20 þúsund sóttu listviðburði í sumar – margt spennandi framundan

Leiðsögn um sýningu Helga Þorgils
09/10/2015
Tónleikar Schola cantorum á Allra heilagra messu 1. nóv kl. 17
HVÍLD – tónleikar Schola cantorum á Allra heilagra messu 1. nóv kl. 17
23/10/2015

20 þúsund sóttu listviðburði í sumar – margt spennandi framundan

Viðburðaríkt listasumar er nú að baki í Hallgrímskirkju. Kirkjan hefur í allt sumar iðað af lífi og ómað af unaðslegri músík og hæfileikaríkir listamenn víða að hafa látið ljós sitt skína: Hver orgelvirtúósinn rak annan, heyra mátti frábæran kórsöng og frumflutt var heil óratóría eftir Händel. Samtals sóttu kringum 20.000 manns listviðburði í Hallgrímskirkju í sumar.

Gríðarlegur fjöldi fólks sækir Hallgrímskirkju heim dag hvern og er greinilegt að ferðafólk er afar þakklátt fyrir tækifæri til að njóta tónleika í þessu fallega guðshúsi og þá ekki síst að fá að heyra í Klais-orgelinu sem gnæfir yfir kirkjuskipinu og vekur alltaf sömu undrun og hrifningu þeirra sem koma í fyrsta sinn í kirkjuna.

Tónleikar sumarsins, sem hófust með Alþjóðlega orgelsumrinu og hádegistónleikum Schola cantorum í júní, voru enda sérlega vel sóttir. Nokkuð var um íslenska gesti og Listvinir voru áberandi duglegir að nýta sér sumartónleikana í ár, sem er gleðiefni.

Hápunktur sumarsins var Kirkjulistahátíð í ágúst. Hófst hún með ógleymanlegum frumflutningi hérlendis á óratóríunni Salómon eftir Händel með Mótettukórnum og Alþjóðlegu barokksveitinni en fleiri viðburðir verða lengi í minnum hafðir: Barokkdansararnir á opnunarhátíðinni, Olivier Latry og frú að spila Vorblót Stravinskís fjórhent með fítonskrafti á orgelið, kórhefðin enska beint í æð með dásamlegum söng King’s Men og svo framvegis og framvegis.

Um þessar mundir starfar Listvinafélagið að undirbúningi fyrir jól og áramót, en Mótettukórinn mun halda hefðbundna aðventutónleika, Schola cantorum syngja þrenna hádegistónleika á aðventunni og sömuleiðis verða hátíðartónleikar um áramót að vanda. Þá mun Björn Steinar Sólbergsson einnig halda sérstaka jólaorgeltónleika. Dagskrá næsta starfsárs er síðan óðum að taka á sig mynd og verður bæði metnaðarfull og spennandi.