Nordal í níutíu ár – Listaháskólinn og Listvinafélagið heiðra Jón Nordal í tilefni níræðisafmælis hans

Skemmtilegar myndir frá Pétri og úlfinum
13/04/2016
Fólk og fiskar, orgel og unaðslegur söngur um hvítasunnuna
11/05/2016
Sýna allt

Nordal í níutíu ár – Listaháskólinn og Listvinafélagið heiðra Jón Nordal í tilefni níræðisafmælis hans

Jón Nordal, tónskáldið sem fært hefur Íslendingum íðilfögur og hjartnæm sönglög á borð við Smávinir fagrir og Hvert örstutt spor ásamt fjölda magnaðra hljómsveitar- og kórverka, varð níræður í mars síðastliðnum. Af því tilefni helga Listaháskólinn og Listvinafélag Hallgrímskirkju Jóni næstu samstarfstónleika sína.Nordal

Þessir hátíðartónleikar verða sannarlega glæsilegir, en á þeim verða flutt bæði orgelverk, kammerverk, hljómsveitarverk og kórverk eftir Jón, þar á meðal Toccata fyrir orgel sem Steinar Logi Helgason leikur, en Steinar stjórnar einnig Kammerkór Listaháskóla Íslands í flutningi á verkinu Lux mundi. Auk þess verða flutt kammerverkin Andað á sofinn streng, Ristur og Sónata fyrir fiðlu og píanó.

Stærstu verkin á tónleikunum verða Aldasöngur í flutningi Kórs tónlistardeildar Listaháskólans undir stjórn Sigurðar Halldórssonar og Gríma – Epitafion í flutningi Sinfóníettu Listaháskólans sem Guðni Franzson stjórnar. Á milli 70 og 80 tónlistarmenn taka þátt í tónleikunum alls.

Tónleikaröð þessi er samstarf Listaháskólans og Listvinafélags Hallgrímskirkju og hófst á síðasta ári, en markmiðið með samstarfinu er að kynna nemendur fyrir töfrum Klaisorgelsins og rými kirkjunnar til tónlistarflutnings og á sama tíma veita listvinum kirkjunnar tækifæri til að heyra hvað hæfileikaríkir nemendur tónlistardeildarinnar hafa fram að færa.

Umsjónarmenn tónleikanna eru Peter Maté og Sigurður Halldórsson.

Aðgangur á tónleikana er ókeypis og hefjast þeir kl. 14.00 laugardaginn 30. apríl.