Hið magnaða miðaldaverk Sólarljóð liggur til grundvallar myndlistasýningar sem opnar í anddyri Hallgrímskirkju sunnudaginn næstkomandi. Listamaðurinn Valgerður Bergsdóttir nefnir sýninguna Vaka / Hindurvaka og vísar þar í hið síbreytilega ástand milli lífs og dauða sem ríkir í ljóðunum.
Í Sólarljóðum, sem eru eitt merkasta verk íslenskra miðaldabókmennta, birtist látinn faðir syni sínum, miðlar af reynslu sinni af lífi og dauða og kallar á siðbót og kærleika. Sólarljóð telur Gísli Sigurðsson rannsóknaprófessor til svokallaðra leiðslna, sem eru verk þar sem opnaðar eru brýr yfir í handanheima og framtíðina með spásýn, en þekkt verk af því tagi eru Opinberun Jóhannesar í Nýja testamentinu, Hinn guðdómlegi gleðileikur Dantes og Völuspá.
Valgerður sýnir blýantsteikningar unnar með hliðsjón af nokkrum ljóðahendingum úr Sólarljóðum. Áhrifavaldur teikninganna er máttug, náttúruvakin mynd ljóðanna um mörk lífs- og handanveru.
Um tveir áratugir eru síðan Valgerður hóf leit að viðfangsefni úr miðaldabókmenntum, en þá vann hún að uppdráttum fyrir glugga í Reykholtskirkju. Hefur leið hennar meðal annars legið um dómsdagsmyndir kaþólsku kirkjunnar, en Valgerður segir augljósa samsvörun vera milli þeirra og ákalls um siðræna innrætingu í Sólarljóðum.
Sýningin opnar k.l 12.15 sunnudaginn 14. febrúar og stendur fram til 8. maí. Verið velkomin!