Eyþór Ingi Jónsson leikur á sjöundu tónleikum ORGELSUMARS 2020 fimmtudaginn 6. ágúst kl. 12.30

Tómas Guðni Eggertsson
Tómas Guðni Eggertsson leikur á sjöttu tónleikum ORGELSUMARS 2020 fimmtudaginn 30. júlí kl. 12.30
27/07/2020
Eyþór Franzson Wechner
Eyþór Franzson Wechner leikur á áttundu tónleikum ORGELSUMARS 2020 fimmtudaginn 13. ágúst kl. 12.30
06/08/2020

Eyþór Ingi Jónsson leikur á sjöundu tónleikum ORGELSUMARS 2020 fimmtudaginn 6. ágúst kl. 12.30

Orgel

Listvinafélag Hallgrímskirkju stendur fyrir hádegistónleikum með íslenskum organistum alla fimmtudaga í sumar frá 25. júní – 20. ágúst undir heitinu ORGELSUMAR Í HALLGRÍMSKIRKJU 2020.
Á tónleikum sumarsins gefst áheyrendum kostur á að heyra 9 íslenska organista, sem starfa við kirkjur víða um land, leika listir sínar í Hallgrímskirkju.

Á sjöundu tónleikum Orgelsumarsins fimmtudaginn 6. ágúst kl. 12.30 leikur Eyþór Ingi Jónsson organisti við Akureyrarkirkju fjögur verk, Passacaglia BuxWV 161 eftir Dieterich Buxtehude, Ionizations eftir Magnús Blöndal, Adagio úr Orgelsónötu eftir Gísli Jóhann Grétarsson og Passacaglia BWV 582 eftir Johann Sebastian Bach.

Eyþór Ingi Jónsson lauk kantorsprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar árið 1998, undir leiðsögn Harðar Áskelssonar, Fríðu Lárusdóttur o.fl. Á árunum 1999-2007 nam hann við Tónlistarháskólann í Piteå í Svíþjóð, fyrst við kirkjutónlistardeild og síðar við konsertorganistadeild. Aðal orgelkennari hans var prof. Hans-Ola Ericsson. Kórstjórnarprófessorinn var Erik Westberg. Hann hefur sótt meistarakúrsa og einkatíma hjá mörgum af þekktustu orgelleikurum og kórstjórum samtímans. Eyþór kennir orgelspuna, orgelleik, kórstjórn og orgelfræði við Tónskóla Þjóðkirkjunnar og Listaháskóla Íslands. Hann heldur líka reglulega námskeið og fyrirlestra. Hann hefur haldið hátt í 100 einleikstónleika hérlendis og erlendis. Einnig hefur hann leikið með fjölda innlendra og erlendra tónlistarmanna, bæði á tónleikum og í upptökum. Eyþór hefur bæði leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Verkefnahljómsveit Michael Jón Cllarke sem og stjórnað báðum hljómsveitunum. Hann stjórnaði líka Barokksveit Hólastiftis á meðan hún starfaði Eyþór starfar nú sem organisti við Akureyrarkirkju og stjórnandi kammerkórsins Hymnodia. Eyþór hefur einbeitt sér annars vegar að flutningi tónlistar frá 17. öld og hinsvegar nútímatónlistar og spuna, bæði fyrir orgel og kór. Undanfarið hefur hann einbeitt sér að flutningi þjóðlagatónlistar með ýmsum flytjendum, mest með eiginkonu sinni, Elvý G. Hreinsdóttur. Eyþór hefur pantað og/eða frumflutt tugi tónverka eftir íslensk og erlend tónskáld. Hann er einn af forkólfum Barokksmiðju Hólastiftis.
Eyþór var bæjarlistamaður Akureyrar 2011-2012.

Aðgangseyrir er 1500 krónur fyrir fullorðna, ókeypis fyrir félaga í Listvinafélaginu og börn yngri en 16 ára. Miðasala er við innganginn.

Athugið að vegna hertra sóttvarnarreglna verða einungis 100 miðar í boði og biðlað er til gesta að virða 2 metra regluna. Sökum strærðar Hallgrímskirkju verður hægt að tryggja 2 metra á milli sæta í kirkjunni.