Passía – tónlist fyrir hug og hjarta

Endurreisnartónlist á boðunardegi Maríu
Endurreisnartónlist á boðunardegi Maríu – Sunnudagur 22. mars 2015 kl. 17 í Hallgrímskirkju
19/03/2015
Páskahátíð Hallgrímskirkju 29. mars – 6. apríl 2015
Páskahátíð Hallgrímskirkju 29. mars – 6. apríl 2015
28/03/2015

Passía – tónlist fyrir hug og hjarta

Passía – tónlist fyrir hug og hjarta

Hin stórbrotna óratóría Passía, op. 28, eftir Hafliða Hallgrímsson verður flutt í Hallgrímskirkju á föstudaginn langa, 3. apríl nk. kl. 17. Passía vakti mikla athygli þegar hún var frumflutt árið 2001 og geisladiskur með verkinu hlaut einróma lof jafnt hérlendis sem erlendis. Flytjendur á tónleikunum eru einsöngvararnir Elmar Gilbertsson tenór og Hanna Dóra Sturludóttir sópran, sem bæði hlutu Íslensku tónlistarverðlaunin á dögunum, Mótettukór Hallgrímskirkju og Kammersveit Hallgrímskirkju. Stjórnandi er Hörður Áskelsson.

Það er samdóma álit þeirra sem komið hafa að flutningi Passíu að verkið sé eitt af stórvirkjum íslenskrar tónlistarsögu, jafnvel mikilvægasta óratóría sem íslenskt tónskáld hefur samið. Viðtökur gagnrýnenda og áheyrenda hafa gefið þessari skoðun byr undir báða vængi. Passía var samin að beiðni Listvinafélags Hallgrímskirkju í tilefni af kristnitökuafmælinu árið 2000. Hún var frumflutt í Hallgrímskirkju í febrúar 2001 við frábærar undirtektir og endurflutt og hljóðrituð í nýrri gerð ári síðar. Nú gefst loks aftur tækifæri til að heyra þessa einstöku tónsmíð á tónleikum.

Útgáfufyrirtækið Ondine í Finnlandi gaf Passíu út á geisladiski árið 2003 og hlutu verkið og flytjendur afburða dóma í erlendum tónlistartímaritum. Gagnrýnendur voru sammála um að verkið væri samið af miklum listrænum metnaði en væri um leið afar aðgengilegt og áhrifamikið. „Ný tónlist fyrir hug og fyrir hjarta,“ var fullyrt í Bæverska útvarpinu og í Breska ríkisútvarpinu var talað um „passíu okkar tíma“. Í fimm stjörnu dómi taldi gagnrýnandi BBC Music Magazine Passíu vera „nýtt trúarlegt meistaraverk“, í International Record Review var talað um „upphafna fegurð“ verksins og gagnrýnandi Gramophone hreifst af „tímalausu yfirbragði“ tónlistarinnar og sagði Passíu vera „dramatíska og glæsilega sungna íslenska túlkun á píslarsögunni“.

Texti Passíu tvinnar saman brot úr ljóðum eftir Stein Steinarr, Matthías Johannesen, Hannes Pétursson og Baldur Óskarsson og vers úr Passíusálmum Hallgríms Péturssonar. Blæbrigðaríkt tónmál Hafliða Hallgrímssonar veitir tilvistarlegum vangaveltum skáldanna heillandi umgjörð með áhrifamiklum sönglínum og litríkum hljómsveitarrithætti. Hámarki nær verkið þegar síðustu stundirnar í lífi Jesú Krists eru raktar með orðum séra Hallgríms og túlkaðar í nærfærinni en beinskeyttri tónlist sem talar vafningalaust til hlustandans.

Hafliði Hallgrímsson er eitt virtasta og þekktasta tónskáld Íslands á alþjóðavettvangi. Hann sló í gegn með fiðlukonsertinum Poemi, sem hann fékk Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs fyrir árið 1986, og síðan hafa verk hans verið flutt víða um heim af þekktum einleikurum, kammerhópum og hljómsveitum. Í breska blaðinu Guardian var tónlist Hafliða sögð vera „afar frumleg og persónuleg en um leið áheyrileg og aðgengileg. Hún er auðheyrilega samin af miklum hagleik, auðug af litum og tilfinningum, fínleg en þó jarðbundin.“

Passía tengist Hallgrímskirkju afar sterkum böndum. Hafliði Hallgrímsson segir sjálfur: „Stílhreinn einfaldleiki Hallgrímskirkju og viðkvæmur hljómburður kirkjunnar voru mér ofarlega í huga á meðan ég vann við Passíu. Segja má að kirkjan sé hljóðfæri sem leikið er á, að hún myndi eins konar fínlegan hljómbotn fyrir leyndardómsfullt innihald verksins.“

Passía er tileinkuð Mótettukór Hallgrímskirkju og kantor kirkjunnar, Herði Áskelssyni, en hann fékk Íslensku tónlistarverðlaunin og Menningarverðlaun DV árið 2002 fyrir túlkun sína á verkinu.

Miðasala á tónleikana er í Hallgrímskirkju og á midi.is. Aðgangseyrir er 4.900 kr. en félagar í Listvinafélagi Hallgrímskirkju fá 50% afslátt.

Pdf - Icon Hin stórbrotna óratóría Passía, op. 28, eftir Hafliða Hallgrímsson