Kammerkórinn Schola cantorum býður frítt á tónleika í Hallgrímskirkju á Uppstigningadag 25. maí kl. 17

Alþjóðlega barokkhljómsveitin í Hallgrímskirkju
Messa í h-moll eftir Johann Sebastian Bach á 35 ára afmælistónleikum Mótettukórsins 10. og 11. júní nk.
23/05/2017
Alþjóðlegt orgelsumar 2017
Alþjóðlegt orgelsumar 2017
20/06/2017

Kammerkórinn Schola cantorum býður frítt á tónleika í Hallgrímskirkju á Uppstigningadag 25. maí kl. 17

Schola Cantorum

Kammerkórinn Schola cantorum undir stjórn Harðar Áskelssonar hefur átt mikilli velgengni að fagna sl. ár og hefur kórinn hlotið hástemmt lof fyrir flutning sinn bæði á tónleikum hér heima og erlendis og fyrir nýju geislaplötuna sína Meditatio. Einnig var kórinn útnefndur  „Tónlistarflytjandi ársins í flokki sígildrar og samtímatónlistar“ á Íslensku tónlistarverðlaununum í mars sl.
Sem smá þakklætisvott fyrir velgengnina undanfarið býður kórinn til tónleika í Hallgrímskirkju á uppstigningardag fimmtudaginn 25. maí kl. 17 og er aðgangur ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.

Hugarró, íhugun og mátturinn í músíkinni. Þessi orð eiga vel við tónlistina sem prýðir Meditatio, geislaplötu Schola cantorum, sem kom út hjá hinu virta sænska útgáfufyrirtæki BIS s.l. sumar.  Gagnrýnendur um allan heim hafa lofað Meditatio bæði hvað varðar söng og efnisval og kórinn mun því flytja valin verk af diskinum í Hallgrímskirkju 25. maí, kl. 17.00.  Verkin á plötunni eru öll frá 20. og 21. öld, þeirra á meðal tvö eftir tónskáld sem syngja í kórnum, þá Hreiðar Inga Þorsteinsson og Sigurð Sævarsson, auk tónverksins „Hvíld“ eftir stjórnanda kórsins, Hörð Áskelsson. Á efniskránni eru líka verk eftir Arvo Pärt, James MacMillan og Eric Whitacre.
Í lok tónleikanna gefst tónleikagestum tækifæri að heyra íslenskan frumflutning á þremur mótettum, sem samdar voru fyrir kórinn fyrir tónleika í Walt Disney Hall í Los Angeles í apríl sl. Textar verkanna eru vers úr Hávamálum sem fjalla um vináttuna, en verkin voru samin með styrk úr Tónskáldasjóði RÚV og eru eftir Gunnar Andreas Kristinsson, Hreiðar Inga Þorsteinsson og Huga Guðmundsson.

Einnig flytur kórinn Vökuró eftir Jórunni Viðar í nýrri útsetningu eftir Hafstein Þórólfsson og syngur Guðmundur Vignir Karlsson tenór einsönginn.

Hörður Áskelsson, organisti og kantor í Hallgrímskirkju hefur stjórnað hópnum frá stofnun hans eða í rúm 20 ár. Frá fyrstu tíð hefur verið lögð áhersla á valinn mann í hverju rúmi og unnið ötullega að því að mynda áhrifaríkan samhljóm í gegnum sönginn sem oftast fer fram án undirleiks. Verkefnin hafa verið mjög fjölbreytt í gegnum tíðina og kórinn hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir fyrir flutning, nú síðast Íslensku tónlistarverðlaunin sem Tónlistarflytjandi ársins 2016.

Schola cantorum

Í apríl sl. kom kórinn fram á listahátíðinni Reykjavik Festival í Los Angeles sem fór fram í Walt Disney Concert Hall. Á þessari hátíð var íslensk tónlist í forgrunni og fjöldi íslenskra listamanna kom fram, þeirra á meðal Sigurrós, Daníel Bjarnason og Björk. Schola Cantorum kom fram á fernum tónleikum á stóra sviðinu í Walt Disney Concert Hall með jafnmargar efnisskrár og frumflutti m.a. verk eftir íslensku tónskáldin Gunnar Andreas Kristinsson, Hreiðar Inga Þorsteinsson, Huga Guðmundsson og Þuríði Jónsdóttur.
Kórinn vílar fátt fyrir sér í flutningi og tekst glaður á við krefjandi verkefni og söng til dæmis í tebolla í verki Þuríðar og myndaði með röddum hljóðheim eldgamallar upptöku á íslensku þjóðlagi. Verk Þuríðar fékk mjög mikla og jákvæða ahygli á hátíðinni. Umfjöllun erlendra blaðamanna um framgöngu Schola Cantorum á hátíðinni var góð og  í Wall Street Journal segir m.a.: ,,sung by the festival’s great find, the Schola cantorum Reykjavík, … proved warm and precise every time they performed (five programs total) “

Í maí kom hópurinn svo fram á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og söng tveggja kóra Bach mótettu á sérstakri tónleikaröð þar sem markmiðið er meðal annars að skapa nánd við áhorfendur.

Boðstónleikana 25.maí má skoða sem þakkargjörð Schola cantorum fyrir þá velgengni sem kórinn hefur notið. Schola cantorum hvetur áhorfendur til að mæta og njóta fallegrar tónlistar.