HVÍLD – tónleikar Schola cantorum á Allra heilagra messu 1. nóv kl. 17

20 þúsund sóttu listviðburði í sumar – margt spennandi framundan
13/10/2015
Lúðrar og ljúfur söngur á jólatónlistarhátíð í Hallgrímskirkju
10/11/2015
Sýna allt

HVÍLD – tónleikar Schola cantorum á Allra heilagra messu 1. nóv kl. 17

Tónleikar Schola cantorum á Allra heilagra messu 1. nóv kl. 17

Á Allra heilagra messu, þann 1. nóvember næstkomandi kl. 17.00, mun Schola cantorum halda tónleika við kertaljós í Hallgrímskirkju undir yfirskriftinni Hvíld.

Hefð er orðin fyrir slíkum tónleikum Schola cantorum á þessum forna helgidegi þegar látinna er minnst og verða að þessu sinni flutt sérlega falleg og áhrifamikil verk frá 20. og 21. öldinni er hæfa hvíldinni eilífu. Má þar nefna hið tregafulla og ljúfa Requiem eftir Jón Leifs, hið ójarðneska Lux aurumque eftir Eric Whitacre, The Lamb eftir Tavener, alltaf jafn áhrifamikið í einfaldleika sínum, og að sjálfsögðu Heyr himna smiður eftir Þorkel Sigurbjörnsson, sálminn sem margir telja þann fegursta sem saminn hefur verið hér á landi.

Schola cantorum hefur nýlokið upptökum fyrir geisladisk með þýska tónmeistaranum Jens Ulrich Braun, sem starfað hefur fyrir sænska útgáfufyrirtækið BIS í mörg ár. Á disknum verða ýmsar kórperlur samtímans bæði íslenskar og erlendar undir yfirskriftinni Hvíld. Stefnt er að því að diskurinn komi út hjá erlendu útgáfufyrirtæki, sem tryggja mun alþjóðlega dreifingu hans.

Þann 12. nóvember heldur kórinn í tónleikaferð til Sviss í boði listahátíðarinnar Culturescapes, sem fram fer í  Basel og nágrenni og er með íslenska list í brennidepli. Kórinn syngur fimm tónleika á fjórum dögum: Í leikhúsinu í Chur þann 12. nóvember, í leikhúsinu í Bellinzona 13. nóvember, í Usterkirkju þann 14., Goetheanum í Dornach þann 15. og í Dómkirkjunni í Basel sama kvöld (sjá nánar á heimasíðu hátíðarinnar www.culturescape.ch). Á efnisskrám kórsins verða, auk verkanna af efnisskrá tónleikanna í Hallgrímskirkju,  íslensk þjóðlög og íslensk trúarleg kórverk af komandi geislaplötu.

Í þessum verkefnum skipa kórinn 19 söngvarar. Stjórnandi kórsins frá upphafi er Hörður Áskelsson.

Miðaverð er 3.500 krónur og býðst námsmönnum sem og listvinum miðinn á hálfvirði sem oftar. Miðasala er í Hallgrímskirkju og á TIX.IS.

Á efnisskrá tónleikanna:

James MacMillan (*1959)    A Child´s Prayer

John Tavener (1944-2013) The Lamb

Hugi Guðmundsson (*1977) Hvíld

Jón Leifs (1899-1968) Requiem

Ēriks Ešenvalds (*1977) O salutaris hostia

Morten Lauridsen (*1943) O nata lux

Sigurður Sævarsson (*1963) Nunc dimittis

Þorkell Sigurbjörnsson (1938-2013) Nú hverfur sól í haf

Eric Whitacre (*1970) Lux aurumque

Arvo Pärt (*1935) Nunc dimittis

Anna Þorvaldsdóttir (*1977) Heyr þú oss himnum á

Hörður Áskelsson (*1953) Hvíld

Hreiðar Ingi (*1978) Nunc dimittis

Þorkell Sigurbjörnsson (1938-2013)   Heyr himnasmiður