Jólatónlistarhátíð hefst nú um helgina

Lúðrar og ljúfur söngur á jólatónlistarhátíð í Hallgrímskirkju
10/11/2015
Tár, bros og trompetar – Önnur helgi jólatónlistarhátíðarinnar framundan
01/12/2015
Sýna allt

Jólatónlistarhátíð hefst nú um helgina

Jólatónlistarhátíð Hallgrímskirkju hefst með pompi og pragt nú um helgina með glæsilegum orgeltónleikum og hátíðarmessu á fyrsta sunnudag í aðventu auk þess sem ný myndlistasýning opnar í forkirkjunni.

Það er Björn Steinar Sólbergsson sem hefur leikinn með tónleikum í hádeginu laugardaginn 28. nóvember undir yfirskriftinni Veni redemptor gentium/Nú kemur heimsins hjálparráð og leikur fagra aðventutónlist eftir Bach og Guilmant. Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa í hálfa klukkustund.

Messað verður á hefðbundnum tíma á sunnudeginum, klukkan ellefu, og mun frú Agnes Sigurðardóttir, Biskup Íslands, prédika. Mótettukór Hallgrímskirkju syngur við athöfnina og markar messan upphaf jólasöfnunar Hjálparstarfs kirkjunnar. Dr. Sigurður Árni Þórðarson og sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir þjóna fyrir altari og Björn Steinar Sólbergsson leikur á orgelið. Stjórnandi er Hörður Áskelsson.

Strax eftir messu opnar listsýning Erlu Þórarinsdóttur í forkirkjunni. Erla sýnir ný verk undir yfirskriftinni Kvenleikar/Genetrix, en þar vinnur hún með minni gyðjunnar, framhald hennar Maríu mey og fæðingu frelsarans.

Síðan rekur hver viðburðurinn annan á Jólatónlistarhátíðinni fram til áramóta, jólatónleikar Mótettukórsins, aðventutónleikar Schola cantorum, þýskur jólajazz, spennandi tónleikar Björns Steinars milli jóla og nýárs að ógleymdum Hátíðarhljómunum vinsælu um áramótin þegar trompetar kalla nýja árið til leiks.

Áhugasamir eru hvattir til að skoða viðburðadagatal Listvinafélagsins – þar er sannarlega margt spennandi!