MARÍUVESPER EFTIR CLAUDIO MONTEVERDI- hátíðartónleikar í Eldborg 3. des kl. 20

Ensamble Masque
FENEYJABAROKK-„TÓNAR og TÁR“: Hið áhugaverða líf Feneyjatónskáldsins BARBÖRU STROZZI með hinum rómaða barokkhópi ENSEMBLE MASQUE og sögumanni í Norðurljósum Hörpu þriðjudaginn 17. október kl. 19.30
29/09/2023
JÓLIN MEÐ MÓTETTUKÓRNUM- Jólatónleikar Mótettukórsins í Fríkirkjunni í Reykjavík 12. og 13. desember kl. 20
JÓLIN MEÐ MÓTETTUKÓRNUM- Jólatónleikar Mótettukórsins í Fríkirkjunni í Reykjavík 12. og 13. desember kl. 20
08/12/2023

MARÍUVESPER EFTIR CLAUDIO MONTEVERDI- hátíðartónleikar í Eldborg 3. des kl. 20

MARÍUVESPER EFTIR CLAUDIO MONTEVERDI- hátíðartónleikar í Eldborg 3. des kl. 20

Eitt af rómuðustu stórvirkjum tónlistarsögunnar, Maríuvesper frá 1610 eftir Claudio Monteverdi, sem er talið eitt allra fegursta og merkasta kirkjutónverk allra tíma, verður flutt í fyrsta sinn í Eldborg Hörpu á glæsilegum hátíðartónleikum 1. sunnudag í aðventu, 3. desember, kl. 20 á vegum Listvinafélagsins í Reykjavík.

Fjölmennur hópur sérhæfðra úrvalstónlistarmanna kemur til landsins af þessu tilefni og mun flytja þetta einstæða verk í samvinnu við fremsta tónlistarfólk Íslands á þessu sviði.

Flytjendur á tónleikunum í Eldborg eru kammerkórinn Schola Cantorum ásamt 7 glæsilegum einsöngvurum, m.a. tveimur af þekktustu barokktenórum Norðurlandanna, Benedikt Kristjánssyni og Martin Vanberg frá Svíþjóð, sem söng mjög eftirminnilega tenórhlutverkið í Messíasi eftir Händel í Hallgrímskirkju undir stjórn Harðar Áskelssonar í desember 2019 auk einsöngvara úr kórnum, snemmtónlistarhópnum Scandinavian Cornetts and Sackbuts, sem danski cornettoleikarinn Lene Langballe fer fyrir, auk félaga úr Alþjóðlegu barokksveitinni í Reykjavík og einnig mun sönghópurinn Cantores Islandiae koma fram á tónleikunum. Stjórnandi er Bjarni Frímann Bjarnason.

Eins og áður sagði er Maríuvesper – Vespro della Beata Vergine –frá 1610 eftir ítalska tónskáldið Claudio Monteverdi (1567–1643)  talið eitt allra fegursta og merkasta kirkjutónverk allra tíma, en Monteverdi var einn af upphafsmönnum barokksins. Tónlist Monteverdis í Maríuvespernum er óviðjafnanleg og spannar allt litrófið frá því að tjá djúpa leyndardóma, blíðu og kyrrð upp í kraftmikinn og tignarlegan glæsileika eins og hann gerist mestur.

Ekki er vitað af hvaða tilefni Monteverdi samdi þetta mikilfenglega verk, en þar sem hann var óánægður með aðstæður sínar við hirðina í Mantua þegar verkið var prentað árið 1610 hefur getum verið leitt að því að hann hafi verið í atvinnuleit, sérstaklega þar sem hann tileinkaði verkið Páli V. páfa.

Umfang verksins var fordæmalaust á sínum tíma og ekki er vitað til þess að það hafi verið flutt í heild á meðan Monteverdi var á dögum. Það var í raun ekki fyrr en á síðustu öld sem mikilvægi verksins og glæsileiki varð tónlistarheiminum að fullu kunnur og nú þykir heildarflutningur á því hvarvetna stórviðburður.

Verkið hefur aðeins verið flutt tvisvar áður í heild á Íslandi, síðast árið 2010 á 400 ára afmæli verksins. Tónleikarnir sem brátt verða að veruleika í Eldborg voru upphaflega á dagskrá í mars 2020 undir stjórn Harðar Áskelssonar, en þá þurfti að aflýsa þeim með mjög stuttum fyrirvara þegar heimsfaraldurinn skall á.

Tónleikarnir eru styrktir af Norræna menningarsjóðnum, Tónlistarsjóði og Reykjavíkurborg.

Miðasala: harpa.is – s. 528 5050 – tix.is

Flytjendur:

Herdís Anna Jónasdóttir sópran

Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir sópran

Martin Vanberg tenór

Benedikt Kristjánsson tenór

Þorkell H. Sigfússon tenór

Philip Barkhudarov bassi

Örn Ýmir Arason bassi

Schola Cantorum

Cantores Islandiae – leiðari Ágúst Ingi Ágústsson

Scandinavian Cornetts and Sackbuts – leiðari Lene Langballe

Alþjóðlega barokksveitin í Reykjavík

Konsertmeistari: Joanna Huszcza

Stjórnandi: Bjarni Frímann Bjarnason

Nánar um flytjendur:

Martin Vanberg frá Svíþjóð hefur fest sig í sessi sem einn af fremstu barokktenórum Evrópu. Með fallegri rödd sinni og frábærri tækni heillar hann áheyrendur í meistaraverkum barokksins en hann er einnig eftirsóttur í samtímaóperum og óperettum. Vanberg lauk meistaranámi við Konunglega tónlistarháskólann í Stokkhólmi og framhaldsnámi við Konunglegu dönsku óperuakademíuna í Kaupmannahöfn. Meðal virtra hljómsveita sem hann hefur komið fram með má nefna Europa Galante, I Solisti Veneti, Drottningholms Barockensemble, Concerto Copenhagen, Les Accents og Kammerorchester Basel og hann hefur unnið með hljómsveitarstjórum eins og Ulrich Mortensen, Helmut Rilling, Andrew Manze, Olof Boman, Stephen Layton, Claudio Scimone og Fabio Biondi á óperu- og tónleikastöðum í Evrópu, Bandaríkjunum og Ástralíu.

Benedikt Kristjánsson tenór er einn af eftirsóttustu ungu tenórum heims um þessar mundir og má segja að hann hafi hlotið heimsfrægð eftir að hann var fenginn til að flytja Jóhannesarpassíu Bachs í útsetningu fyrir þrjá flytjendur í beinni útsendingu frá Tómasarkirkjunni í Leipzig á föstudaginn langa 2020 en skömmu áður höfðu þremenningarnir flutt verkið í sama búningi í Hallgrímskirkju á vegum Listvinafélagsins. Benedikt stundaði framhaldsnám við Hanns Eisler tónlistarháskólann í Berlín og hlaut m.a. hin þekktu Opus Klassik verðlaun haustið 2019 í Berlín og Íslensku tónlistarverðlaunin 2016. Sem guðspjallamaður í passíum Bachs og öðrum óratóríum hefur Benedikt komið fram víða um heim og sungið einsöng með þekktum hljómsveitum í mörgum af stærstu tónleikahúsum heims. Hann hefur unnið með mörgum virtum stjórnendum og má þar nefna Reinhard Goebel, Reinbert de Leeuw, Christoph Spering, Hans-Christoph Rademann og Philippe Herreweghe. Benedikt hefur undanfarin 10 ár margoft komið fram undir stjórn Harðar Áskelssonar með kórum hans.

Herdís Anna Jónasdóttir sópran stundaði framhaldsnám í söng við Listaháskóla Íslands og Hochschule für Musik Hanns Eisler í Berlín. Hún lauk prófi þaðan árið 2012 með ágætiseinkunn og var þá ráðin að óperustúdíóinu við Zürich-óperuna þar sem hún vann til að mynda með Fabio Luisi og Brigitte Fassbaender. Árin 2013–2018 var hún fastráðin við Ríkisóperu Saarlands, en er nú sjálfstætt starfandi. Herdís hefur tekið þátt í óperuuppfærslum í Þýskalandi, á Íslandi og í Sviss. Meðal helstu hlutverka hennar eru Violetta í La traviata, Adina í Ástardrykknum, Despina í Così fan tutte, Zerlina í Don Giovanni, Oscar í Grímudansleiknum og Musetta í La bohème. Herdís hefur komið fram á tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur, Ríkishljómsveit Saarlands og Sinfóníuhljómsveitinni í Canberra. Árið 2019 hlaut Herdís Grímuverðlaunin sem söngvari ársins fyrir túlkun sína á hlutverki Violettu í La traviata í sýningu Íslensku óperunnar.

Kammerkórinn Schola Cantorum hefur verið mikilvirkur flytjandi tónlistar frá ýmsum tímabilum undir stjórn Harðar Áskelssonar allt frá stofnun árið 1996. Kórinn hefur frumflutt verk eftir fjölda tónskálda og unnið með fjölmörgum listamönnum og hópum við tónleikahald og upptökur og má þar nefna Björk, Sigur Rós, Hjaltalín og Jóhann Jóhannsson. Kórinn hefur hlotið ýmsar viðurkenningar og unnið til verðlauna í keppnum í Frakklandi og á Ítalíu. Þá var kórinn tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs árið 2007 og útnefndur tónlistarflytjandi ársins í flokki sígildrar tónlistar og samtímatónlistar á Íslensku tónlistarverðlaunum árið 2017. Schola Cantorum hefur sent frá sér marga geisladiska, m.a. Meditatio I og II sem komu út á vegum BIS 2016 og 2023 og hafa hlotið afar lofsamlega umfjöllun víða um heim. Árið 2022 tók Schola Cantorum þátt í frumflutningi á óratóríunni Gospel of Mary eftir Huga Guðmundsson á tónleikum í Hallgrímskirkju á Listahátíð í Reykjavík og flutti verkið einnig ásamt norrænum kammersveitum á hátíðum í Kaupmannahöfn og Osló.

Scandinavian Cornetts and Sackbuts er hópur norrænna tónlistarmanna sem leika á zink (cornetto) og básúnur (sackbuts). Uppistöðu hópsins mynda þau Lene Langballe (DK) zink, Marit Bjørnsen (NO) básúna, Daniel Stighäll (SE) básúna og Nils Carlsson (SE) básúna, en samsetning hópsins fer eftir þörfum og efnisskrá hverju sinni. Hljóðfæraleikararnir eru allir sérhæfðir í flutningi snemmtónlistar og koma reglulega fram með fremstu sveitum Evrópu á því sviði. Hópurinn tekur oft þátt í flutningi stærri verka á borð við Maríuvesper og óperuna Orfeo eftir Monteverdi, en heldur einnig sjálfstæða tónleika.

Alþjóðlega barokksveitin í Reykjavík (áður Hallgrímskirkju/Den Haag) er skipuð úrvalshljóðfæraleikurum víðs vegar að úr heiminum, en meðlimir sveitarinnar eiga það flestir sameiginlegt að hafa numið við Konunglega tónlistarháskólann í Den Haag í Hollandi sem er leiðandi í kennslu á barokkhljóðfæri. Að námi loknu hafa meðlimir Alþjóðlegu barokksveitarinnar haslað sér völl sem eftirsóttir hljóðfæraleikarar og leika nú reglulega með mörgum af helstu upprunasveitum heims undir stjórn nafntogaðra stjórnenda. Meðlimir Alþjóðlegu barokksveitarinnar í Reykjavík hafa verið tíðir gestir á Íslandi undanfarin tuttugu ár og hafa átt ómetanlegan þátt í að kynna flutningsmáta upprunastefnu og hljóðfæri barokktímans hér á landi.

Bjarni Frímann Bjarnason er einhver fjölhæfasti tónlistarmaður landsins. Hann lauk prófi í lágfiðluleik frá Listaháskóla Íslands árið 2009. Að því loknu stundaði hann nám í hljómsveitarstjórn undir handleiðslu Freds Buttkewitz við Hanns Eisler-tónlistarháskólann í Berlín. 2012 vann hann fyrstu verðlaun í Hanns Eisler-keppninni í Berlín fyrir píanóleik. Hann var útnefndur Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2016 og var ráðinn tónlistarstjóri Íslensku óperunnar árið 2018. Bjarni hefur m.a. stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur, Caput og Kammersveitinni í Bergen. Í ágúst síðastliðnum stjórnaði hann Mótettukórnum og Kammersveitinni Elju í flutningi á sálumessu Mozarts og Chichester-sálmum Bernsteins á tónleikum í Eldborg Hörpu.

Philip Barkhudarov bassi stundaði nám hjá Jóni Þorsteinssyni við tónlistarháskólann í Utrecht í Hollandi. Hann fæddist í Moskvu, ólst upp í Nýju-Mexíkó í Bandaríkjunum og er með BA-gráðu í eðlisfræði og meistaragráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Utrecht. Hann er nú búsettur í Reykjavík. Philip hefur sungið í Norður-Ameríku, Evrópu, Japan og Ástralíu og hefur túlkað óperuhlutverk á borð við Sarastro í Töfraflautunni, Antinous í Il ritorno d’Ulisse in patria eftir Monteverdi, Collatinus í The Rape of Lucretia eftir Britten og Salieri í Mozart og Salieri eftir Rimsky-Korsakov. Hann hefur sungið einsöng í ýmsum óratóríum, þar á meðal Matteusarpassíu Bachs, Sköpuninni eftir Haydn, Sálumessu Mozarts, auk nýrri verka eins og Jóhannesarpassíu Pärts og Vigilia eftir Rautavaara. Philip hefur einnig sungið með fjölda heimsþekktra kóra, þar á meðal Schola Cantorum, Hollenska kammerkórnum, Zürcher Sing-Akademie, Santa Fe Desert Chorale og ANÚNA frá Írlandi. Hann er stofnmeðlimur Olga Vocal Ensemble, hollensk-íslensks karlakvintetts sem hefur ferðast um Evrópu og Bandaríkin og hljóðritað fimm stúdíóplötur. Á meðan á heimsfaraldrinum stóð sumarið 2020 stóð Philip fyrir Vox Virtual, sönghátíð á netinu, með heimsþekktum hópum eins og The Swingles, Ensemble Rustavi og Cantus. Árið 2022 söng Philip inn á plötu með eigin textum og tónverkum í samvinnu við franska tríóið Les Itinérantes. Sama ár stofnaði hann íslenska sönghópinn Kyrju.

Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir sópran fæddist í Reykjavík 1984. Hún lauk burtfararprófi og kennaragráðu (ABRSMdip) frá Söngskólanum í Reykjavík hjá Signýju Sæmundsdóttur og framhaldsgráðu í sviðslistum og óperusöng frá Royal Conservatoire of Scotland hjá Patriciu Hay. Thelma hefur einnig sótt mörg námskeið m.a. hjá Kiri Te Kanawa, Malcolm Martineau, Robin Stableton og Thomas Allan. Thelma starfar við fjölbreytt leik- og söngverkefni, Hún hefur komið fram á fjölmörgum tónleikum hér heima og erlendis og söng m.a. hjá Royal Scottish Opera í fjölda verkefna á meðan á námi hennar stóð. Á meðal hlutverka sem Thelma hefur sungið má nefna Sheilu Franklin (Hárið), Papagena (Töfraflautan), Óli Lokbrá (Hans og Gréta), Súsanna (Brúðkaups Fígarós) og Gréta (Hans og Gréta). Á meðal kirkjulegra einsöngshlutverka má nefna Requiem (John Rutter), Te Deum (Charpentier), Requiem (Sigurður Sævarsson) og ýmsar kantötur eftir Bach. Thelma steig sín fyrstu skref á Stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu árið 2014. Þar tók hún að sér hlutverk í söngleiknum Spamalot eftir Monty Python og hlutverk Mercy Lewis í leikriti Arthurs Millers Eldrauninni (The Crucible). Thelma lék titilhlutverk Pílu Pínu í samnefndum söngleik hjá Menningarfélagi Akureyrar. Allar þessar sýningar hafa hlotið mikið lof gagnrýnenda. Thelma kemur fram sem einsöngvari og syngur töluvert við kirkjulegar athafnir en þar að auki syngur hún með kammerkórnum Schola Cantorum, en  hún var formaður kórsins á mjög blómlegum tíma i starfi kórsins 2014-2020.

Þorkell H. Sigfússon tenór er fæddur árið 1988. Hann byrjaði að syngja í kirkjukór tveggja ára gamall og lærði á fiðlu frá 5 til 8 ára aldurs. Þá hóf hann sellónám og lagði stund á það næstu 10 ár, fyrst í Tónmenntaskóla Reykjavíkur undir handleiðslu Bryndísar Björgvinsdóttur og síðar í Tónlistarskóla Kópavogs undir handleiðslu Stefáns Arnar Stefánssonar og Sigurðar Bjarka Gunnarssonar. Tvítugur að aldri hóf Þorkell söngnám hjá Elísabetu Erlingsdóttur. Hann hefur sótt fjölda masterclassa og einkatíma, m.a. hjá Kristni Sigmundssyni, Mark Wildman, Chris Underwood og Bo Rosenkull. Þorkell útskrifaðist með B.mus gráðu í söng frá Listaháskóla Íslands árið 2013 og hlaut hann styrk úr sjóði Halldórs Hansen fyrir framúrskarandi árangur á lokatónleikum. Þorkell er meðlimur fjölda sönghópa, þ.á.m. eru Schola Cantorum, Kór Íslensku óperunnar, Cantoque Ensemble og Kyrja. Þorkell söng hlutverk Þórðar í barnaóperu Hildigunnar Rúnarsdóttur, Gilitrutt, sem frumsýnd var á Myrkum Músíkdögum.

Örn Ýmir Arason bassi hóf nám á kontrabassa ungur að aldri og hefur sungið í kórum frá 7 ára aldri. Örn nam tónsmíðar við Listaháskóla Íslands hjá þeim Tryggva M. Baldvinssyni og Úlfari Haraldssyni og útskrifaðist þaðan vorið 2014. Einnig var hann þar í söngnámi hjá Elísabetu Erlingsdóttur. Örn hefur samið verk fyrir ýmsa dansara, kóra, kammerhópa og leiksýningar. Í dag starfar hann jafnt við söngstörf, tónsmíðar og hljóðfæraleik og er búsettur í Reykjavík. Hann hefur verið söngvari Schola Cantorum um margra ára skeið.

MARÍUVESPER EFTIR CLAUDIO MONTEVERDI- hátíðartónleikar í Eldborg 3. des kl. 20