Síðustu hádegistónleikar Schola Cantorum í sumar – Miðvikudaginn 30. ágúst 2017 kl. 12.00-12.30

Christine Ödlund og Fredrik Söderberg, Alpha & Omega
ALPHA & OMEGA OPNUN SÝNINGAR Í HALLGRÍMSKIRKJU FÖSTUDAGINN 25. ÁGÚST KL. 18
24/08/2017
Hallgrímskirkja
“LÚTHERSDAGAR Í HALLGRÍMSKIRKJU“ – 26.-31. október 2017
21/10/2017

Síðustu hádegistónleikar Schola Cantorum í sumar – Miðvikudaginn 30. ágúst 2017 kl. 12.00-12.30

Schola Cantorum

Kammerkórinn Schola cantorum hefur haldið vikulega hádegistónleika í Hallgrímskirkju á miðvikudögum í sumar við frábærar undirtektir tónleikagesta. Miðvikudaginn 30. ágúst er komið að elleftu og síðustu tónleikum kórsins í sumar og flytur kórinn fagrar, íslenskar kórperlur í bland við uppáhaldsverk af verkefnaskrá kórsins, eins og t.d. hið hrífandi Lux Aeterna: „O Nata Lux“ eftir Morten Lauridsen af geislaplötu sinni Meditatio, sem hlotið hefur frábærar viðtökur um allan heim.

Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir syngur einsöng í „Ave María“ eftir Sigvalda Kaldalóns við undirleik Harðar á Klais- orgelið og einnig flytur kórinn „Vökuró“ eftir Jórunni Viðar í nýrri útsetningu eftir Hafstein Þórólfsson og syngur Guðmundur Vignir Karlsson tenór einsönginn þar. Stjórnandi Schola cantorum er Hörður Áskelsson.

Að tónleikunum loknum fögnum við vel heppnuðu tónleikasumri og er öllum tónleikagestunum boðið upp á kaffi og létta hressingu í suðursal Hallgrímskirkju, en kaffispjallið eftir tónleikana í sumar hefur verið afar vinsælt.

Miðaverð: 2.500 kr.
Miðar fást í Hallgrímskirkju 1 klst fyrir tónleika og á midi.is

LISTVINIR FÁ 50% AFSLÁTT AF MIÐAVERÐI VIÐ INNGANGINN

Kammerkórinn Schola cantorum undir stjórn Harðar Áskelssonar hefur átt mikilli velgengni að fagna á árinu og hefur kórinn hlotið hástemmt lof fyrir flutning sinn bæði á tónleikum hér heima og erlendis og fyrir nýju geislaplötuna sína Meditatio. Einnig var kórinn útnefndur „Tónlistarflytjandi ársins í flokki sígildrar og samtímatónlistar“ á Íslensku tónlistarverðlaununum í mars sl.

Í apríl sl. kom kórinn fram á listahátíðinni Reykjavik Festival í Los Angeles sem fór fram í Walt Disney Concert Hall.
Umfjöllun erlendra blaðamanna um framgöngu Schola Cantorum á hátíðinni var mjög góð og í Wall Street Journal segir m.a.: ,,sung by the festival’s great find, the Schola cantorum Reykjavík,… proved warm and precise every time they performed (five programs total) “ Í maí kom hópurinn svo fram á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og söng tveggja kóra Bach mótettu á sérstakri tónleikaröð þar sem markmiðið er meðal annars að skapa nánd við áhorfendur. Einnig söng Schola cantorum á upphafstónleikum Reykholtshátíðar í lok júlí sl.ásamt kammersveit, þ.s. hann söng verk eftir J.S. Bach og Arvo Pärt undir stjórn Harðar Áskelssonar.

Hörður Áskelsson, organisti og kantor í Hallgrímskirkju hefur stjórnað hópnum frá stofnun hans eða í rúm 20 ár.

Frá fyrstu tíð hefur verið lögð áhersla á valinn mann í hverju rúmi og unnið ötullega að því að mynda áhrifaríkan samhljóm í gegnum sönginn sem oftast fer fram án undirleiks. Verkefnin hafa verið mjög fjölbreytt í gegnum tíðina og kórinn hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir fyrir flutning sinn, nú síðast Íslensku tónlistarverðlaunin sem Tónlistarflytjandi ársins 2016.

Kammerkórinn Schola cantorum hefur frá upphafi hlotið mikla athygli fyrir fágaðan og tæran söng sinn. Kórinn var valinn “Tónlistarflytjandi ársins 2016” á Íslensku tónlistarverðlaununum í mars sl. og hefur unnið til verðlauna í erlendum keppnum og komið fram á tónleikum í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Ítalíu, Spáni, Þýskalandi, Frakklandi, Japan, Sviss og Bandaríkjunum. Schola cantorum var útnefndur Tónlistarhópur Reykjavíkurborgar 2006, tilnefndur til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2007 og Íslensku tónlistarverðlaunanna 2013.

Kórinn hefur frá upphafi leikið mikilvægt hlutverk í íslensku tónlistarlífi og frumflutt verk eftir fjölda íslenskra tónskálda auk þess að flytja tónlist allra stíltímabila með og án hljóðfæraundirleiks, m.a. í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Alþjóðlegu barokksveitina í Hallgrímskirkju (áður Den Haag), Björk, Sigurrós o.fl. Kórinn hélt veglega upp á 20 ára afmæli sitt á sl. ári með fjölbreyttum tónleikum, þ.s. kórinn frumflutti m.a. Requiem eftir Sigurð Sævarsson og flutti Jólaóratóríu J.S. Bach með Alþjóðlegu barokksveitinni í des. sl., og kom einnig fram á 5 tónleikum á tónlistarhátíðinni Reykjavík Festival í Walt Disney Hall í Los Angeles í apríl sl., þ.s. söngur kórsins hlaut einróma lof í allri umfjöllun stórblaða svo sem New York Times, LA Times o.fl. Stjórnandi kórsins frá upphafi er Hörður Áskelsson.  Á tónleikum sumarsins flytur Schola cantorum m.a. þekktar íslenskar kórperlur í bland við verk af nýjasta geisladiskinum, MEDITATIO, sem kom út hjá hinu virta sænska útgáfufyrirtæki BIS á síðasta ári og hefur hlotið afburða dóma í fagtímaritum um allan heim.