Mesta tónverk allra tíma og þjóða
Mótettukór Hallgrímskirkju flytur Messu í h-moll eftir Johann Sebastian Bach á tvennum hátíðartónleikum í Hallgrímskirkju helgina 10.-11. júní nk. í tilefni af 35 afmæli kórsins. Tónleikarnir eru haldnir í samvinnu við Listvinafélag Hallgrímskirkju og hefjast kl. 17 báða dagana.
H-moll messan er eitt af mögnuðustu stórvirkjum tónlistarsögunnar og ávallt mikill viðburður þegar verkið er flutt á tónleikum. Verkið gerir afar miklar kröfur til kórsöngvara enda fullt af glæsilegum og fjölbreyttum kórköflum sem félagar Mótettukórsins njóta þess að glíma við á ný, en síðasti flutningur kórsins á messunni fyrir réttum áratug fékk fimmstjörnu dóma.
Einsöngsaríur og dúettar H-moll messunnar eru ekki síður krefjandi og fögur tónlist og munu fjórir frábærir einsöngvarar flytja þá kafla.
Skosk-íslenska sópransöngkonan Hannah Morrison og enski kontratenórinn Alex Potter eru í fremstu röð barokksöngvara um þessar mundir. Þau koma reglulega fram með virtustu barokksveitum og -stjórnendum heims og hafa sungið inn á fjölda hljómdiska. Þau syngja nú bæði í fyrsta sinn í Hallgrímskirkju og er það mikið tilhlökkunarefni.
Þeir Elmar Gilbertsson tenór og Oddur Arnþór Jónsson baríton, sem báðir voru félagar í Mótettukórnum á námsárum sínum, hafa unnið glæsta söngsigra á undanförnum árum, bæði hér heima og erlendis. Oddur Arnþór var útnefndur bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2014 og Elmar hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem Söngvari ársins 2014, 2015 og 2016.
Með þessum fríða flokki söngvara leikur Alþjóðlega barokkhljómsveitin í Hallgrímskirkju sem er skipuð einvala liði hljóðfæraleikara víða að úr heiminum sem safnast reglulega saman í Hallgrímskirkju til að flytja meistaraverk barokksins ásamt kórum kirkjunnar. Hljómsveitarmeðlimir búa yfir gríðarlegri reynslu af túlkun barokktónlistar í hæsta gæðaflokki og hefur þátttaka þeirra í íslensku tónlistarlífi á undanförnum árum verið ómetanleg. Þegar hljómsveitin flutti H-moll messuna síðast með Mótettukórnum greip gagnrýnandi til orða á borð við „dúnróma, undramjúk, lýtalaust ómfögur og spræk“ til að lýsa leik hennar. Konsertmeistari Alþjóðlegu barokksveitarinnar er finnski fiðluleikarinn Tuomo Suni.
Stjórnandi á tónleikunum er Hörður Áskelsson, organisti og kantor Hallgrímskirkju og listrænn stjórnandi Listvinafélags Hallgrímskirkju.
Þegar H-moll messa Bachs var fyrst gefin út á 19. öld, tæpum hundrað árum eftir að höfundurinn lést, kynnti útgefandinn hana sem „mesta tónverk allra tíma og þjóða“, sem var óneitanlega nokkuð djörf yfirlýsing í ljósi þess að verkið hafði þá aldrei verið flutt í heild og var fáum kunnugt. Þetta var hinsvegar spámannlega mælt og H-mollmessan öðlaðist fljótlega sérstakan virðingarsess í tónlistarheiminum sem krúnudjásn barokktímans. Bach vann að verkinu á síðustu æviárum sínum, farinn að heilsu og nær blindur. Hann leit yfir feril sinn og setti þetta lokaframlag sitt á sviði kirkjutónlistar saman úr vandlega völdum köflum úr fyrri verkum sínum í bland við nýsamda tónlist. Hann lagði í verkið alla þekkingu sína, tæknilega færni og snilligáfu svo úr varð risavaxin sýnisbók fyrir komandi kynslóðir um möguleika fjölradda tónlistar. Kjarni þriggja alda tónlistarhefðar settur fram í tveggja tíma tónsmíð, sem bæði er heilsteypt og þrungin lífskrafti. Tilfinningaskali verksins er geysivíður og spannar allt frá dillandi fjörugum dansi til djúprar íhugunar um stöðu mannsins og samband hans við guðdóminn. H-moll messan er sannarlega verk fyrir alla tíma og þjóðir.
MIÐAVERÐ: ÚRVALSSÆTI 9.500 KR.( enginn afsláttur), ALMENN SÆTI 5.900 KR.-
Afsláttur til listvina, aldraðra og öryrkja og námsmanna af almennum sætum.
Nánari upplýsingar og sala á afsláttarmiðum í Hallgrímskirkju s. 5 10 1000.
Netsala á MIDI.IS
Smellið hér til að skoða h-moll messu plakatið.