Hátíðarhljómar við áramót Gamlársdag kl 16.30 – Ath. breyttan tíma

Jólin
J. S. Bach jólaóratórían I-III BWV 248
14/12/2016
Harvardháskóli í Cambridge
Kór Harvardháskóla föstudaginn 20. janúar kl. 20
18/01/2017

Hátíðarhljómar við áramót Gamlársdag kl 16.30 – Ath. breyttan tíma

Trompetar og orgel

Hátíðarhljómar við áramót eru nú haldnir í 24.sinn í Hallgrímskirkju, þar sem dregnir eru upp lúðrar og pákur og áramótin spiluð inn að vanda við hrífandi orgelundirleik. Trompetleikararnir Ásgeir H. Steingrímsson, Eiríkur Örn Pálsson og Einar St. Jónsson, Eggert Pálsson pákuleikari og Björn Steinar Sólbergsson orgelleikari flytja glæsileg hátíðarverk m.a. eftir Vivaldi, Purcell, Bach og Albinoni. Þessir gríðarlega vinsælu tónleikar hefjast kl. 16.30- ath breyttan tíma. Aðgangseyrir er 3.900 krónur, hálfvirði fyrir listvini, öryrkja og nemendur.

Miðar á tónleikana fást á tix.is, í Hallgrímskirkju, s. 510 1000 og við innganginn.

Þetta  er í 24. sinn sem Listvinafélag Hallgrímskirkju býður upp á tónleika undir yfirskriftinni Hátíðarhljómar við áramót. Áramótastemmningin byrjar með hátíðarhljómum þeirra félaga, enda njóta þessir tónleikar gríðarlegra vinsælda og hafa þeir leikið fyrir fullu húsi á gamlárskvöld allt frá vígslu Klais orgelsins 1992. Björn Steinar Sólbergsson leysir Hörð Áskelsson kantor Hallgrímskirkju af á þessum tónleikum. Lúðraþytur og trumbursláttur hafa um aldir tengst hátíðum. Fyrirmyndir þess má finna í elstu sálmabók kirkjunnar, Saltaranum, þar sem Drottinn er lofaður með bumbum og málmgjöllum. Lúðraköll – fanfarar tengjast bæði konunglegum lífvörðum og herkvaðningum af ýmsum toga og í kirkjunni hafa þessi hljóðfæri meðal annars verið notuð þegar upprisu Krists er fagnað á páskum og með dýrðarsöng englanna á Betlehemsvöllum.

Flest verkin eiga uppruna sinn á barokktímabilinu. Á efnisskránni eru fanfarar og hátíðleg tónlist. Meðal þeirra eru Forleikur að Te Deum eftir Charpentier (EBU lagið)  Björn Steinar leikur hina þekktu Tokkötu í d-moll eftir Bach. Þá má ekki gleyma hinu fræga Adagio eftir Albinoni sem Ítalinn Giazotto umritaði.

Ásgeir Hermann Steingrímsson, Eiríkur Örn Pálsson og Einar St. Jónsson luku allir tónlistarnámi við Tónlistarskólann í Reykjavík áður en þeir fóru í framhaldsnám í Bandaríkjunum. Ásgeir lauk BM prófi frá Mannes College of Music í New York, Eiríkur lauk BA prófi frá Merklee College of Music í Boston og MFA gráðu frá Californian Institute of the Arts í Los Angeles og Einar BM prófi frá Indiana University. Í dag eru þeir allir þrír fastráðnir í Sinfóníuhljómsveit Íslands auk þess að mjög virkir í tónlistarlífi höfuðborgarsvæðisins. Þeir hafa allir leikið með Kammersveit Reykjavíkur og Hljómsveit Íslensku óperunnar, leikið í ýmsum stórsveitum, svo sem Stórsveit Ríkisútvarpsins og Stórsveit Reykjavíkur auk þess sem Eiríkur er einn af stofnfélögum Cabut hópsins. Þá hafa þeir leikið einleik með þessum hljómsveitum. Einnig kenna þeir trompetleik við ýmsa tónlistarskóla á höfuðborgarsvæðinu.

Eggert Pálsson stundaði nám á píanó og slagverk við Tónlistarskólann í Reykjavík og hélt þaðan til Vínar í Austurríki þar sem hann lagði stund á slagverksnám við Listaháskólann í Vín. Hann hefur lengi verið fastráðinn pákuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands auk þess að taka þátt í mörgum hliðum íslensks tónlistarlífs undanfarna þrjá áratugi. Hann er félagi í slagverkshópnum Benda og Kammersveit Reykjavíkur. Hann hefur einnig leikið með tónlistarhópnum Caput og er félagi í sönghópnum Voces Thules sem flytur margar tegundir söngtónlistar, helga sem heiðna.
Björn Steinar Sólbergsson er organisti við Hallgrímskirkju og skólastjóri Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Björn Steinar stundaði framhaldsnám í Róm hjá James E. Göettsche og í París hjá Susan Landale. Hann starfaði sem organisti við Akureyrarkirkju í 20 ár og vann að uppbyggingu tónlistarstarfs þar. Björn Steinar hefur haldið fjölda einleikstónleika hér heima og erlendis og leikið einleik meðal annars með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín, m.a. var hann Bæjarlistamaður Akureyrar og hlaut Íslensku bjartsýnisverðlaunin.