Pétur og úlfurinn og Krossganga Krists helgina 19. og 20. mars

Salómon með fjórar tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna
19/02/2016
Maríutónleikum Schola cantorum 13. mars frestað
10/03/2016

Pétur og úlfurinn og Krossganga Krists helgina 19. og 20. mars

Listvinafélagið fær góðan gest aðra helgi, 19. og 20. mars, en það er Mattias Wager organisti frá Storkyrkan í Stokkhólmi. Spilar Mattias tvenna tónleika í Hallgrímskirkju.

Á þeim fyrri verður flutt verkið Pétur og úlfurinn eftir Sergei Prokovief með fulltingi hinnar bráðskemmtilegu Halldóru Geirharðsdóttur, sem meðal annars er kunn fyrir þátt sinn í barnatónleikum Sinfóníunnar. Þetta er í þriðja sinn sem Mattias leikur verkið hérlendis og hefur ávallt verið húsfyllir á þessum skemmtilegu tónleikum. Tónleikarnir hefjast kl. 14.00 laugardaginn 19. mars og er aðgangur ókeypis fyrir börn í fylgd með fullorðnum en miðaverð er 2500 krónur og afsláttur að vanda fyrir listvini.

Á síðari tónleikunum, á Pálmasunnudag kl. 17.00, slæst leikkonan Sólveig Simha í lið með Mattiasi og flytja þau verkið Le chemin de la croix eða Krossganga Krists eftir Marcel Dupre sem samanstendur af 14 hugleiðingum um staðina þar sem Kristur stöðvaði á krossgöngu sinni upp Golgatahæð. Verkið byggir á samnefndu ljóði eftir franska skáldið Paul Claudel og verður ljóðið flutt á frummálinu frönsku. Miðaverð er 2500 krónur og afsláttur fyrir listvini og félaga í Alliance Francaise.

Orgelsnillingurinn Mattias Wager hefur sett mikinn svip á tónlistarlífið í Hallgrímskirkju á undanförnum árum, en hann hefur margoft komið fram á tónleikum þar allt frá vígslu orgelsins.

Miðasala er á midi.is og í Hallgrímskirkju s. 510 1000.

 

Mattias Wager er dómorganisti við Storkyrkan í Stokkhólmi. Hann fæddist árið 1967 og nam orgelleik og kirkjutónlist við Konunglega tónlistarháskólann í Stokkhólmi. Kennarar hans voru Torvald Torén (túlkun), Mats Åberg (barokktúlkun) og Anders Bondeman (spuni). Fyrir burtfarartónleika sína árið 1992 hlaut hann verðlaun Konunglega tónlistarháskólans. Þá stundaði hann einnig nám hjá Johannes Geffert í Bonn í Þýskalandi og hjá Naji Hakim í París.

Meðal afreka hans í alþjóðakeppnum má nefna þrenn fyrstu verðlaun: árið 1995 í Orgeltúlkunarkeppninni í St Albans á England og í spunakeppnunum í Strängnäs í Svíþjóð árið 1991 og Grand Prix d’improvisation „Pierre Cochereau“ í París árið 1995.

Mattias Wager hefur tekið þátt í listahátíðum og haldið tónleika víða um Evrópu og í Brasilíu. Hann hefur kennt orgelleik og spuna við alla helstu tónlistarháskóla Svíþjóðar. Frá því að hann varð dómorganisti í Stokkhólmi 2006 hefur það fallið í hans skaut að skipuleggja og leika á orgelið við mörg tækifæri, þar með talið opinbera viðburði þar sem hæst ber brúðkaup Viktoríu krónprinsessu og Daníels prins árið 2010.

Frá 1995 hefur Mattias Wager heimsótt Ísland reglulega og verið gestakennari við Tónskóla þjóðkirkjunnar auk þess að halda fjölda tónleika. Mattias starfar reglulega með mörgum virtum listamönnum. MÅG-tríóinu (með slagverksleikaranum Anders Åstrand og söngvaranum og kórstjóranum Gary Graden) hefur verið hrósað fyrir frumlega nálgun í spuna. Mattias hefur einnig skrifað tónlist fyrir tvö trúarleg leikrit, um Martein Luther og heilaga Birgittu, sem hafa verið flutt víða um Svíþjóð. Árið 2008 samdi hann tónlist fyrir sviðsetningu á leikritinu Meistari Ólafur eftir Strindberg sem var sýnt í Borgarleikhúsi Stokkhólms.