Afmælisár Listvinafélagsins hófst með miklum glæsibrag með flutningi Jólaóratóríunnar í Hörpu á 1. sunnudegi í aðventu 28. nóv. sl.
Það var Mótettukórnum, RIBO- Alþjóðlegu barokksveitinni í Reykjavík, Herði Áskelssyni stjórnanda og einsöngvurunum Alex Potter kontratenór, Benjamin Glaubitz tenór, Herdísi Önnu Jónasdóttur sópran og Jóhanni Kristinssyni bassa ómetanlegt að fá að flytja dásamlega tónlist J.S. Bach fyrir þéttsetnum Eldborgarsal Hörpu og upplifa innilegt þakklæti tónleikagesta með löngu standandi lófataki.
Allir aðstandendur þessa stóra verkefnis eru mjög þakklátir fyrir mikilvægan stuðning og að það skyldi takast að halda þessa hátíðartónleika á þessum erfiðu tímum, en alls komu 90 flytjendur fram á tónleikunum, þar af 22 hljóðfæraleikarar og 3 einsöngvarar, sem komu erlendis frá.
Ríkisútvarpið hljóðritaði tónleikana og verður flutningur Jólaóratóríunnar í Hörpu á hátíðardagskrá Rásar 1 á Jóladag kl. 18.10 og er ánægjulegt að EBU-Samtök evrópskra útvarpsstöðva- hafi valið að taka Jólaóratóríuna inn á sína dagskrá, svo Jólaóratórían á vegum Listvinafélagsins og Mótettukórsins mun vonandi hljóma víða um Evrópu á þessu og næsta ári.
Meðfylgjandi myndir tók Kristín Bogadóttir ljósmyndari á tónleikunum og fleiri myndir frá Jólaóratóríutónleikunum má sjá í myndasafni hér á heimasíðunni. (Myndir væntanlegar)