Kór Harvardháskóla föstudaginn 20. janúar kl. 20

Trompetar og orgel
Hátíðarhljómar við áramót Gamlársdag kl 16.30 – Ath. breyttan tíma
26/12/2016
Klais
Klais-MIDI tónleikar í Hallgrímskirkju
26/01/2017

Kór Harvardháskóla föstudaginn 20. janúar kl. 20

Harvardháskóli í Cambridge

Kór Harvardháskóla heldur tónleika í Hallgrímskirkju föstudaginn 20. janúar kl. 20 á vegum Listvinafélags Hallgrímskirkju. Kórinn, sem er skipaður rúmlega 30 söngvurum, flytur afar áhugaverða efnisskrá með nýlegri bandarískri og breskri kórtónlist og eldri verkum eftir William Byrd o.fl., ásamt mótettunni „Der Geist hilft unser Schwachheit auf“ eftir J.S. Bach. Stjórnandi er Edward Elwyn Jones, organisti og kórstjóri við Memorial Church í Harvard. Einnig mun Thomas Sheehan, einn efnilegasti organisti Bandaríkjanna, leika verk eftir J.S. Bach og Hans Friedrich Micheelsen.

Harvardháskóli í Cambridge í Massachusetts í Bandaríkjunum er einn virtasti háskóli heims, eins og kunnugt er. Kór háskólans, Harvard University Choir, nýtur sömuleiðis mikillar virðingar og er oft talinn fremsti háskólakór Bandaríkjanna. Kórinn hefur í meira en 180 ár veitt háskólastúdentum dýrmætt tækifæri til að taka þátt í flutningi á helstu verkum kórbókmenntanna jafnt á tónleikum víða um lönd sem í guðsþjónustum í Memorial Church. Kórinn flytur bæði óratóríur og önnur stórverk með hljómsveitum en einnig verk án undirleiks frá öllum skeiðum tónlistarsögunnar, auk þess sem hann hefur frumflutt fjölda tónverka sem samin hafa verið sérstaklega fyrir hann. Jólatónleikaröð kórsins er sú elsta í Bandaríkjunum og sívinsæl, og sömu sögu má segja um árlega vortónleika kórsins. Gerðar eru miklar kröfur til söngvaranna um söngtækni og færni í nótnalestri enda er dagskrá kórsins afar þéttskipuð: dagleg þátttaka í helgihaldi, útvarpsútsendingar, tónleikaferðir og hljóðritanir. Fjölmargir efnilegir tónlistarnemendur við Harvard, jafnt söngvarar, hljóðfæraleikarar, stjórnendur sem tónskáld, hafa í áranna rás breikkað sjóndeildarhring sinn með þátttöku í kórstarfinu og öðlast ómetanlega reynslu sem hefur gagnast þeim síðar á tónlistarferlinum.

Stjórnandi kórsins, Edward Elwyn Jones, er fæddur í Wales en hefur verið organisti og kórstjóri við Memorial Church í Harvard frá árinu 2003. Jones hefur stjórnað fjölmörgum kórum og hljómsveitum á Bretlandseyjum og í Bandaríkjunum og hefur unnið sem hljómborðsleikari og aðstoðarstjórnandi með John Eliot Gardiner og hinni virtu barokksveit English Baroque Soloists. Jones hefur hlotið mikið lof fyrir þróttmikið starf sitt í Harvard á undanförnum árum og þykir meðal áhugaverðustu tónlistarmanna á Boston-svæðinu í Nýja-Englandi, þar sem tónlistarlíf er mjög líflegt.

Miðasala á tónleikana er við innganginn og er miðaverð 3000 kr, en 50 % afsláttur er veittur félögum í Listvinafélagi Hallgrímskirkju, öldruðum og öryrkjum. Nemendur fá frítt inn.

Sérstakar þakkir fá Menntaskólinn við Hamrahlíð, Hamrahlíðarkórarnir og Þorgerður Ingólfsdóttir fyrir aðstoð við komu Harvard University Choir til Íslands, en Hamrahlíðarkórarnir hýsa erlendu gestina og skólinn veitir þeim ýmiss konar fyrirgreiðslu.

Efnisskrá:
Weir: My Guardian Angel
DeBlasio: Psalm 63
Stanford: Beati Quorum Via
Byrd: Praise Our Lord, All Ye Gentiles

Orgelleikur – Bach: Christ, unser Herr, zum Jordan kam, BWV 684

Bach: Der Geist hilft unser Schwachheit auf, BWV 226
Stucky: Speak, Lord
Parry: There Is an Old Belief
Paulus: Pilgrims’ Hymn

HLÉ

Elgar: Great Is the Lord
Whitbourn: Pure River of Water of Life
Cooman: Verbum supernum prodiens
Sigurbjörnsson: Heyr, himna smiður

Orgelleikur – Micheelsen: Toccata über Es sungen drei Engel

Lassus: Omnes de Saba
Rütti: A Patre Unigenitus
Jones: Suo-gan
Bean: Simple Gifts

 Harvardháskóli í Cambridge