Tónverkið Tímaeining í Ásmundarsal 27. júní 2019 kl. 20:30 í tengslum við sýningu Finnboga Péturssonar YFIR OG ÚT

Mattias Wager organist at Stockholm Cathedral, Sweden
29. og 30. júní, Mattias Wager organisti dómkirkjunnar í Stokkhólmi
25/06/2019
Guðmundur Sigurðsson - Organisti
Fimmtudagstónleikar Alþjóðlegs orgelsumars í Hallgrímskirkju, 4. júlí kl. 12.00
01/07/2019
Sýna allt

Tónverkið Tímaeining í Ásmundarsal 27. júní 2019 kl. 20:30 í tengslum við sýningu Finnboga Péturssonar YFIR OG ÚT

Finnbogi Pétursson

Tónverkið TÍMAEININGHalldór Eldjárn

Ásmundarsal 27. júní kl. 20:30

Frumflutningur

Tónverkið Tímaeining í Ásmundarsal 27. júní kl. 20:30.

Tónverkið Tímaeining eftir Halldór Eldjárn verður flutt í Ásmundarsal 27. júní kl. 20:30. Þetta er klukkustundarlangt ferðalag um tilviljanakennd og óskilgreind rými; unnið er með innri og ytri tíma tónlistarinnar í innra og ytra rými tónleikastaðarins. Halldór hyggst prófa nýja tegund af nótnaskrift; hljóðfæraleikararnir lesa nóturnar af sérútbúnum klukkum þar sem mínútuvísirinn trekkir verkið áfram, en það tekur nákvæmlega 60 mínútur í flutningi. Finnbogi Pétursson hefur skapað umgjörð fyrir tónverkið með sýningunni YFIR OG ÚT sem nú stendur yfir í Hallgrímskirkju og Ásmundarsal. ( sjá nánar hér. )  Tónverkið Tímaeining er flutt í Ásmundarsal, meðal annars með hljóðstreymi úr Hallgrímskirkju þaðan sem hljóði er varpað í rauntíma yfir í Ásmundarsal í gegnum átta hljóðnema og átta hátalara. Í Ásmundarsal verða nokkrir hljóðfæraleikarar, bæði með akústísk og rafstýrð hljóðfæri. Þá mun Klais-orgel Hallgrímskirkju einnig koma við sögu en því verður stýrt með þráðlausu hljómborði yfir götuna í verkið. Þótt tíminn sé óræður og staðsetningar óljósar er samt tími og staður á flutningum sjálfum fastákvarðaður, en leikar hefjast stundvíslega klukkan 20:30 þann 27. júní í Ásmundarsal. 

Hljóðfæraleikarar
Halldór Eldjárn, slagverk og Klais-orgel
Guðmundur Vignir Karlsson, rafhljóð og Klais-orgel
Svanhildur Lóa Bergsveinsdóttir, víbrafónn og slagverk

Viðburðurinn er á vegum Listvinafélags Hallgrímskirkju í samvinnu við Ásmundarsal. Aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir. Húsið opnar kl. 20:00.

Facebook viðburður hér.

Tónleikarnir eru haldnir í tengslum við sýningu Finnbogar Péturssonar YFIR OG ÚT sem stendur yfir í Hallgrímskirkju og Ásmundarsal til 30. júní 2019 og verður svo áfram í forkirkju Hallgrímskirkju til 1. september 2019.

Sýningin YFIR OG ÚT er á vegum Listvinafélags Hallgrímskirkju í samvinnu við Ásmundarsal og er hluti af Kirkjulistahátíð 2019. Verkin, sem Finnbogi hefur gert sérstaklega fyrir þessa sýningu, eru annars vegar átta hljóðnemar á hringlaga stálkrónu í 6 m hæð í miðju kirkjuskipinu og hins vegar átta hátalarar sem staðsettir eru í hring í Ásmundarsal. Finnbogi flytur hljóð og rými hins gríðarmikla kirkjuskips Hallgrímskirkju yfir í tiltölulega lítið rými Ásmundarsalar. Allt sem fram fer í kirkjunni heyrist líka í Ásmundarsal. Þessi sýning stendur til 30. júní 2019 og er opin alla daga kl. 9 – 17. Hins vegar er Finnbogi með lágstemmda hljóðinnsetningu þar sem fjórum álplötum með mismunandi litum kirkjuársins er raðað á veggi forkirkjunnar í Hallgrímskirkju, og stendur sýning til 1. september 2019. 

Eins og Guja Dögg Hauksdóttir segir í texta í sýningarskrá: „Á sýningu Kirkjulistarhátíðar í ár er sótt aftur í aldir. Aftur til þess tíma þegar sjónskyn var ekki enn komið í hásæti virðingar, aftur til þess tíma þegar önnur skynfæri eins og heyrn eða snerting voru enn grunnurinn í skynjun okkar og skilningi á heiminum. Aftur til þess tíma sem samskipti manna byggðust á samtali og líkamlegri hlustun, frekar en skrifuðum texta. Til þess tíma sem þrívítt, efniskennt rými rammaði inn snertingu okkar við heiminn. En hér er líka snert á galdri vísinda og hreyfikrafti hreinnar geómetríu í miskunnarlausu aðdráttarafli sjónrænnar ögunar.“ 

Finnbogi Pétursson, fæddur í Reykjavík 1959, hélt fyrstu sýningu sína árið 1980 og er einn af fremstu myndlistarmönnum á Íslandi. Hann er þekktur fyrir verk þar sem saman koma hljóð, ljós, skúlptúr, arkitektúr og teikningar. Þar gegnir hljóð iðulega mikilvægu hlutverki og rennur saman við innsetningar og rýmisverk. Finnbogi kom fram á Feneyjatvíæringnum fyrir Íslands hönd árið 2001 með hinni tröllauknu hljóðinnsetningu sinni Diabolus. Meðal listasafna sem hýsa verk Finnboga nefna TB A21 í Vínarborg, Michael Krichman og Carmen Cuencasafnið í Bandaríkjunum, Listasafnið í Malmö, Nordiska Akvarellsafnið í Svíþjóð og Listasafn Íslands. Verk hans er einnig finna í höfuðstöðvum Landsvirkjunar, í Vatnsfellsvirkjun, Háskólanum í Reykjavík, á sjúkrahóteli Landspítalans (klæðningin) og í höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur. Finnbogi býr og starfar í Reykjavík.

LISTVINAFÉLAG HALLGRÍMSKIRKJU listvinafelag.is

ÁSMUNDARSALUR asmundarsalur.is