Tár, bros og trompetar – Önnur helgi jólatónlistarhátíðarinnar framundan

Jólatónlistarhátíð hefst nú um helgina
27/11/2015
Leiðsögn um sýningu Erlu Þórarinsdóttur á sunnudaginn
10/12/2015
Sýna allt

Tár, bros og trompetar – Önnur helgi jólatónlistarhátíðarinnar framundan

Mótettukór Hallgrímskirkju hefur í rúm þrjátíu ár yljað Íslendingum um hjartaræturnar á jólum, og skipa jólatónleikar kórsins veglegan sess í ríkulegu tónleikahaldi í Reykjavík. Kórinn heldur tvenna tónleika nú um helgina og þá þriðju næsta þriðjudagskvöld.

Í ár mun málmblásarakvartett leika með kórnum auk orgelsins, en það eru félagar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands sem hann skipa. Fyrri hluta tónleikanna verða flutt sérstaklega hátíðleg verk frá endurreisnar- og snemmbarokktíma, sem njóta sín vel í endurómi kirkjunnar. Í síðari hlutanum verða fluttir sjaldheyrðir, enskir jólasöngvar ásamt fjölda þekktra jólasálma. Í vændum er hátíðleg stund á aðventunni í fagurlega skreyttri kirkjunni.

Upptaktur að þessari miklu tónleikahelgi er í höndum Schola cantorum, sem verður með hádegistónleika föstudaginn 4. desember kl. 12 og síðan næstu tvo föstudaga á aðventunni. Upplagt er að koma við í Hallgrímskirkju í jólaösinni og eiga unaðslega stund við að hlusta á fagra jóla- og aðventutónlist. Sannkallað mótefni við jólastressi!

Miða á jólatónleikana má nálgast hér og í Hallgrímskirkju.