Það er fjörug vika framundan á Alþjóðlega orgelsumrinu að vanda þar sem við sögu koma bæði óbó, hanagal og heimsþekktur organisti frá Bandaríkjunum.
Schola cantorum, hinn hljómtæri kammerkór Hallgrímskirkju, heldur áfram með vikulega miðvikudagstónleika í hádeginu kl. 12 og flytur íslensk kórverk og þjóðlög. Á dagskránni eru meðal annars Heyr himna smiður, Smávinir fagrir og Undir bláum sólarsali, en hanagalið í því lagi vekur alltaf jafn mikla furðu og kátínu tónleikagesta. Boðið er upp á kaffi og mola eftir tónleikana og gefst þá tækifæri til að spjalla við söngvarana og skoða glænýjan hljómdisk þeirra, Meditatio, sem kemur formlega út í næsta mánuði. 2500 krónur kostar inn á tónleikana og fást miðar við innganginn klukkustundu fyrir tónleika.
Bjartir óbótónar munu fléttast saman við hinar mörgu raddir Klais-orgelsins í Hallgrímskirkju á fimmtudaginn komandi klukkan tólf. Tveir framúrskarandi hljóðfæraleikarar Sinfóníuhljómsveitarinnar í Pittsburgh í Bandaríkjunum halda þá tónleika á Alþjóðlegu orgelsumri í Hallgrímskirkju. Það er Scott Bell sem blæs í óbóið og Larry Allen sem fer fimum fingrum (og fótum) um orgelið. Munu þeir leika verk eftir Bach, Haydn og Rheinberger á þessum hálftímalöngu tónleikum. Aðgangseyrir er 2000 krónur og verða miðar seldir við innganginn frá klukkan ellefu sama dag.
Klais-orgel Hallgrímskirkju, með sínar 72 raddir, er hljóðfæri á heimsmælikvarða og laðar til sín flinkustu orgelleikara veraldarinnar. Og sumir þeirra heillast svo af hljóðheimi orgelsins og kirkjunnar að þeir koma aftur og aftur. Einn þeirra er hinn virti Douglas Cleveland frá Bandaríkjunum. Douglas kemur nú til þriðja fundar við Klais-orgelið og leikur tvenna tónleika á Alþjóðlegu orgelsumri um næstkomandi helgi. Douglas mun á tónleikunum leika spennandi blöndu af gamalli og nýrri orgeltónlist sem spannar allt frá Bach og Marchand til bandarískra samtímatónskálda. Tónleikarnir eru laugardaginn 30. júlí kl. 12 (aðgangseyrir 2000 kr) og sunnudaginn 31. júlí kl. 17 (aðgangseyrir 2500 kr). Miðasala fer fram við innganginn klukkustundu fyrir tónleika og á midi.is.