Lúðrar og ljúfur söngur á jólatónlistarhátíð í Hallgrímskirkju

Tónleikar Schola cantorum á Allra heilagra messu 1. nóv kl. 17
HVÍLD – tónleikar Schola cantorum á Allra heilagra messu 1. nóv kl. 17
23/10/2015
Jólatónlistarhátíð hefst nú um helgina
27/11/2015

Lúðrar og ljúfur söngur á jólatónlistarhátíð í Hallgrímskirkju

Nú styttist óðfluga í aðventuna og í að jólatónlistarhátíð Listvinafélagsins hefjist í Hallgrímskirkju.

Hátíðin hefst á hádegi laugardaginn 28. nóvember með frábærum tónleikum Björns Steinars Sólbergssonar orgelleikara, sem flytur aðventutónlist eftir Bach og Guilmant. Með þeim er sleginn upptakturinn að glæsilegri dagskrá, en í allt verður boðið upp á níu hrífandi tónleika á vegum Listvinafélagsins yfir hátíðarnar.

Kammerkórinn Schola cantorum syngur aðventu- og jólatónlist á hádegistónleikum á föstudögum á aðventunni. Tónleikarnir verða sannkallað mótefni við jólaös og stressi og upplagt að gera hlé á amstrinu, líta við í kirkjunni og hlusta á fallega jólasöngva. Þeir fyrstu verða þann 4. desember og síðan 11. og 18. Desember klukkan 12.00–12.30 og er efnisskráin mismunandi í hvert sinn.

Jólamynd 1Hápunkturinn í jólatónleikahaldi í Hallgrímskirkju eru jólatónleikar Mótettukórsins, en þeir hafa verið haldnir í ríflega 30 ár og eru í huga margra ómissandi hluti af jólahaldinu. Í ár heldur kórinn þrenna tónleika á aðventunni þar sem hinn hreini kórsöngur, skreyttur orgelleik og málmblæstri, verður í sviðsljósinu en málmblásarakvartett úr Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur með kórnum. Á efnisskránni er hátíðleg aðventu- og jólatónlist samofin úr þýskum barokksálmum, sjaldheyrðum, enskum jólasöngvum og vitanlega fjöldinn allur af þekktum jólasálmum. Tónleikarnir verða dagana 5., 6. og 8. desember og er miðasala farin í fullan gang á midi.is og í Hallgrímskirkju, s. 510 1000.

Fimmtudaginn 17. desember verða skemmtilegir jazztónleikar í kirkjunni, en þá koma tveir þýskir tónlistarmenn, Markus Burger píanóleikari og Jan von Klewist saxófónleikari, og flytja jólasálma í jazzbúningi. Tekið verður við frjálsum framlögum á tónleikunum sem renna til Landsbjargar.

Jólamynd 3

Dagskráin heldur áfram milli jóla og nýárs með spennandi tónleikum Björns Steinars þar sem hann flytur hið magnaða La Nativité du seigneur eða Fæðing frelsarans – Níu hugleiðingar fyrir orgel eftir Olivier Messiaën. Um áramótin verða síðan að vanda hinir gríðarvinsælu Hátíðarhljómar með orgeli, þremur trompetum og pákum. Flutt verða verk eftir Bach, Purcell og Albinoni.

Þá er vert að minna á hátíðarmessu á fysta sunnudegi í aðventu þar sem Biskup Íslands prédikar, fallegur söngur verður í fyrirrúmi og ný listsýning Erlu Þórarinsdóttur verður opnuð í forkirkjunni.

Dagskrána má alla skoða í viðburðadagatalinu.