Hafliði Hallgrímsson tónskáld áttræður – Kveðja frá Listvinafélaginu í Reykjavík

Listvinafélagið breytir um nafn og flytur úr Hallgrímskirkju- fréttir frá aðalfundi 26. maí sl.
Listvinafélagið breytir um nafn og flytur úr Hallgrímskirkju- fréttir frá aðalfundi 26. maí sl.
09/06/2021
Kammerkórinn Schola Cantorum
IN PARADISUM — TÓNLEIKAR SCHOLA CANTORUM Í HÁTEIGSKIRKJU SUNNUDAGINN 26. SEPT. 2021 KL. 17
20/09/2021
Sýna allt

Hafliði Hallgrímsson tónskáld áttræður – Kveðja frá Listvinafélaginu í Reykjavík

Hafliði Hallgrímsson

Listvinafélagið sendir Hafliða, sem nú býr í London, innilegar árnaðaróskir á áttræðisafmælinu með kærum þökkum fyrir allt sem hann hefur gefið íslensku og alþjóðlegu tónlistarlífi.

Það dylst engum sem hefur kynnt sér feril Hafliða að þar fer einn af fremstu tónlistarmönnum Íslendinga fyrr og síðar. Á meira en hálfri öld hefur hann sífellt numið ný lönd í list sinni, fyrst sem sellóleikari, síðar sem tónskáld. Hann er án nokkurs vafa í hópi fremstu tónsmiða Evrópu.

Hörður Áskelsson og kórar hans, Mótettukórinn og Schola Cantorum, hafa átt afar gjöfult samstarf við Hafliða Hallgrímsson um árabil. Hafliði samdi óratóríur sínar, Passíu og Mysterium, fyrir Hörð. Passía var samin við vers úr Passíusálmum Hallgríms Péturssonar og ljóð íslenskra nútímaskálda og var frumflutt undir stjórn Harðar í Hallgrímskirkju í febrúar 2001 sem liður í hátíðahöldum vegna 1000 ára afmælis kristnitöku. Geisladiskur með verkinu, sem finnska útgáfufyrirtækið Ondine gaf út, var ausinn hrósi í ýmsum erlendum blöðum og tímaritum, m.a. Gramophone, International Record Review og BBC Music Magazine.

Viðfangsefni óratóríunnar Mysterium er leyndardómur dauða, upprisu og uppstigningar Jesú Krists, eins og hann birtist í frásögn Jóhannesar guðspjallamanns og fornum latneskum helgitextum. Verkið var frumflutt af Mótettukórnum, Schola cantorum, hljómsveit og 4 einsöngvurum undir stjórn Harðar á Kirkjulistahátíð 2019 og hlaut sömuleiðis frábæra dóma.

Hafliði Hallgrímsson tónskáld

Hafliði Hallgrímsson tónskáld

 

Schola Cantorum gaf árið 2013 út disk með kórverkum Hafliða án undirleiks, Hafliði Hallgrimsson choral works, og hefur einnig flutt gullfallegan jólalagaflokk úr smiðju hans.

Það sem hefur einkennt tónlist Hafliða frá upphafi er þrotlaus leit að sannri fegurð, án allra stæla eða sýndarmennsku. Hann hefur farið sínar eigin leiðir, tekið sjálfstæðar ákvarðanir um stíl og stefnu og látið fyrirskrifaðar aðferðir lönd og leið. Tónlist hans talar skýrum rómi til þeirra sem leggja sig eftir að hlusta. Reynsla Hafliða af hljóðfæraleik, í minni sem stærri hópum, hefur verið honum afar drjúgt veganesti og fullyrða má að fá tónskáld hafi náð jafn frábærum tökum á listinni að skrifa fyrir strengjahljóðfæri. Djúpur áhugi Hafliða og innsýn í aðrar listgreinar, sér í lagi myndlist, er einnig vel greinanleg í tónverkum hans. Hafliði er sjálfur afar hæfileikaríkur myndlistarmaður og hefur haldið sýningar á myndum sínum, m.a. á vegum Listvinafélagsins.

Tónlistaráhugi Hafliða og -hæfileikar komu snemma í ljós. Hann kynntist ungur ýmsum hljóðfærum, en örlögin höguðu því þannig að sellóið varð förunautur hans. Að loknu námi hjá Einari Vigfússyni í Tónlistarskólanum í Reykjavík stundaði Hafliði framhaldsnám í Akademíu heilagrar Sesselju í Róm veturinn 1962–63 hjá Enrico Mainardi, einum af frægustu sellóleikurum tuttugustu aldar. Hann lauk sellónámi sínu í Konunglegu tónlistarakademíunni í London og hreppti þar hin virtu Madame Suggia verðlaun árið 1966, en sama ár þreytti hann frumraun sína sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Sellóleikaraferill Hafliða varð einkar glæsilegur. Hann lék í frægum tónleikasölum á borð við Wigmore Hall og Purcell Room í London og kom oft fram hjá BBC. Hann starfaði með framúrskarandi kammerhópum eins og Haydn-strengjatríóinu, Icelandic Canadian Ensemble (með Þorkatli Sigurbjörnssyni og Robert Aitken) og Mondrian-tríóinu, en einnig mörgum þekktum hljómsveitum, svo sem London Sinfonietta, Monteverdi Orchestra og Menuhin Festival Orchestra og var um árabil félagi í Ensku kammersveitinni. Hafliði vann með mörgum af þekktustu tónlistarmönnum heims og má þar nefna Daniel Barenboim, Yehudi Menuhin og Paul Tortelier. Orðstír hans jókst stöðugt og árið 1977 var honum boðin staða fyrsta sellóleikara í Skosku kammersveitinni.

Hafliði Hallgrímsson tónskáld

Hafliði Hallgrímsson tónskáld

Árið 1983 lagði Hafliði sellóið til hliðar og helgaði sig tónsmíðum. Hann steig reyndar fyrstu skref sín á því sviði þegar á barnsaldri heima á Akureyri og hélt áfram að reyna fyrir sér á námsárunum í Reykjavík og Róm. Árið 1968 stundaði hann tónsmíðanám í London hjá dr. Alan Bush og hinu þekkta tónskáldi sir Peter Maxwell Davies. Á áttunda áratugnum fikraði hann sig hægt og sígandi út á tónsmíðabrautina meðfram sellóleiknum og samdi m.a. verkið Verse I fyrir flautu og píanó sem hann hlaut Viotti-verðlaunin fyrir árið 1976.

Verkið sem kveikti alþjóðlegan áhuga á tónlist Hafliða var fiðlukonsertinn Poemi frá 1984 sem hann samdi fyrir fiðluleikarann Jaime Laredo, en fyrir það verk hlaut Hafliði Tónskáldaverðlaun Norðurlandaráðs og fleiri verðlaun. Í kjölfar Poemis hafa fjölmörg mikilvæg tónverk komið úr smiðju Hafliða, mörg hver pöntuð af virtum stofnunum og frumflutt af þekktum tónlistarmönnum. Fleiri strengjakonsertar hafa bæst við, Herma, fyrir selló og strengjasveit, Ombra, fyrir víólu og strengjasveit (frumflutt af Lars Anders Tomter), sellókonsert sem var saminn fyrir Truls Mørk og fiðlukonsert sem var frumfluttur af Jennifer Pike.

Meðal hljómsveitarverka Hafliða eru Still Life, sem var pantað af Skosku kammersveitinni og Glasgowborg, Crucifixion, sem Konunglega fílharmóníusveitin í London pantaði og Norðurdjúp, sem Hafliði samdi sem staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands árið 2008.

Ópera Hafliða, Viröld fláa, sem byggð er á sögum rússneska absúrdhöfundarins Daníils Kharms, var frumsýnd í Lübeck-óperunni í Þýskalandi árið 2004 og var sýnd í Vín árið eftir við góðar undirtektir. Óperan var einnig flutt í tónleikaformi af Sinfóníuhljómsveit Íslands í Háskólabíói á Listahátíð í Reykjavík 2007.

Meðal kammer- og einleiksverka Hafliða má nefna tvo strengjakvartetta, píanótríóið Metamorphoses, Tristia fyrir gítar og selló, Notes from a Diary fyrir víólu og píanó, Offerto fyrir fiðlu og Flug Íkarusar fyrir flautu.

(Halldór Hauksson 18.9.2021)

Sjá myndir hér frá upphafstónleikum Kirkjulistahátíðar, verkið Mysterium op. 53 eftir Hafliða Hallgrímsson frumflutt