Messías eftir G.F. Händel- 40 ára afmælistónleikar Mótettukórsins og Listvinafélagsins í Reykjavík í Eldborg Hörpu 20. nóvember 2022 kl. 17

Myndir: Guðspjall Maríu eftir Huga Guðmundsson – heimsfrumflutningur á Listahátíð í Reykjavík 6. júní 2022
07/06/2022
MESSÍAS eftir G.F. Händel á 40 ára afmælistónleikum Mótettukórsins og Listvinafélagsins í Reykjavík - Útsending frá tónleikunum á Rás 1 á Jóladag
MESSÍAS eftir G.F. Händel á 40 ára afmælistónleikum Mótettukórsins og Listvinafélagsins í Reykjavík – Útsending frá tónleikunum á Rás 1 á Jóladag
22/12/2022
Sýna allt

Messías eftir G.F. Händel- 40 ára afmælistónleikar Mótettukórsins og Listvinafélagsins í Reykjavík í Eldborg Hörpu 20. nóvember 2022 kl. 17

Mótettukórinn ásamt Alþjóðlegu barokksveitinni í Reykjavík og fjórum afburða einsöngvurum flytja Messías eftir Händel undir stjórn Harðar Áskelssonar í Eldborg Hörpu sunnudaginn 20. nóvember 2022 kl. 17.

Í tilefni af 40 ára afmæli Mótettukórsins og Listvinafélagsins í Reykjavík í ár flytja Mótettukórinn, Alþjóðlega barokksveitin í Reykjavík og úrvalslið einsöngvara óratóríuna Messías eftir Georg Friedrich Händel undir stjórn Harðar Áskelssonar í ELDBORG HÖRPU sunnudaginn 20. nóvember kl. 17.

Messías er eitt háleitasta og fegursta verk tónlistarsögunnar. Flutningur á Messíasi er hátíðarviðburður sem enginn tónlistarunnandi má láta fram hjá sér fara, og gefst nú tækifæri til að upplifa stórvirkið í Eldborgarsal Hörpu.

UM FLYTJENDUR

Mótettukórinn – áður Mótettukór Hallgrímskirkju – var stofnaður árið 1982 og hefur lengi verið meðal fremstu kóra landsins. Hörður Áskelsson hefur verið stjórnandi kórsins allt frá upphafi. Verkefnalisti kórsins er langur og fjölskrúðugur og má þar finna fjölmargar óratóríur, passíur og sálumessur en líka kórverk án undirleiks frá ýmsum tímum, auk þess sem kórinn hefur frumflutt fjölda íslenskra tónverka. Mótettukórinn hefur farið í margar tónleikaferðir, sungið í helstu dómkirkjum Evrópu og tekið þátt í tónlistarhátíðum á borð við Listahátíðina í Björgvin, Norrænu kirkjutónlistarhátíðina í Gautaborg og Wiener Festwochen í Vínarborg. Kórinn hefur einnig tekið þátt í erlendum kórakeppnum, síðast í strandborginni Jūrmala í Lettlandi haustið 2018. Hann vann til verðlauna í Alþjóðlegu kórakeppninni í Cork á Írlandi árið 1996 og í september 2014 vann kórinn til þriggja gullverðlauna í keppninni Cançó Mediterrània á Spáni þar sem kórinn vann einnig Grand Prix-verðlaun sem besti kór keppninnar.

Meðal stórverka sem Mótettukórinn hefur flutt má nefna Messías eftir Händel, Matteusarpassíuna, Jóhannesarpassíuna, Jólaóratóríuna og H-moll-messuna eftir Bach, Sálumessu og Messu í c-moll eftir Mozart, sálumessur eftir Duruflé og Fauré, óratóríurnar Elía og Pál postula eftir Mendelssohn, Vesper eftir Rachmaninoff, Messu fyrir tvo kóra eftir Frank Martin og Þýska sálumessu eftir Johannes Brahms. Kórinn hefur þrisvar verið tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna; árið 2012 fyrir flutning á 9. sinfóníu Beethovens sem flytjandi ársins í flokki sígildrar tónlistar og árið 2015 fyrir flutning á óratóríunni Salómon eftir Händel á Kirkjulistahátíð og í ár var kórinn valinn tónlistarflytjandi ársins 2021 í flokki sígildrar/samtímatónlistar.

Kórinn kemur reglulega fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands, síðast í mars 2022. Kórinn hefur einnig haldið fjölmarga rómaða tónleika með Alþjóðlegu barokksveitinni í Reykjavík ( áður Hallgrímskirkju/Den Haag).

Alþjóðlega barokksveitin í Reykjavík (áður Hallgrímskirkju/Den Haag) er skipuð úrvals hljóðfæraleikurum víðs vegar að úr heiminum, en meðlimir sveitarinnar eiga það flestir sameiginlegt að hafa numið við Konunglega tónlistarháskólann í Den Haag í Hollandi sem er leiðandi í kennslu á barokkhljóðfæri. Að námi loknu hafa meðlimir Alþjóðlegu barokksveitarinnar haslað sér völl sem eftirsóttir hljóðfæraleikarar og leika nú reglulega með mörgum af helstu upprunasveitum heims undir stjórn nafntogaðra stjórnenda. Má þar nefna hljómsveitir á borð við Les Arts Florissants, Amsterdam Baroque Orchestra, Bach Collegium Japan, Orchestra of the Age of Enlightenment, Collegium Vocale Gent og stjórnendur á borð við William Christie, Ton Koopman, Masaaki Suzuki og Philippe Herreweghe.

Meðlimir Alþjóðlegu barokksveitarinnar í Reykjavík hafa verið tíðir gestir á Íslandi frá því að þeir komu fyrst til að taka þátt í flutningi á Jólaóratóríu Bachs á Jólatónlistarhátíð Hallgrímskirkju árið 2004 og aftur 2005. Sveitin kom fram á Kirkjulistahátíðum 2005, 2007, 2015 og 2019, lék á 30 ára afmælistónleikum Mótettukórsins og 30 ára vígsluafmælistónleikum Hallgrímskirkju. Síðast kom Alþjóðlega barokksveitin fram ásamt Mótettukórnum undir stjórn Harðar Áskelssonar í flutningi Jólaóratóríunnar í Eldborg Hörpu í nóvember sl. og var sá flutningur tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2021.

Hljómsveitin hefur undantekningarlaust fengið frábæra dóma fyrir leik sinn og hefur átt ómetanlegan þátt í að kynna flutningsmáta upprunastefnu og hljóðfæri barokktímans hér á landi. Um þriðjungur hljómsveitarinnar eru nú íslenskir hljóðfæraleikarar sem hafa sérhæft sig í flutningi barokktónlistar.

Konsertmeistari Alþjóðlegu barokksveitarinnar í Reykjavík er finnski fiðluleikarinn Tuomo Suni. Stjórnandi er Hörður Áskelsson.

Hörður Áskelsson var organisti og kantor Hallgrímskirkju í 39 ár frá 1982 til 2021. Hann flutti heim til Íslands eftir að hafa stundað kirkjutónlistarnám í Düsseldorf í Þýskalandi sem hann lauk með hæstu einkunn vorið 1981. Hann gegndi lykilhlutverki við uppbyggingu listalífs í Hallgrímskirkju og við val á Klais-orgeli kirkjunnar. Hann stóð að stofnun Listvinafélags Hallgrímskirkju (sem nú nefnist Listvinafélagið í Reykjavík), Kirkjulistahátíðar, Alþjóðlegs orgelsumars í Hallgrímskirkju og Sálmafoss á Menningarnótt.

Árið 1982 stofnaði Hörður Mótettukór Hallgrímskirkju og kammerkórinn Schola Cantorum árið 1996. Báðir hafa kórarnir verið í fremstu röð íslenskra kóra. Með þeim hefur hann flutt flest helstu kórverk sögunnar, bæði með og án undirleiks. Þá hefur hann stjórnað frumflutningi margra verka fyrir kór og hljómsveit sem íslensk tónskáld hafa skrifað fyrir hann.

Hörður hefur ásamt kórum sínum tekið þátt í ýmsum tónlistarhátíðum og tónlistarkeppnum á alþjóðlegum vettvangi og unnið til fjölmargra verðlauna. Hörður hefur haldið tónleika í mörgum stærstu kirkjum Evrópu, bæði sem kórstjóri og organisti, m.a. í Kölnardómkirkju, Notre-Dame og Saint-Sulpice í París, og dómkirkjunum í Frankfurt, Brussel, Helsinki og Basel.

Tónlistarflutningur Harðar hefur oftsinnis verið tekinn upp fyrir sjónvarp og útvarp og verið gefinn út á geislaplötum sem hafa hlotið frábæra dóma í íslenskum og erlendum blöðum. Hörður hefur hlotið margs konar viðurkenningar fyrir framlag sitt til tónlistarlífs á Íslandi, þar á meðal Íslensku tónlistarverðlaunin sem tónlistarflytjandi ársins 2001 og Menningarverðlaun DV árið 2002, riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 2004 og Íslensku bjartsýnisverðlaunin árið 2006. Þá var hann útnefndur borgarlistamaður Reykjavíkur árið 2002. Hörður hefur kennt orgelleik og kórstjórn við Tónskóla þjóðkirkjunnar og á árunum 1985–1995 var hann lektor í litúrgískum söngfræðum við guðfræðideild Háskóla Íslands.

Hörður var tónlistarstjóri hátíðarhalda í tilefni af 1000 ára afmæli kristnitöku á Íslandi árið 2000 og hann gegndi embætti söngmálastjóra þjóðkirkjunnar árin 2005–2011. Í mars 2022 hlaut Hörður Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir árið 2021 með Mótettukórnum í flokki hópa sem flytjandi ársins á sviði sígildrar tónlistar og samtímatónlistar og í apríl hlaut hann Liljuna, viðurkenningu þjóðkirkjunnar, fyrir ævistarf sitt sem kantor Hallgrímskirkju í Reykjavík og fyrir hið mikla tónlistar- og frumkvöðlastarf sitt í kirkjunni.

Hörður er nú sjálfstætt starfandi tónlistarmaður og stjórnandi kóra sinna, Mótettukórsins og Schola Cantorum, og einnig stjórnandi Alþjóðlegu barokksveitarinnar í Reykjavík. Hann er sömuleiðis listrænn stjórnandi Listvinafélagsins í Reykjavík.

Berit Norbakken er ein fremsta sópransöngkona Noregs. Auk þess að vera iðulega valin sem einsöngvari í óratóríum, passíum og messum hefur hún haldið einsöngstónleika á ýmsum hátíðum í Noregi. Á síðustu árum hefur hún einnig komið fram í óperuuppfærslum við feiknagóðar undirtektir, nú síðast í nýrri sviðsetningu leikstjórans Calixto Bieito á Jóhannesarpassíu Bachs í Teatro Arriaga í Bilbao. Hún syngur reglulega einsöng með mikilsvirtum hljómsveitum í stórum tónleikahúsum á borð við Óperuhúsið í Sydney og Óperuhöllina í Tókyó, meðal annars undir stjórn Roberts King, Daniels Reuss, Eriks Nielsen, Mikhaels Pletnev, Andreas Spering, Olofs Boman og Ottavios Dantone.

Berit Norbakken kom í fyrsta sinn fram á vegum Listvinafélagsins og heillaði áheyrendur í heimsfrumflutningi á óratóríunni Gospel of Mary eftir Huga Guðmundsson á Listahátíð í Reykjavík í júní sl. undir stjórn Harðar Áskelssonar og söng einnig sama verk undir hans stjórn á listahátíðinni KLANG í Kaupmannahöfn í júní sl. og á Alþjóðlegu kirkjulistahátíðinni í Osló í september á þessu ári.

Alex Potter frá Englandi er einn af fremstu kontratenórum heims. Hann kemur reglulega fram í öllum helstu tónleikahúsum veraldar með fremstu barokkflytjendum dagsins í dag og söng m.a. í H-moll messu og Matteusarpassíunni eftir Bach í tilefni af 100 ára afmæli hins virta Bach Verenigen í Hollandi á síðasta ári. Hann hefur unnið með stjórnendum á borð við Philippe Herreweghe, Lars Ulrik Mortensen, Jordi Savall og Jos van Veldhoven. Bach og Händel eru fyrirferðarmiklir í efnisskrá Potters, en hann leggur sig einnig eftir því að syngja í verkum eftir minna þekkt tónskáld á tónleikum þar sem hann stjórnar sjálfur flutningi.

Alex Potter kemur nú fram í þriðja sinn á vegum Listvinafélagsins með Mótettukórnum og Alþjóðlegu barokksveitinni, en hann var einsöngvari í eftirminnilegri uppfærslu á Jólaóratóríunni í Eldborg Hörpu í byrjun aðventu í fyrra og í H-moll messu Bachs í tilefni af 35 ára afmæli Mótettukórsins og Listvinafélagsins 2017.

Elmar Gilbertsson tenór er í fremstu röð íslenskra óperusöngvara. Hann útskrifaðist frá Söngskóla Sigurðar Demetz vorið 2007. Eftir það lá leiðin til Amsterdam í Hollandi þar sem hann lagði stund á mastersnám í óperusöng við Tónlistarháskólann í Amsterdam og Konunglega tónlistarháskólann í Den Haag. Kennarar hans þar voru Jón Þorsteinsson og Peter Nilson. Elmar hlaut Grímuverðlaunin í flokknum söngvari ársins og Íslensku tónlistarverðlaunin sem söngvari ársins í flokki sígildrar og samtímatónlistar fyrir hlutverk Daða Halldórssonar í óperunni Ragnheiður eftir Gunnar Þórðarson sem sett var upp hjá Íslensku óperunni 2014. Hann söng hlutverk Lenskys í uppfærslu Íslensku óperunnar á Evgení Onegin haustið 2016 og hlaut aftur Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir túlkun sína.

Elmar söng tenórhlutverkið í Passíu eftir Hafliða Hallgrímsson á tónleikum í Hallgrímskirkju með Mótettukórnum í apríl 2015 og söng einnig á 30 ára vígsluafmælistónleikum í Hallgrímskirkju í október 2016 og í H-moll messu Bachs í tilefni af 35 ára afmæli Mótettukórsins, en á námsárum sínum var hann um tíma félagi í kórnum. Hann var einnig einsöngvari á Jólatónleikum Mótettukórsins 2017. Elmar er sem stendur fastráðinn við Staatsoper í Stuttgart í Þýskalandi.

Oddur Arnþór Jónsson baríton hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2018 sem söngvari ársins fyrir hlutverk Michaels í Brothers, óperu Daníels Bjarnasonar á Listahátíð 2018. Hann var útnefndur Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2014 fyrir hlutverk sitt í Don Carlo. Oddur lærði hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og Alexander Ashworth í Söngskólanum í Reykjavík og stundaði framhaldsnám í óperu- og ljóðasöng við Mozarteum háskólann í Salzburg í Austurríki hjá Andreas Macco og Mörthu Sharp. Hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga í alþjóðlegum ljóðakeppnum.

Oddur er fyrrum félagi í Mótettukórnum og hefur margoft komið fram sem einsöngvari á vegum Listvinafélagsins undir stjórn Harðar Áskelssonar, m.a. í H-moll messunni eftir Bach í tilefni af 35 ára afmæli Mótettukórsins og Listvinafélagsins 2017 og á Kirkjulistahátíð 2019.

Messías eftir G.F. Händel- 40 ára afmælistónleikar Mótettukórsins og Listvinafélagsins í Reykjavík í Eldborg Hörpu 20. nóvember 2022 kl. 17