Lára Bryndís Eggertsdóttir organisti leikur á níundu og síðustu tónleikum ORGELSUMARS 2020 fimmtudaginn 20. ágúst kl. 12.30

Eyþór Franzson Wechner
Eyþór Franzson Wechner leikur á áttundu tónleikum ORGELSUMARS 2020 fimmtudaginn 13. ágúst kl. 12.30
06/08/2020
LJÓÐLIST YFIR TÍMANS HAF Laugardagur 24. apríl kl. 16 í Listasafni Einars Jónssonar
LJÓÐLIST YFIR TÍMANS HAF Laugardagur 24. apríl kl. 16 í Listasafni Einars Jónssonar
23/04/2021

Lára Bryndís Eggertsdóttir organisti leikur á níundu og síðustu tónleikum ORGELSUMARS 2020 fimmtudaginn 20. ágúst kl. 12.30

Lára Bryndís Eggertsdóttir

Listvinafélag Hallgrímskirkju stendur fyrir hádegistónleikum með íslenskum organistum alla fimmtudaga í sumar frá 25. júní – 20. ágúst undir heitinu ORGELSUMAR Í HALLGRÍMSKIRKJU 2020 , en vegna heimsfaraldursins varð að fresta Alþjóðlegu Orgelsumri 2020 í Hallgrímskirkju. 

Íslenskir organistar munu sjá til þess að Klais-orgel Hallgrímskirkju þagni þó ekki og á tónleikum sumarsins gefst áheyrendum kostur á að heyra 9 íslenska organista sem starfa við kirkjur víða um land leika listir sínar í Hallgrímskirkju. 

Á efnisskrá þessara orgeltónleika er aldrei þessu vant ekki eitt einasta orgelverk, heldur eingöngu eigin orgelumritanir Láru Bryndísar á píanó- og hljómsveitarverkum: kaflar úr hinum vel þekktu Rímnadanslögum Jóns Leifs, Rúmenskir þjóðdansar sem Béla Bartók útfærði listavel bæði fyrir píanó og hljómsveit, og síðast en ekki síst hið magnaða tónaljóð Moldá (Vltava) eftir tékkneska tónskáldið Bedřich Smetana.

Lára Bryndís Eggertsdóttir byrjaði ung að læra á píanó og 14 ára gömul tók hún fyrstu skrefin sem afleysingaorganisti í Langholtskirkju. Hún lauk einleikaraprófi frá Tónskóla þjóðkirkjunnar með hæstu einkunn vorið 2002 undir handleiðslu Harðar Áskelssonar. Lára Bryndís flutti árið 2018 aftur heim til Íslands eftir 10 ára búsetu í Danmörku þar sem hún lauk meistaraprófi í kirkjutónlist frá Tónlistarháskólanum í Árósum vorið 2014. Aðalkennarar hennar þar voru Ulrik Spang-Hanssen og Lars Colding Wolf. Einnig starfaði hún sem organisti við Sønderbro kirkju í Horsens og semballeikari hjá barokksveitinni BaroqueAros í Árósum. Á námstímanum hlaut Lára ýmsar viðurkenningar fyrir frábæran námsárangur og má þar nefna styrk úr Minningarsjóði Jean-Pierre Jacquillat árið 2002, önnur verðlaun í einleikarakeppni Prinsens Musikkorps í Danmörku árið 2013 og Tónlistarverðlaun Rótarý á Íslandi árið 2014. 

Frá því í september 2018 hefur Lára Bryndís verið organisti Hjallakirkju í Kópavogi auk þess að kenna við Tónskóla Þjóðkirkjunnar. 
Lára hefur haldið fjölmarga einleikstónleika á orgel, bæði hérlendis og á hinum Norðurlöndunum. Enn fremur stóð hún árið 2014 fyrir tónlistarverkefninu „Ég heyrði þytinn frá vængjum þeirra“, þar sem sjö íslensk tónskáld sömdu orgelverk að beiðni Láru, og gaf út samnefndan geisladisk.

Aðgangseyrir er 1500 krónur fyrir fullorðna, ókeypis fyrir félaga í Listvinafélaginu og börn yngri en 16 ára. Miðasala er við innganginn.

Athugið að vegna hertra sóttvarnarreglna verða einungis 100 miðar í boði og biðlað er til gesta að virða 2 metra regluna. Sökum strærðar Hallgrímskirkju verður hægt að tryggja 2 metra á milli sæta í kirkjunni.