GUÐSPJALL MARÍU- heimsfrumflutningur á Listahátíð í Reykjavík annan í hvítasunnu 6. júní 2022 kl. 20

Jólaóratórían í Hörpu
AÐALFUNDARBOÐ- aðalfundur Listvinafélagsins i Reykjavík í Björtuloftum miðvikudaginn 8. júní nk. kl. 17.
25/05/2022
Myndir: Guðspjall Maríu eftir Huga Guðmundsson – heimsfrumflutningur á Listahátíð í Reykjavík 6. júní 2022
07/06/2022

GUÐSPJALL MARÍU- heimsfrumflutningur á Listahátíð í Reykjavík annan í hvítasunnu 6. júní 2022 kl. 20

GUÐSPJALL MARÍU

Heimsfrumflutningur á óratóríunni The Gospel of Mary eftir Huga Guðmundsson fer fram í Hallgrímskirkju á annan í hvítasunnu 6. júní kl. 20.
Guðspjall Maríu er ný og magnþrungin óratóría eftir eitt fremsta samtímatónskáld þjóðarinnar, Huga Guðmundsson, sem samin var að beiðni Harðar Áskelssonar og Listvinafélagsins fyrir nokkrum árum og gleðilegt og mjög viðeigandi að frumflutt sé á 40 ára afmæli félagsins í Hallgrímskirkju í Reykjavík, en þessi stóri viðburður er samvinnuverkefni Listvinafélagsins í Reykjavík og Listahátíðar í Reykjavík og liður í 40 ára afmælishátíðarhöldum Listvinafélagsins, sem stofnað var árið 1982. Flytjendur eru norska sópransöngkonan Berit Norbakken, Schola Cantorum og Oslo Sinfonietta undir stjórn Harðar Áskelssonar.

Miðasala er á tix.is og miðaverð er 5.900 kr.

Texti þeirra Nilu Parly og Niels Brunse byggist að uppistöðunni til á samnefndu riti frá fimmtu öld en talið er að því hafi verið haldið leyndu þar sem það stangaðist á við kristilegan rétttrúnað síns tíma.

Guðspjall Maríu er óhefðbundin og framsækin túlkun á boðskap Jesú Krists sem vegferð til innri andlegrar visku á sama tíma og það hafnar þjáningum og dauða sem leiðum til eilífs lífs. Einnig er ýjað að því að María Magdalena hafi verið postuli sem hefur þótt eldfimur boðskapur. Þetta forna helgirit talar sterkt inn í okkar samtíma og tónskáldið lyftir guðspjallinu upp yfir stað og stund.

Verkið er flutt af framúrskarandi hópi tónlistarfólks þar sem saman koma Schola Cantorum, Oslo Sinfonietta og sópransöngkonan Berit Norbakken undir stjórn Harðar Áskelssonar en Hörður pantaði verkið sérstaklega hjá Huga fyrir hönd Listvinafélagsins í Reykjavík. Í gróskumiklu starfi sínu hefur félagið lagt áherslu á nýsköpun í listum og fjölmörg tónverk verið samin að tilstuðlan þess. Berit Norbakken er ein þekktasta sópransöngkona Noregs og hefur komið fram víða um heim við góðan orðstír, meðal annars í óperuhúsum Sydney og Tókýó.

Listrænir aðstandendur: Hugi Guðmundsson, Hörður Áskelsson, Nila Parly, Niels Brunse, Schola Cantorum, Oslo Sinfonietta, Berit Norbakken, Kåre Nordstoga

Miðasala er á tix.is og er miðaverð 5.900 kr. 

Sjá nánar á heimasíðu Listahátíðar hér.

Hugi Guðmundsson er eitt helsta samtímatónskáld Íslendinga og fer hróður hans í norrænu tónlistarlífi sífellt vaxandi. Hugi hefur tvisvar verið tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs, nú síðast fyrir rómaða óperu sína, Hamlet in Absentia. Hugi lærði tónsmíðar við Tónlistarskólann í Reykjavík og Konunglegu dönsku tónlistarakademíuna þar sem hann nam hjá Bent Sørensen, Niels Rosing-Schow og Hans Abrahamsen. Seinni meistaragráðu sinni, í raf- og tölvutónlist, lauk hann frá Institute of Sonology í Haag. Hugi er þekktur fyrir a cappella-verk sín en hefur einnig samið tónlist fyrir einleikshljóðfæri og hljómsveitir. Á síðustu árum hafa meiriháttar tónverk orðið æ fyrirferðarmeiri í höfundarverki Huga, bæði tónleikaverk og óperur, og fyrir þau hefur hann hlotið ýmis verðlaun og mikið lof gagnrýnenda.

Hörður Áskelsson er margverðlaunaður stjórnandi og organisti. Hörður hóf störf sem kantor Hallgrímskirkju árið 1982. Hann er stofnandi Mótettukórsins og Schola Cantorum, sem eru í fremstu röð íslenskra kóra og hafa getið sér gott orð á alþjóðlegum vettvangi og unnið til margvíslegra verðlauna undir hans stjórn. Hörður er einnig drifkrafturinn að baki Kirkjulistahátíð og Listvinafélaginu í Reykjavík. Hann hefur hlotið ýmis tónlistarverðlaun hér heima og erlendis og var m.a. sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín og útnefndur Borgarlistarmaður Reykjavíkurborgar.

Kammerkórinn Schola Cantorum var stofnaður árið 1996 af Herði Áskelssyni sem stjórnar kórnum enn. Auk þess að flytja tónlist endurreisnar- og barokktímans hefur kórinn sungið mikið af samtímatónlist og frumflutt ýmis verk íslenskra tónskálda. Kórinn var valinn tónlistarhópur Reykjavíkur árið 2006, hefur unnið til verðlauna í tónlistarkeppnum í Frakklandi og á Ítalíu og var tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs. Kórinn hefur einnig unnið með Alþjóðlegu barokksveitinni í Reykjavík ( áður The Hague) sem og Björk Guðmundsdóttur og Sigur Rós.

Oslo Sinfonietta er elsti starfandi tónlistarhópur Noregs sem fæst við samtímatónlist. Hópurinn samanstendur af sjálfstætt starfandi tónlistarfólki og meðlimum nokkurra af helstu hljómsveitum Noregs, svo sem Fílharmóníunnar í Osló, Norsku útvarpshljómsveitarinnar, hljómsveitar Norsku þjóðaróperunnar og Norsku kammersveitarinnar. Hljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi er Christian Eggen. Oslo Sinfonietta kemur reglulega fram á hátíðum í Noregi sem og utanlands og á í samstarfi við ýmis mikilsvirt tónskáld. Haustið 2015 hlaut Oslo Sinfonietta Norsku gagnrýnendaverðlaunin fyrir verkefni sitt Lachenmann! sem frumflutt var í júní sama ár. 

Berit Norbakken er ein fremsta sópransöngkona Noregs. Auk þess að vera iðulega valin sem einsöngvari í óratóríum, passíum og messum hefur hún haldið einsöngstónleika á ýmsum hátíðum í Noregi. Á síðustu árum hefur hún einnig komið fram í óperuuppfærslum við feiknagóðar undirtektir, nú síðast í nýrri sviðsetningu leikstjórans Calixto Bieito á Jóhannesarpassíu Bachs í Teatro Arriaga í Bilbao. Hún syngur reglulega einsöng með mikilsvirtum hljómsveitum í stórum tónleikahúsum á borð við Óperuhúsið í Sydney og Óperuhöllina í Tókyó, meðal annars undir stjórn Roberts King, Daniels Reuss, Eriks Nielsen, Mikhaels Pletnev, Andreas Spering, Olofs Boman og Ottavios Dantone.

Niels Brunse er rithöfundur og þýðandi. Hann hefur þýtt ríflega 200 verk úr ensku, þýsku og rússnesku, þar á meðal fjölmörg sígild leikrit sem og samtímaverk, þá aðallega eftir Shakespeare en einnig Tsjekhov, Kleist, Pinter, Beckett, Brecht, Dürrenmatt, Tennessee Williams og fleiri. Niels hefur skrifað skáldsögur, smásögur, söngtexta og leikverk og lauk einnig nýlega við endurskoðaða heildarþýðingu á verkum Shakespeares. Hann hefur hlotið ýmis bókmenntaverðlaun, þar á meðal heiðursverðlaun Wilhelm Hansen-sjóðsins og bókmenntaverðlaun Weekendavisen.

Nila Parly er textahöfundur og óperudramatúrg. Allt frá árinu 2005 hefur hún komið að ótal uppsetningum, meðal annars í Konunglegu óperunni í Kaupmannahöfn. Árið 2007 starfaði Nila sem dramatúrg að uppsetningu á Skriftestolen eftir Niels Marthinsen hjá Jósku óperunni en verkið hlaut Reumert-verðlaunin sama ár. Nila Parly er einnig menntuð óperusöngkona og nefndist doktorsritgerð hennar frá menningarfræðadeild Kaupmannahafnarháskóla Vocal Victories: Richard Wagner‘s Female Characters from Sentra to Kundry.

 Sjá dagskrá hér.

GUÐSPJALL MARÍU