Alþjóðlegt orgelsumar 2017

Schola Cantorum
Kammerkórinn Schola cantorum býður frítt á tónleika í Hallgrímskirkju á Uppstigningadag 25. maí kl. 17
24/05/2017
Dina Ikhina og Denis Makhankov
Rússneskt orgeldúó leikur fjórhent og fjórfætt á Alþjóðlegu orgelsumri um helgina
13/07/2017

Alþjóðlegt orgelsumar 2017

Alþjóðlegt orgelsumar 2017

Alþjóðlegt orgelsumar í Hallgrímskirkju hefst í vikunni með hrífandi trompetleik og fagnaðarhljómum því í sumar fagnar Listvinafélag Hallgrímskirkju 25 ára afmæli þessarar vinsælu sumartónleikaraðar. Það eru þau Baldvin Oddsson og Elísabet Þórðardóttir sem leika á fyrstu fimmtudagstónleikunum 22. júní kl.12.

Á Alþjóðlegu orgelsumri 2017 eru fernir tónleikar á viku yfir allt sumarið og er alls boðið upp á 26 orgeltónleika og 11 kórtónleika fyrir utan samfellda 6 klst. tónleikadagskrá á Menningarnótt.

Hið stórkostlega Klais-orgel og hljómburður kirkjunnar laða að frábært tónlistarfólk víðs vegar að úr heiminum og stendur Alþjóðlega orgelsumarið þetta árið sannarlega undir nafni.

Í ár eru organistarnir frá Bandaríkjunum, Sviss, Danmörku, Rússlandi, Frakklandi, Þýskalandi og Íslandi – sumir þeirra stór nöfn í orgelheiminum og má þar nefna Bine Bryndorf, sem er einn eftirsóttasti konsertorganisti Dana og organisti við Friðriksborgarhöll og Sophie- Veronique Cauchefer, sem er organisti við hina heimsfrægu St. Sulpice kirkju í París og er einn færasti spunameistari okkar tíma. Þá er Alþjóðlegt orgelsumar í samstarfi við hina heimsþekktu alþjóðlegu orgelkeppni í dómkirkjunni í Chartre í Frakklandi og fá verðlaunahafarnir að launum að halda tónleika á Alþjóðlegu orgelsumri í Hallgrímskirkju. Það er mikið tilhlökkunarefni að heyra David Cassan, sem vann 1. verðlaun í keppninni í október 2106, leika á Klais orgelið, en keppnin er haldin annað hvert ár.

Dagskrá orgelsumarsins sýnir glöggt hversu gríðarmikið hefur verið samið af spennandi verkum fyrir þetta magnaða hljóðfæri og eru efnisskrár afar fjölbreyttar. Margir erlendu gestanna leika verk frá eigin heimalandi eins og t.d. Thomas Scheehan, sem leikur mjög fjölbreytta og aðgengilega tónlist eftir bandarísk tónskáld.

Þetta sumar koma fram nokkrir orgelleikarar nýútskrifaðir frá Tónskóla þjóðkirkjunnar  á fimmtudagstónleikum.  Fleiri kærkomnir gestir eru trompetleikarinn Baldvin Oddson, sem nýverið lauk námi í NY, heimsfrægi Íslandsvinurinn Andreas Schmidt barítón ásamt forsvarsmönnum Alþjóðlegs orgelsumars og Listvinafélagsins, hjónunum Ingu Rós Ingólfsdóttur sellóleikara og Herði Áskelssyni, Einar Jóhannesson klarinettuleikari og Douglas Brotchie orgel, og kontrabassadúóið Eyþór Ingi Jónsson og Þórir Jóhannesson o. fl.

Glæný orgeltónlist verður líka á boðstólum. Björn Steinar Sólbergsson frumflytur á tónleikum sínum næsta sunnudag  glænýja orgelfantasíu eftir Steingrím Þórhallsson organista við Neskirkju í Reykjavík yfir Lúthersálminn „Vor Guð er borg á bjargi traust“. Þá má ekki gleyma þeim fjölmörgu umritunum á hljómsveitarverkum sem gerðar hafa verið fyrir þessa drottningu hljóðfæranna, sem bregður sér auðveldlega í hlutverk heillar sinfóníuhljómsveitar! Rússneskt orgeldúó frá St. Pétursborg leikur t.d. fjórhent og fjórfætt á orgelið og tekst á við umritanir á þáttum úr frægum rússneskum hljómsveitarverkum eins og Myndum á sýningu og Hnotubrjótnum.

Á kórtónleikum orgelsumarsins, sem eru alla miðvikudaga í sumar syngur hinn rómaði kammerkór Hallgrímskirkju, Schola cantorum, íslenska kórtónlist. Kórinn, sem er margverðlaunaður hlaut íslensku tónlistarverðlaunin sem „Tónlistarflytjandi ársins 2016“ í mars sl. og hefur hlotið einróma lof fyrir söng sinn á nýjustu geislaplötu sinni, MEDITATIO sem kom út hjá BIS á sl. ári. Schola cantorum hefur haldið fjölda tónleika hérlendis sem erlendis og kom m.a. fram á 5 tónleikum á tónlistarhátíðinni Reykjavík Festival í Walt Disney Hall í Los Angeles í apríl sl., þ.s. söngur kórsins hlaut einróma lof í allri umfjöllun stórblaða svo sem New York Times, LA Times o.fl. Stjórnandi kórsins frá upphafi er Hörður Áskelsson.

Listrænn stjórnandi Alþjóðlegs orgelsumars er Hörður Áskelsson ( 693 6690) en Inga Rós Ingólfsdóttir framkvæmdastjóri Listvinafélagsins sér um skipulag tónleikaraðarinnar og kynningar ( s. 696 2849). Tónleikastjóri Alþjóðlegs orgelsumars í sumar er Sólveig Anna Aradóttir ( s. 868 6291).

 Skoðið bæklinginn hér.