501 naglar- opnun sumarsýningar sunnudaginn 21. maí í messulok

Tónleikar nemenda Listaháskóla Íslands
Tónleikar Tónlistardeildar Listaháskólans í samvinnu við Listvinafélagið laugardaginn 29. apríl kl. 12- (ath. breyttan tíma)
27/04/2017
Alþjóðlega barokkhljómsveitin í Hallgrímskirkju
Messa í h-moll eftir Johann Sebastian Bach á 35 ára afmælistónleikum Mótettukórsins 10. og 11. júní nk.
23/05/2017

501 naglar- opnun sumarsýningar sunnudaginn 21. maí í messulok

Gretar Reynisson

Gretar Reynisson: 501 NAGLI

Listsýning Gretars Reynissonar, 501 NAGLI, verður opnuð í forkirkju Hallgrímskirkju sunnudaginn 21. maí 2017 við messulok kl.12:15.
Sýningin er á vegum Listvinafélags Hallgrímskirkju. Sýningastjóri er Rósa Gísladóttir.
Allir eru hjartanlega velkomnir og verða léttar veitingar í boði Hallgrímssafnaðar.  

Hinn 31. október 1517 negldi Marteinn Lúther 95 mótmælagreinar gegn aflátssölu kaþólsku kirkjunnar á dyr Hallarkirkjunnar í Wittenberg í Þýskalandi. Sá atburður markaði upphaf siðbótarinnar og er þess nú minnst um allan heim að 5 aldir eru liðnar frá þeim atburði.

Eins og fram kemur í umfjöllun Steins Arnar Atlasonar í sýningarskrá vísar verkið 501 NAGLI í gjörning Lúthers með beinum hætti, bæði í naglana sem voru notaðir til að festa greinarnar á kirkjudyrnar og í að 500 ár eru liðin frá því að atburðurinn átti sér stað. Gretar hefur stimplað 501 merkimiða, hvern með einu ártali frá 1517 til 2017, og neglt þá á veggina í forkirkju Hallgrímskirkju. Verkið, sem er unnið sérstaklega fyrir Hallgrímskirkju, er annars vegar mótað af tímatalinu mældu í árum og hins vegar af upplifun og sjónrænni framsetningu tímans. 501 NAGLI kallast á við önnur verk Gretars frá síðustu tveim áratugum þar sem hann glímir við tímann.  

Gretar Reynisson (f. 1957) lauk myndlistarnámi frá Nýlistadeild Myndlista-¬ og handíðaskóla Íslands 1978 og var við framhaldsnám í Amsterdam 1978–79. Hann hefur haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum bæði hér heima og erlendis. Gretar hefur haldið um tuttugu einkasýningar, meðal annars í Listasafni Reykjavíkur, Nýlistasafninu, galleríi i8, Listasafni ASÍ og víðar og tekið þátt í samsýningum bæði hér heima og erlendis, til dæmis á Listasafni Íslands, Kjarvalsstöðum, í Nýlistasafninu og með Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík. Hann á verk í eigu safna, svo sem Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Háskóla Íslands og Nýlistasafnsins. Gretar hefur unnið sem leikmyndahöfundur frá árinu 1980 og er margverðlaunaður fyrir störf sín í leikhúsi. Árið 1997 fór Gretar að vinna verk þar sem tíminn fléttast saman við söfnun, skráningu og talningu hversdagslegra hluta úr lífi listamannsins og hefur haldið því áfram allar götur síðan. Verk sem Gretar gerði frá 1. janúar 1997 til 31. desember 2000 voru sýnd á Kjarvalsstöðum árið 2001 undir titlinum 1461 dagur. Gretar var útnefndur heiðurslistamaður myndlistarhátíðarinnar Sequences sem haldin var í Reykjavík í apríl árið 2013 og var þá sýnt heildarverkið Áratugur, safn verka sem unnin voru frá 2001 til 2010. Nú síðast opnaði sýning Gretars 20 40 60 í safnaðarheimili Neskirkju, en sýningin er sett upp í tilefni 60 ára afmælis listamannsins og kirkjunnar sjálfrar.

Sýningin stendur til 21. ágúst 2017 og er opin alla daga kl. 9 – 21.

 Smellið hér til að skoða sýningaskránna.