FENEYJABAROKK-„TÓNAR og TÁR“: Hið áhugaverða líf Feneyjatónskáldsins BARBÖRU STROZZI með hinum rómaða barokkhópi ENSEMBLE MASQUE og sögumanni í Norðurljósum Hörpu þriðjudaginn 17. október kl. 19.30

Björtuloftum Hörpu - Harpa
Aðalfundur Listvinafélagsins í Reykjavík verður haldinn þriðjudaginn 12. september 2023 kl. 17 í Björtuloftum Hörpu
29/08/2023
MARÍUVESPER EFTIR CLAUDIO MONTEVERDI- hátíðartónleikar í Eldborg 3. des kl. 20
MARÍUVESPER EFTIR CLAUDIO MONTEVERDI- hátíðartónleikar í Eldborg 3. des kl. 20
17/11/2023
Sýna allt

FENEYJABAROKK-„TÓNAR og TÁR“: Hið áhugaverða líf Feneyjatónskáldsins BARBÖRU STROZZI með hinum rómaða barokkhópi ENSEMBLE MASQUE og sögumanni í Norðurljósum Hörpu þriðjudaginn 17. október kl. 19.30

Ensamble Masque

FENEYJABAROKK-„TÓNAR og TÁR“: Hið áhugaverða líf Feneyjatónskáldsins BARBÖRU STROZZI með hinum rómaða barokkhópi ENSEMBLE MASQUE og sögumanni í Norðurljósum Hörpu þriðjudaginn 17. október kl. 19.30

Þriðjudaginn 17. október verða haldnir tónleikar í Norðurljósum Hörpu með frönsku sópransöngkonunni Maïlys De Villoutreys og hinum marglofaða og rómaða barokkhópi Ensemble Masques, sem slegið hefur í gegn víða um heim og kom fram í Salnum í Kópavogi í nóvember 2022, en nokkrir meðlimir Alþjóðlegu barokksveitarinnar í Reykjavík leika með hópnum. Hópurinn heldur tónleika sína hér í samvinnu við Listvinafélagið í Reykjavík.

Á efnisskránni eru verk eftir Barböru Strozzi (1619–1677), aríur & aríettur fyrir sópran og fylgirödd og sópran, fiðlu og fylgirödd, og einnig hljóðfæratónlist eftir feneyska samtímamenn hennar Francesco Cavalli, Dario Castello, Marco Uccellini o.fl. Sögumaður setur áheyrendur á lifandi og litríkan hátt inn í menningarsöguna og líf Strozzi í umhverfi þessa tíma í Feneyjum, en hljóðfæratónlistin er leiftrandi og fögur í stíl sem kallast „Stylus Phantasticus“.

Barbara Strozzi fæddist árið 1619 í Feneyjum og var hyllt sem ein af bestu söngkonum og afkastamestu tónskáldum síns tíma.
Faðir hennar var skáldið Giulio Strozzi, einn af virtustu menntamönnum Feneyja á 17. öld, og kynntist Barbara því fjölmörgum skapandi listamönnum í blómlegu menningarlífi borgríkisins frá unga aldri. Tónlist hennar er djörf og merkileg fyrir margra hluta sakir. Áberandi eru einstaklega náin tengsl tónlistar og texta, og óvenjulegir og oft óvæntir hljómar. Óvenjumörg verk Barböru Strozzi voru gefin út á prenti – jafnvel fleiri en eftir flesta karlkyns kollega hennar – og verk hennar birtust einnig í nótnasöfnum sem dreifðust um alla Evrópu. Engu að síður lést hún flestum gleymd í Padua árið 1677.

Einstök saga Barböru Strozzi verður sögð á tónleikunum af fiðluleikaranum Kathleen Kaijoka frá Kanada sem er meðlimur í Ensemble Masque og er af íslenskum ættum, en hún er þekkt sem frábær sögumaður með mikla útgeislun og heldur úti klassískum útvarpsþætti í Toronto sem fluttur er í beinni útsendingu.

Ensemble Masques er kammertónlistarhópur án stjórnanda sem nýtur góðs af skapandi þátttöku hvers meðlims. Sameiginleg forvitni hljóðfæraleikaranna hefur á undanförnum árum leitt þá, og áheyrendur þeirra, á spennandi uppgötvunarbraut um heillandi heim barokktónlistarinnar. Geisladiskar hópsins hafa hlotið frábæra dóma og hæstu einkunn hjá tónlistartímaritum á borð við Diapason, Télérama, Classica og Gramophone. Hljóðfæraleikarar Ensemble Masques á tónleikunum í Hörpu auk Kathleen Kaijoka eru Olivier Fortin semballeikari og gömbuleikarinn Mélisande Corriveau.

Franska sópransöngkonan Maïlys De Villoutreys, sem kemur fram á tónleikunum með Ensemble Masques, hefur á undanförnum árum vakið mikla athygli fyrir ástríðufulla túlkun á söngtónlist barokktímans og kemur reglulega fram með mörgum af fremstu tónlistarhópum heims á þessu sviði.

Um flytjendurna:

Olivier Fortin

Olivier Fortin

Olivier Fortin

Olivier Fortin er kanadískur sembal- og orgelleikari. Hann útskrifaðist með láði frá Conservatoire de musique í Québec og hlaut styrki sem gerðu honum kleift að stunda framhaldsnám í París hjá Pierre Hantaï og í Amsterdam hjá Bob van Asperen. Hann hefur hlotið verðlaun í Bach-keppninni í Montréal og Musica Antiqua keppninni í Brugge og er mjög eftirsóttur sem einleikari og kammertónlistarmaður.

Olivier hefur komið fram um alla Evrópu, í Japan, Kína og Suður-Kóreu, í Ástralíu og Nýja Sjálandi, í Bandaríkjunum og Kanada með Ensemble Masques (sem hann stofnaði árið 1996), Capriccio Stravagante og barokkhljómsveitinni Tafelmusik. Hann leikur einnig tónlist fyrir tvo og þrjá sembala með Skip Sempé og Pierre Hantaï.

Frá 2004 til 2008 kenndi hann sembal- og kammertónlist við Conservatoire de musique í Québec. Á sumrin kennir hann á Cluny Early Music Summer Stage í Frakklandi og á Tafelmusik Summer Institute í Toronto.

Maïlys de Villoutrey

Maïlys de Villoutrey

Maïlys de Villoutrey

Franska sópransöngkonan Maïlys de Villoutreys nam söng við Tónlistarháskólann í Rennes og síðan við Conservatoire National Supérieur de Musique et de Danse í París, þar sem hún lauk mastersnámi sínu með láði árið 2011.

Hæfileikar hennar og ástríða fyrir barokktónlist hefur leitt til samstarfs við margar af fremstu snemmtónlistarsveitum heims. Hún syngur reglulega með Ensemble Amarillis, en einnig með Ensemble Pygmalion (R Pichon), Les Musiciens du Louvre (M Minkowski), Concerto Soave (JM Aymes), lʼEnsemble Desmarest (R Khalil), Les Folies Françoises (P Cohen-Akenine) og Le Banquet Céleste (D Guillon).

Maïlys uppgötvaði sviðið á unga aldri og túlkaði barnahlutverk í Opéra de Rennes (Sophie í Let’s make an Opera eftir Britten og Yniold í Pelléas et Mélisande eftir Debussy). Síðan hefur hún túlkað Mozart-hlutverk á borð við Pamínu, Barberínu og Næturdrottninguna, auk hlutverka í Lakmé eftir Delibes, Orfeifi og Evridísi eftir Gluck, Platée eftir Rameau og fjölda annarra ópera. Hún hefur sungið víða í Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu.

Meðal hljóðritana hennar má nefna óperuna Les Arts Florissans eftir Charpentier með Ensemble Marguerite Louise undir stjórn Gaétans Jarry sem var tekin upp í Versalahöll og hlaut frábæra dóma.

Kathleen Kajioka

Kathleen Kajioka

Kathleen Kajioka

Fiðluleikarinn Kathleen Kajioka er fædd og búsett í Toronto í Kanada. Hún sameinar virkan og fjölbreyttan hljóðfæraleikaraferil og útvarpsmennsku. Hún er félagi í hinum margrómaða barokkkammerhópi Ensemble Masques sem hún með hefur leikið með um allan heim, frá New York til St. Pétursborgar til Wigmore Hall í London. Upptökur hópsins fyrir Alpha hafa unnið Diapason d’Or og Gramophone-verðlaunin.

Kathleen hefur komið fram með nær öllum þekktum klassískum tónlistarstofnunum Toronto-borgar, þar á meðal Tafelmusik, Toronto Symphony Orchestra, Kanadísku óperunni, Þjóðarballett Kanada, Soundstreams, Toronto Masque Theatre og Amici Ensemble. Hún hefur einnig starfað sem fyrsti víóluleikari með Arion Baroque í Montréal. Kathleen er af japönsku og íslensku bergi brotin og hefur notið þess að tengjast aftur móðurlandi sínu á undanförnum árum sem meðlimur Alþjóðlegu barokksveitarinnar í Reykjavík, gestakonsertmeistari Kammersveitar Reykjavíkur og gestastjórnandi Bach-sveitarinnar í Skálholti.

Kathleen stundaði víólunám við Eastman School of Music hjá Mörtu Strongin-Katz og síðar nam hún mið-austurlenska tónlist í New York hjá Simon Shaheen og í Kaíró hjá Alfred Gamil. Barokktúlkun lærði hún í Kaliforníu hjá hinum víðfræga fiðluleikara Elizabeth Blumenstock.

Kathleen miðlar tónlistarþekkingu sinni daglega í heimalandi sínu á útvarpsstöðinni The New Classical FM þar sem hún stjórnar kvöldþættinum A Little Night Music og fleiri þáttum, auk þess sem hún kemur oft fram sem kynnir og sögumaður á tónleikum.

Kathleen Kajioka kennir upprunalegan flutningsmáta við Konunglega tónlistarháskólann í Toronto.

Mélisande Corriveau

Mélisande Corriveau

Mélisande Corriveau

Kanadíski gömbu- og sellóleikarinn Mélisande Corriveau, hefur sérhæft sig í upprunaflutningi snemmtónlistar. Hún kemur oft fram á virtum tónlistarhátíðum í Norður-Ameríku og Evrópu og leikur reglulega með fjölda þekktra sveita, m.a. Les Voix humaines, Sonate 1704 og Les Boréades de Montréal. Sem einleikari hefur hún komið fram með Les Violons du Roy, National Art Center hljómsveitinni, Sinfóníuhljómsveitinni í Montréal, Tafelmusik-barokksveitinni, Opera Atelier og St-Luke hljómsveitinni. Á síðasta ári var henni einnig boðið að leika með Jordi Savall og Ensemble Hespèrion XXI á tónleikaferðalagi.

Leik hennar má heyra á 50 hljómdiskum frá útgáfufyrirtækjum á borð við ATMA Classique, Analekta, Harmonia Mundi, Paradizo, Zig-Zag Territoires og Alpha. Tveir nýlegir diskar hennar með semballeikaranum Eric Milnes hlutu Opus-verðlaun sem geisladiskar ársins.

Árið 2014 lauk Mélisande Corriveau með láði doktorsprófi í leik á pardessus de viole, minnsta meðlim gömbufjölskyldunnar, við Université de Montréal. Hún er einn af fáum sérfræðingum heims á þessu hljóðfæri.

 Sjá kynningarblað hér.