Ó, HELGA NÓTT – JÓLIN MEÐ MÓTETTUKÓRNUM Í FRÍKIRKJUNNI Í REYKJAVÍK SUNNUDAGINN 19. DESEMBER KL. 17

Mótettukórinn og Alþjóðlega barokksveitin í Reykjavík
Standandi lófatak og mögnuð stemmning á Jólaóratóríunni í Hörpu við upphaf 40. starfsárs Listvinafélagsins
15/12/2021
Herdís Anna Jónasdóttir
HERDÍS ANNA JÓNASDÓTTIR SYNGUR Í STAÐ ÞÓRGUNNAR ÖNNU ÖRNÓLFSDÓTTUR Á JÓLATÓNLEIKUM MÓTETTUKÓRSINS NK. SUNNUDAG KL. 17
17/12/2021
Sýna allt

Ó, HELGA NÓTT – JÓLIN MEÐ MÓTETTUKÓRNUM Í FRÍKIRKJUNNI Í REYKJAVÍK SUNNUDAGINN 19. DESEMBER KL. 17

Ó, HELGA NÓTT - JÓLIN MEÐ MÓTETTUKÓRNUM Í FRÍKIRKJUNNI Í REYKJAVÍK SUNNUDAGINN 19. DESEMBER KL. 17

Jólatónleikar Mótettukórsins hafa verið fastur og hátíðlegur liður á aðventunni í tæplega 40 ár og verða tónleikarnir að þessu sinni haldnir í Fríkirkjunni í Reykjavík sunnudaginn 19. desember kl. 17. Á efnisskránni verða uppáhaldsjólalög kórsins frá ýmsum tímum, meðal annars Betlehemsstjarnan eftir Áskel Jónsson, María fer um fjallaveg eftir Eccard, Guðs kristni í heimi, Hin fegursta rósin er fundin, Wexford Carol, Einu sinni í ættborg Davíðs, Jólagjöfin eftir Hörð Áskelsson, O magnum mysterium eftir Lauridsen og Ó, helga nótt eftir Adams.

Einsöngvari er Þórgunnur Anna Örnólfsdóttir mezzósópran, sem syngur m.a. aríu úr Messíasi og einsöng í Ó, helga nótt.

Þórgunnur Anna hefur vakið mikla athygli fyrir söng sinn undanfarið en hún útskrifaðist með láði frá Konunglega tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn í sumar og er fyrrverandi kórfélagi í Mótettukórnum.
Orgelleikari er Lára Bryndís Eggertsdóttir og stjórnandi Hörður Áskelsson.

Mótettukórinn mun að vanda leggja mikið í jólalega umgjörð tónleikanna og lofa má hrífandi fallegri jólastemningu í Fríkirkjunni við Tjörnina í Reykjavík. Miðasala er á TIX.IS og eru tónleikagestir vinsamlega beðnir að framvísa neikvæðu hraðprófi við innganginn og bera grímur á tónleikunum.

Þórgunnur Arna Örnólfsdóttir

Þórgunnur Arna Örnólfsdóttir

Þórgunnur Arna Örnólfsdóttir lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Þórunnar Guðmundsdóttur og Sigrúnar Hjálmtýsdóttur. Hún lauk bæði bakkalár- og meistaragráðu frá Konunglega danska tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn, en þar stundar hún nú framhaldsnám við sólistadeild undir handleiðslu Helene Gjerris. Þórgunnur er einnig með BA-próf í íslensku og mannfræði frá Háskóla Íslands. Þórgunnur syngur allt frá barokki til nútímatónlistar, en hefur undanfarin ár verið að skapa sér sérstöðu á vettvangi klassískrar tónlistar við frumflutning nýrra verka, bæði sem sólisti og sem meðlimur tónlistarhópsins KIMI ensemble (kimi-ensemble.com).

Eitt fyrsta einsöngsverkefni hennar var hlutverk engilsins í frumflutningi Mótettukórsins á óratóríunni Cecilíu eftir Áskel Másson, en Þórgunnur söng í kórnum í sjö ár. Síðan þá hefur hún frumflutt fjölda verka eftir íslensk og erlend tónskáld, þar með talið óperurnar Titanic (2019) eftir Matias Vestergård Hansen, Music and the Brain (2020) eftir Helga Rafn Ingvarsson og Lamentations (2021) eftir Nick Martin. Í mars á næsta ári frumflytur hún kammeróperuna Circle eftir Finn Karlsson, sem hann samdi fyrir hana og kvartettinn NJYD. Þórgunnur syngur einnig í sígildum verkum, þó oftar en ekki í nýstárlegu samhengi.

Má þar nefna framsækna óperuuppfærslu listahópsins Venteværelset á Dídó og Eneasi eftir Purcell og tilraunakennda sviðsetningu Neugeboren Opera á Messíasi eftir Händel. Þórgunnur er búsett í Kaupmannahöfn en verður með annan fótinn á Íslandi í vetur; hún kemur fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands 13. janúar á tónleikunum Ungir einleikarar og fer sömuleiðis með hlutverk í óperu Þórunnar Guðmundsdóttur, Mærþöll, sem flutt verður í lok janúar.

Lára Bryndís Eggertsdóttir

Lára Bryndís Eggertsdóttir

Lára Bryndís Eggertsdóttir byrjaði ung að læra á píanó og 14 ára gömul tók hún fyrstu skrefin sem afleysingaorganisti í Langholtskirkju. Hún lauk einleikaraprófi frá Tónskóla þjóðkirkjunnar með hæstu einkunn vorið 2002 undir handleiðslu Harðar Áskelssonar. Lára Bryndís flutti árið 2018 aftur heim til Íslands eftir tíu ára búsetu í Danmörku þar sem hún lauk meistaraprófi í kirkjutónlist frá Tónlistarháskólanum í Árósum vorið 2014.

Aðalkennarar hennar þar voru Ulrik Spang-Hanssen og Lars Colding Wolf. Einnig starfaði hún sem organisti við Sønderbro-kirkju í Horsens og sem semballeikari hjá barokksveitinni BaroqueAros í Árósum. Fyrst eftir heimkomuna var Lára Bryndís organisti Hjallakirkju í Kópavogi, en starfar nú tímabundið við Neskirkju í Reykjavík uns hún tekur við stöðu organista og kórstjóra í Grafarvogskirkju á næsta ári. Meðfram organistastörfum kennir Lára Bryndís orgelleik við Tónskóla þjóðkirkjunnar. Hún hefur haldið fjölmarga einleikstónleika á orgel, bæði hérlendis og á Norðurlöndum.

Árið 2014 stóð hún fyrir tónlistarverkefninu Ég heyrði þytinn frá vængjum þeirra þar sem sjö íslensk tónskáld sömdu orgelverk að beiðni Láru Bryndísar sem gefin voru út á samnefndum geisladiski.

Hörður Áskelsson

Hörður Áskelsson

Hörður Áskelsson er stofnandi og stjórnandi Mótettukórsins og Schola Cantorum. Hann var organisti og kantor Hallgrímskirkju frá vorinu 1982, þegar hann flutti heim að loknu framhaldsnámi og störfum sem kantor við Neanderkirkjuna í Düsseldorf í Þýskalandi fram til ársins 2021, en er sjálfstætt starfandi tónlistarmaður síðan. Hörður gegndi lykilhlutverki í uppbyggingu listalífs kirkjunnar og stóð meðal annars að stofnun Listvinafélags Hallgrímskirkju — nú Listvinafélagsins í Reykjavík —, Kirkjulistahátíðar og Alþjóðlegs orgelsumars.

Árið 1982 stofnaði hann Mótettukórinn og kammerkórinn Schola Cantorum árið 1996. Með kórunum hefur hann flutt margar helstu perlur kórtónbókmenntanna bæði með og án undirleiks. Söng kóranna má heyra á mörgum hljómdiskum. Hörður hefur stjórnað frumflutningi margra verka fyrir kór og hljómsveit sem íslensk tónskáld hafa skrifað fyrir hann og kórana hans. Má þar nefna tónskáldin Þorkel Sigurbjörnsson, John Speight, Sigurð Sævarsson, Hafliða Hallgrímsson, Áskel Másson og Hauk Tómasson.

Hörður hefur stýrt fyrsta flutningi á Íslandi á nokkrum stórum óratóríum og kórverkum, einkanlega frá barokktímanum, og má þar nefna Sál, Jósúa, Ísrael í Egyptalandi og Salómon eftir Händel, Requiem eftir Campra og Pál postula eftir Mendelssohn. Hörður hefur æft báða kóra sína fyrir flutning fjölmargra verka með Sinfóníuhljómsveit Íslands, bæði í Háskólabíói og Hörpu. Þungamiðja í þeirri vinnu hefur verið flutningur og upptökur á nær öllum verkum Jóns Leifs fyrir kór og hljómsveit, sem gefin hafa verið út á mörgum hljómdiskum hjá útgáfufyrirtækinu BIS í Svíþjóð. Á meðal helstu verka þeirrar útgáfu eru Edda I, Edda II (sem kom út 2019), Íslandskantata, Baldur og Hafís.

Sem organisti hefur Hörður átt farsælan feril, haldið orgeltónleika víða, frumflutt tónverk margra íslenskra tónskálda og leikið inn á hljómdiska, bæði sem einleikari og meðleikari. Hörður hefur kennt orgelleik og kórstjórn við Tónskóla þjóðkirkjunnar og á árunum 1985–1995 var hann lektor í litúrgískum söngfræðum við guðfræðideild Háskóla Íslands. Hörður gegndi embætti söngmálastjóra þjóðkirkjunnar árin 2005–2011. Hann hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir framlag sitt til tónlistarlífs á Íslandi, þar á meðal Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2001, riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 2004 og Íslensku bjartsýnisverðlaunin árið 2006.

Þá var hann útnefndur borgarlistamaður Reykjavíkur árið 2002. Árið 2022 mun Hörður stjórna frumflutningi á nýrri óratóríu eftir Huga Guðmundsson, The Gospel of Mary, á listahátíðum í Ósló, Kaupmannahöfn og Reykjavík. Þá mun hann stjórna flutningi á Maríuvesper eftir Monteverdi, Vespro della Beata Vergine, þar sem fram koma Schola Cantorum, Alþjóðlega barokksveitin í Reykjavík og norrænn blásarahópur.

Mótettukórinn var stofnaður árið 1982 og hefur lengi verið meðal fremstu kóra á Íslandi. Hann var til heimilis í Hallgrímskirkju frá stofnun og fram til vorsins 2021. Verkefnalisti kórsins er langur og fjölskrúðugur og má þar finna fjölmargar óratóríur, passíur og sálumessur en einnig kórverk án undirleiks frá ýmsum tímum, auk þess sem kórinn hefur frumflutt fjölda íslenskra tónverka. Kórinn hefur haldið tónleika erlendis og tekið þátt í kórakeppnum, síðast í Lettlandi haustið 2018.

Árið 2014 var Mótettukórinn útnefndur besti kórinn í keppninni Cançó Mediterrània á Spáni. Hljómplötur með söng kórsins hafa hlotið góðar viðtökur heima og erlendis, einkanlega plötur með verkum eftir Duruflé og Hafliða Hallgrímsson. Jólaplötur Mótettukórsins hafa notið mikilla vinsælda enda eru jólatónleikar kórsins ómissandi þáttur í tónlistarlífi Reykjavíkur á aðventunni. Meðal stærri verkefna undanfarin ár má geta flutnings kórsins á óratóríunni Salómon eftir Händel á Kirkjulistahátíð árið 2015, en fyrir flutninginn var kórinn tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna.

Árið 2016 flutti kórinn Te Deum eftir Charpentier og Messu í F-dúr eftir Bach á þrjátíu ára vígsluafmæli Hallgrímskirkju. Kórinn hefur reglulega komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands, til að mynda á Listahátíð árið 2018 í Sinfóníu nr. 2 eftir Mahler. Þá flutti kórinn H-moll-messu Bachs á 35 ára afmæli kórsins með Alþjóðlegu barokksveitinni árið 2017. Á Kirkjulistahátíð 2019 frumflutti kórinn óratóríuna Mysterium eftir Hafliða Hallgrímsson sem sagt var „sérlega tilkomumikið“ verk í blaðagagnrýni.

Kórinn kom fram á tónleikunum Klassíkin okkar með Sinfóníuhljómsveit Íslands haustið 2020, flutti tónlist eftir Bach og Schütz á vortónleikum sínum 2021 og söng í 9. sinfóníu Beethovens með SÍ nú í haust. Við upphaf aðventu í ár flutti kórinn Jólaóratóríu Johanns Sebastians Bachs í Hörpu með Alþjóðlegu barokksveitinni.

Þá eru fjörutíu ára afmælistónleikar kórsins fyrirhugaðir í Hörpu í maí árið 2022.

Ó, HELGA NÓTT - JÓLIN MEÐ MÓTETTUKÓRNUM Í FRÍKIRKJUNNI Í REYKJAVÍK SUNNUDAGINN 19. DESEMBER KL. 17