Klais-MIDI tónleikar í Hallgrímskirkju

Harvardháskóli í Cambridge
Kór Harvardháskóla föstudaginn 20. janúar kl. 20
18/01/2017
Schubert
Schubert ljóðakvöld í suðursal Hallgrímskirkju 15. febrúar kl. 20
10/02/2017

Klais-MIDI tónleikar í Hallgrímskirkju

Klais

Myrkir Músíkdagar í samstarfi við Listaháskóla Íslands og Listvinafélag Hallgrímskirkju kynna Klais-MIDI tónleika í Hallgrímskirkju föstudaginn 27. janúar kl. 16:00.

Meistaranemar í tónsmíðum við LHÍ og Liszt akademíuna í Búdapest hafa sameinast á námskeiði um forritun Klais orgelsins í Hallgrímskirkju dagana 23.-27. janúar. Leiðbeinendur á námskeiðinu voru Guðmundur Vignir Karlsson og Sveinn Ingi Reynisson sem starfað hafa með MIDI búnað Klais-orgelsins með góðum árangri áður.
Afrakstur námskeiðsins má hlýða á tónleikum í Hallgrímskirkju föstudaginn 27. janúar kl. 16. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.

Konsertorgel Hallgrímskirkju, sem smíðað var í orgelsmiðju Johannes Klais í Bonn í Þýskalandi, er stærsta hljóðfæri landsins. Orgelið var vígt 13. desember 1992. Stærð þess, glæsileg hönnun og hljómgæði í samspili við afburða orgelhljómburð og fegurð innrýmis Hallgrímskirkju hafa gert þetta orgel mjög eftirsótt um allan heim.

Orgelið hefur 4 hljómborð og fótspil, 72 raddir og 5275 pípur. Orgelið er 15 metra hátt, vegur um 25 tonn og stærstu pípurnar eru um 10 metra háar. Árið 2012 var orgelið hreinsað og endurbætt og jafnframt var tölvubúnaður orgelsins uppfærður. Orgelið býr nú yfir nýjustu gerð MIDI-búnaðar sem gefur möguleika til að leika á það með tölvum og öðrum utanaðkomandi búnaði.