunum 1985-1995 var hann lektor í litúrgískum söngfræðum við guðfræðideild Háskóla Íslands. Hörður gegndi embætti Söngmálastjóra þjóðkirkjunnar árin 2005-2011.

Hörður hefur hlotið margsháttar viðurkenningar fyrir framlag sitt til tónlistarlífs á Íslandi, þ.á m. Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2001, Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 2004 og Íslensku bjartsýnisverðlaunin árið 2006.