Hundrað barna söngvahátíð, heildarlestur Passíusálmanna og endurreisnarsöngur Schola cantorum í Hallgrímskirkju í páskavikunni

Maríutónleikum Schola cantorum 13. mars frestað
10/03/2016
Börnin sungu yndislega á skírdag – Myndband
13/04/2016
Sýna allt

Hundrað barna söngvahátíð, heildarlestur Passíusálmanna og endurreisnarsöngur Schola cantorum í Hallgrímskirkju í páskavikunni

Páskarnir eru ávallt stórhátíð í Hallgrímskirkju og mikið er um að vera í aðdraganda þeirra þetta árið.

Á skírdag mun 120 barna kór flytja kirkjusöngva með sveiflu á Söngvahátíð barnanna við undirleik sveiflusveitar skipaðri Kjartani Valdimarssyni, Gunnari Hrafnssyni og Pétri Grétarssyni en Hörður Áskelsson leikur einnig með á orgel. Þessi árvissi viðburður er afar gleðilegur og fyllist kirkjan af kátum tónleikagestum á öllum aldri. Tónleikarnir hefjast kl. 17 og aðgangur er ókeypis. Kórarnir sem taka þátt í Söngvahátíð barnanna í ár eru:

Unglingakór Hafnarfjarðarkirkju, stjórnandi Helga Loftsdóttir.

Graduale futuri, Langholtskirkju, stjórnandi Rósa Jóhannesdóttir.

Kórskóli Langholtskirkju, stjórnandi Bryndís Baldvinsdóttir.

Barnakór Seljakirkju, eldri og yngri deild, stjórnandi Rósalind Gísladóttir.

Barna- og unglingakór Hallgrímskirkju og Barnakór Ísaksskóla, stjórnandi Ása Valgerður Sigurðardóttir.

Umsjónarmaður er Margrét Bóasdóttir verkefnastjóri kirkjutónlistar á Biskupsstofu.

Að kvöldi skírdags kveður við allt annan og alvarlegri tón í kirkjunni. Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttur messar kl. 20.00. Svokölluð Getsemanestund tekur við í framhaldi af messunni, en þá er altarið með viðhöfn og í þögn skrýtt sérstöku altarisklæði sem aðeins er notað á föstudaginn langa. Klæðið er svart og ber mynd pelíkanans, en hann er fornt tákn píslanna og friðþægingarinnar. Unnur Ólafsdóttir listakona gerði klæðið og færði kirkjunni ásamt svörtum hökli sem á er saumað fyrsta vers Passíusálmanna.

Schola cantorum flytur við það tækifæri fagra föstutónlist frá endurreisnartímanum eftir Tallis, Byrd, Lotti, Purcell og hið magnaða Miserere eftir Allegri. Einsöngvarar í því verki eru Rakel Edda Guðmundsdóttir sópran og Fjölnir Ólafsson barítón. Kórinn er löngu viðurkenndur sem einn fremsti kór landsins og hefur hlotið tilnefningu til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs og Íslensku tónlistarverðlaunanna og var valinn tónlistarhópur Reykjavíkurborgar árið 2006–7. Stjórnandi frá upphafi er Hörður Áskelsson. Aðgangur er ókeypis.

Á föstudaginn langa verður síðan að vanda heildarflutningur á Passíusálmum Hallgríms Péturssonar. Löng hefð er fyrir slíkum flutningi í Hallgrímskirkju, en siðurinn hefur verið viðhafður síðan kirkjan var vígð. Félagar úr Mótettukór Hallgrímskirkju lesa en þeir eru Gísli Sigurðsson, Guðrún Hólmgeirsdóttir, Inga Harðardóttir, Halldór Hauksson, Ævar Kjartansson, Svanhildur Óskarsdóttir, Guðrún Finnbjarnardóttir, Gunnar Thor Örnólfsson, Elva Dögg Melsteð og Snorri Sigurðsson. Lesin verður hin nýja útgáfa sálmanna sem Mörður Árnason hafði umsjón með. Lesturinn hefst kl. 13.00 og stendur fram til 18.00.