MOZART REQUIEM OG BERNSTEIN CHICHESTER PSALMS – TÓNLEIKAR í ELDBORG HÖRPU 27. ÁGÚST 2023 KL. 17

Mótettukórinn
VORTÓNLEIKAR MÓTETTUKÓRSINS í Fella- og Hólakirkju Uppstigningadag fimmtudaginn 18. maí 2023 kl. 20
15/05/2023
Björtuloftum Hörpu - Harpa
Aðalfundur Listvinafélagsins í Reykjavík verður haldinn þriðjudaginn 12. september 2023 kl. 17 í Björtuloftum Hörpu
29/08/2023
Sýna allt

MOZART REQUIEM OG BERNSTEIN CHICHESTER PSALMS – TÓNLEIKAR í ELDBORG HÖRPU 27. ÁGÚST 2023 KL. 17

Mótettukórinn

TÓNLEIKAR Í ELDBORG HÖRPU SUNNUDAGINN 27. ÁGÚST 2023 KL. 17

EFNISSKRÁ:
WOLFGANG AMADEUS MOZART (1756–1791): REQUIEM K. 626 fyrir fjóra einsöngvara, kór og hljómsveit
LEONARD BERNSTEIN (1918–1990): CHICHESTER PSALMS fyrir drengjasópran, einsöngvara, kór og hljómsveit
FLYTJENDUR:
Álfheiður Erla Guðmundsdóttir sópran
Sigríður Ósk Kristjánsdóttir mezzósópran
Benedikt Kristjánsson tenór
Oddur Arnþór Jónsson bassi
Jóhannes Jökull Zimsen drengjasópran
Mótettukórinn
Kammersveitin ELJA

Stjórnandi: Bjarni Frímann Bjarnason

Mótettukórinn og Listvinafélagið í Reykjavík gangast fyrir glæsilegum tónleikum í Eldborg Hörpu þann 27. ágúst nk. Á efnisskránni eru tvö af öndvegisverkum kórbókmenntanna. Sálumessa Mozarts, eitt vinsælasta og dáðasta tónverk allra tíma, kallast á við hina kyngimögnuðu Chichester-sálma Leonard Bernsteins, sem bjóða upp á mikla sveiflu og kraft. Flytjendur eru í fremstu röð íslenskra tónlistarmanna og lofa má mikilli tónlistarveislu.

Requiem eftir Wolfgang Amadeus Mozart er ein þekktasta sálumessa tónbókmenntanna og eitt af helstu meistaraverkum Mozarts. Verkið er glæsilegt og margslungið að gerð og leyndardómsfull tilurðarsaga þess eykur á dulúðina sem umlykur það. Verkið var samið að beiðni greifa nokkurs sem hugðist kynna sálumessuna sem sitt eigið verk og flytja hana í minningu látinnar eiginkonu sinnar. Fljótlega eftir að Mozart hófst handa við verkið fór hann að gruna að hann væri í raun að skrifa sína eigin sálumessu. Hann lést frá verkinu ókláruðu í desember 1791 og kom það í hlut vinar hans og samstarfsmanns, Franz Xaver Süssmayrs, að fullgera það. Afraksturinn er einstakt tónverk sem lætur engan ósnortinn.

Í Chichester Psalms sótti Leonard Bernstein innblástur í gyðingaarfleifð sína og fléttaði í verkið þáttum úr helgisiðatónlist gyðinga. Textinn samanstendur af nokkrum þekktum Davíðssálmum og sungið er á hebresku. Verkið er skrifað fyrir drengjasópran, einsöngvara, kór og hljómsveit og var pantað fyrir Southern Cathedrals Festival í Englandi árið 1965, sem haldin var í borginni Chichester. Verkið býr yfir miklum andstæðum, allt frá gáska og glaðværð til sjálfsskoðunar og innilegrar íhugunar, og heillar áheyrendur með glæsilegum sönglínum og litríkum hljómsveitarrithætti. Andi West Side Story, söngleiksins fræga eftir Bernstein, er í raun ekki langt undan. Chichester Psalms er eitt af vinsælustu og aðgengilegustu verkum Bernsteins og var til að mynda flutt hátt í 300 sinnum um allan heim árið 2018, þegar 100 ár voru liðin frá fæðingu tónskáldsins.

Um flytjendur:

Mótettukórinn var stofnaður árið 1982 og hefur lengi verið meðal fremstu kóra landsins. Hann var upphaflega stofnaður sem kirkjukór Hallgrímskirkju en hefur frá árinu 2021 starfað á eigin vegum. Hörður Áskelsson hefur verið stjórnandi kórsins allt frá upphafi. Verkefnalisti kórsins er langur og fjölskrúðugur og má þar finna fjölmargar óratóríur, passíur og sálumessur en líka kórverk án undirleiks frá ýmsum tímum, auk þess sem kórinn hefur frumflutt fjölda íslenskra tónverka. Mótettukórinn hefur farið í fjölmargar tónleikaferðir, sungið í helstu dómkirkjum Evrópu og tekið þátt í mörgum tónlistarhátíðum og kórakeppnum. Árið 2014 vann kórinn til þriggja gullverðlauna í keppninni Cançó Mediterrània á Spáni og var valinn besti kór keppninnar. Kórinn hefur þrisvar verið tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna, síðast árið 2021 þegar hann hlaut verðlaunin sem tónlistarflytjandi ársins í sígildum flokki.

Kammersveitin Elja kvað sér fyrst hljóðs í desember 2017 og hefur vakið mikla athygli. Sveitin er skipuð ungu íslensku tónlistarfólki sem hefur síðastliðin ár einbeitt sér að hvers kyns tónlistarflutningi, en þau hafa mörg komið fram sem einleikarar og starfað með hljómsveitum víða í Evrópu og Bandaríkjunum. Margir meðlima Elju stunduðu saman nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands áður en þeir héldu í frekara háskólanám. Markmið hljómsveitarinnar er að bjóða upp á kraftmikinn og lifandi tónlistarflutning með nánd við áhorfendur og tekst hún á við allar þær stefnur og form sem hljóðfæraleikararnir leitast við að túlka.

Bjarni Frímann Bjarnason lauk prófi í lágfiðluleik frá Listaháskóla Íslands árið 2009. Að því loknu stundaði hann nám í hljómsveitarstjórn undir handleiðslu Freds Buttkewitz við Hanns Eisler-tónlistarháskólann í Berlín. 2012 vann hann fyrstu verðlaun í Hanns Eisler-keppninni í Berlín fyrir píanóleik. Hann var útnefndur Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2016 og var ráðinn tónlistarstjóri Íslensku óperunnar árið 2018. Bjarni hefur m.a. stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur, Caput og Kammersveitinni í Bergen. Nýverið stjórnaði hann tónleikum Bjarkar í Japan og á tónlistarhátíðinni Coachella í Los Angeles.

Álfheiður Erla Guðmundsdóttir sópran stundaði söngnám í Söngskóla Sigurðar Demetz og í Hanns Eisler-tónlistarháskólanum í Berlín, þaðan sem hún lauk bakkalár- og meistaranámi. Hún þreytti frumraun sína í Staatsoper Berlin árið 2019 í hlutverki Mjallhvítar í óperunni Schneewittchen eftir Wolfgang Mitterer og var boðið að taka þátt í SongStudio, meistaranámskeiði á vegum söngkonunnar Renée Fleming í Carnegie Hall í New York sama ár. Hún hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2021 sem söngkona ársins í flokknum sígild og samtímatónlist og var valin í 16 manna úrslit BBC Cardiff-söngkeppninnar sama ár. Álfheiður Erla hefur verið fastráðin við Theater Basel í Sviss frá haustinu 2021.

Sigríður Ósk Kristjánsdóttir mezzósópran stundaði framhaldsnám í söng við óperudeild Royal College of Music í London þar sem hún útskrifaðist með Artist Diploma með fyrstu einkunn og meistaragráðu. Sigríður kemur reglulega fram í óperum, á ljóðatónleikum og í óratoríum hérlendis og erlendis. Hún söng í uppfærslu Ensku þjóðaróperunnar á óperunni Jakob Lenz eftir Wolfang Rihm, á Glyndebourne-óperuhátíðinni söng hún í frumflutningi á Love and Other Demons eftir Peter Eötvös og í Berlín söng hún í Insanity með framsækna óperufélaginu Kiez Oper. Sigríður hefur komið fram í virtum tónleikasölum á borð við Royal Albert Hall og St Martin-in-the-Fields og hún söng í Cadogan Hall ásamt Dame Emma Kirkby en tónleikunum var útvarpað á Classic FM.

Benedikt Kristjánsson er einn af eftirsóttustu ungu tenórum heims um þessar mundir og má segja að hann hafi hlotið heimsfrægð eftir að hann var fenginn til að flytja Jóhannesarpassíu Bachs í útsetningu fyrir þrjá flytjendur í beinni útsendingu frá Tómasarkirkjunni í Leipzig á föstudaginn langa 2020 en skömmu áður höfðu þau flutt verkið í sama búningi í Hallgrímskirkju á vegum Listvinafélagsins. Benedikt stundaði framhaldsnám við Hanns Eisler-tónlistarháskólann í Berlín og hlaut m.a. hin þekktu Opus Klassik verðlaun haustið 2019 í Berlín og Íslensku tónlistarverðlaunin 2016. Sem guðspjallamaður í passíum Bachs og öðrum óratoríum hefur Benedikt komið fram víða um heim og sungið einsöng með þekktum hljómsveitum í mörgum af stærstu tónleikahúsum heims. Á undanförnum árum hefur Benedikt margoft komið fram undir stjórn Harðar Áskelssonar með kórum hans.

Oddur Arnþór Jónsson baríton hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2018 sem söngvari ársins fyrir hlutverk Michaels í Brothers, óperu Daníels Bjarnasonar, á Listahátíð 2018. Hann var útnefndur Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2014 fyrir hlutverk sitt í Don Carlo. Oddur nam söng hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og Alexander Ashworth í Söngskólanum í Reykjavík og stundaði framhaldsnám í óperu- og ljóðasöng við Mozarteum-háskólann í Salzburg í Austurríki hjá Andreas Macco og Mörthu Sharp. Hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga í alþjóðlegum ljóðakeppnum. Oddur er fyrrum félagi í Mótettukórnum og hefur margoft komið fram sem einsöngvari á vegum Listvinafélagsins undir stjórn Harðar Áskelssonar.

Jóhannes Jökull Zimsen drengjasópran byrjaði þriggja ára að syngja með Krúttakór Langholtskirkju. Sex ára gamall tók hann þátt í Jólagestum Björgvins og kvað stemmu á tónleikunum í troðfullri Eldborg fyrir jólin 2018. Sjö ára gamall hóf hann nám í Söngskólanum í Reykjavík hjá Hörpu Harðardóttur og hefur tekið þátt í ýmsum uppfærslum á vegum ungmennadeildar Söngskólans. Jóhannes Jökull hefur lært á fiðlu frá fimm ára aldri í Tónskóla Sigursveins.

Miðasala: harpa.is – s. 528 5050 – tix.is

MÓTETTUKÓRINN

LISTVINAFÉLAGIÐ Í REYKJAVÍK

41. STARFSÁR

listvinafelag.is – motettukor.iseljaensemble.com

MOZART- BERNSTEIN-Tónleikar í Eldborg Hörpu 27. ágúst 2023