Þorkels Sigurbjörnssonar tónskálds minnst

400 ára afmæli Hallgríms Péturssonar – Dagskráin í heild sinni
23/10/2014
Sýna allt

Þorkels Sigurbjörnssonar tónskálds minnst

Þorkels Sigurbjörnssonar tónskálds minnst í Hallgrímskirkju sunnudaginn 2. febrúar 2014 – í messu kl. 11

Kammerkórinn Schola cantorum og Listvinafélag Hallgrímskirkju minnast Þorkels Sigurbjörnssonar með tónleikum í Hallgrímskirkju sunnudaginn 2. febrúar 2014 klukkan 15.00, þegar ár er liðið frá því að hann lést.
Kórinn flytur úrval af kirkjulegum kórverkum Þorkels, Hörður Áskelsson kantor Hallgrímskirkju leikur orgelverkið Snertur á stóra Klaisorgel kirkjunnar, auk þess sem Schola cantorum frumflytur kórverkið Nunc dimittis eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson, en það tileinkar Hreiðar minningu Þorkels sem var einn af hans kennurum í tónsmíðum.

Þorkell Sigurbjörnsson lést 30. janúar 2013. Hann skildi eftir sig mikið af góðri kirkjutónlist. Sálmalög hans og kirkjuleg kórverk skipa háan sess í kirkjutónlistarsögu Íslands. Lag hans við sálm Kolbeins Tumasonar, Heyr himna smiður, er meistaraverk sem nýtur hylli langt út fyrir landhelgi Íslands.

Á tónleikum Schola cantorum flytur kórinn sálmalög og mótettur, sem gefa góða mynd af  kirkjutónlist Þorkels. Orgelverkið Snertur skrifaði Þorkell fyrir Hörð til flutnings við vígslu Klaisorgels Hallgrímskirkju árið 1992. Kórverk Hreiðars Inga Þorsteinssonar Nunc dimittis er tónsetning á Lofsöng Símeons, sem byrjar á orðunum: „Nú lætur þú Drottinn, þjón þinn í friði fara“, Hreiðar, sem er meðlimur Schola cantorum, valdi þennan texta til að kveðja sinn kæra kennara. Stjórnandi tónleikanna er Hörður Áskelsson.

Þess skal getið að við guðsþjónustu í Hallgrímskirkju klukkan 11 þann sama dag verða margir sálmar og orgeltónlist Þorkels flutt af Mótettukór Hallgrímskirkju og Herði Áskelssyni.