Menningarnótt í Reykjavík 2018 -Sálmafoss í Hallgrímskirkju laugardaginn 18. ágúst kl. 15 – 21.

Hannfried Lucke
Hannfried Lucke konsertorganisti og prófessor við Mozarteum-háskólann í Salzburg heldur tónleika á Alþjóðlegu orgelsumri sunnudaginn 19.ágúst.
14/08/2018
Trond Kverno - Norwegian priest and composer
Heimsþekkta norska tónskáldið Trond Kverno gestur í hátíðarmessu í Hallgrímskirkju sunnudaginn 9. september kl. 11
07/09/2018

Menningarnótt í Reykjavík 2018 -Sálmafoss í Hallgrímskirkju laugardaginn 18. ágúst kl. 15 – 21.

Sálmafoss í Hallgrímskirkju á Menningarnótt

Hallgrímskirkja ómar af tónlist alla daga ársins, í messum og á tónleikum, en einnig þegar organistar og kórar eru að æfa fyrir hinn mikla fjölda athafna sem fram fara í þessum fagra helgidómi. 

Á árlegum Sálmafossi á Menningarnótt streyma þúsundir gesta í kirkjuna til að upplifa sálmasöng, kórsöng, einsöng og hrífandi tóna Klaisorgelsins, bæði í einleik og samleik. 

“Fossinn” streymir samfellt í sex klukkutíma, gestum er velkomið að koma og fara að vild. Á heila tímanum sameinast allir í sálmasöng með orgelinu. 

Sálmafossinn í ár hefst klukkan 15.00 með söng á nýlegum sálmum eftir skáldið Aðalstein Ásberg Sigurðsson og tónlistarmanninn Sigurð Flosason. Kirkjugestir fá að spreyta sig á þremur gullfallegum sálmum, áður en Schola cantorum og Sigurður stilla saman saxófón og raddir í flutningi valinna sálma úr “sálmabók” þeirra félaga sem nefnist Sálmar á nýrri öld. 

Síðan flæðir tónlistarfossinn samfellt til klukkan 21.00. 

Auk Schola cantorum koma fram kórarnir Söngsveitin Fílharmónía undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar og Mótettukór Hallgrímskirkju undir stjórn Harðar Áskelssonar, Bergljót Arnalds söngkona, tónlistarhópurinn Umbra, tvíeykið Guðmundur Vignir Karlsson raftónlistarmaður og Tómas Manoury sem leikur á saxófón, sálmaspunadúóið Sigurður Flosason og orgelleikarinn Gunnar Gunnarsson, altsöngkonan Hildigunnar Einarsdóttir og orgelleikararnir Björn Steinar Sólbergsson, Lára Bryndís Eggertsdóttir og Hanfried Lucke konsertorganisti frá Salzburg. 

Nýuppgert klukkuspil Hallgrímskirkju blandast inn í sálmafossinn 5 mínútur fyrir hvern heilan tíma. Þá verður kaffihús í suðursalnum til styrktar starfi Listvinafélagsins meðan á Sálmafossi stendur, þ.s. antíkstell og ilmandi vöfflur skapa skemmtilega stemmningu og hægt er að eiga góða stund milli tónlistaratriðanna í kirkjunni.

Kynnar eru dr. Sigurður Árni Þórðarson sóknarprestur Hallgrímskirkju og Inga Harðardóttir æskulýðsfulltrúi í Hallgrímskirkju. 

Listrænn stjórnandi og ábyrgðarmaður Sálmafoss er Hörður Áskelsson kantor Hallgrímskirkju. Framkvæmdastjóri er Inga Rós Ingólfsdóttir.

Aðgangur að Sálmafossi er ókeypis, allir eru velkomnir! 

Listvinafélag Hallgrímskirkju þakkar þeim stóra hópi tónlistarfólks og aðstoðarfólks, sem leggur þessari dagskrá lið sitt.

Dagskráin á pdf skjali  hér.

DAGSKRÁ  

Kynnar: Dr. Sigurður Árni Þórðarson sóknarprestur Hallgrímkirkju, og Inga Harðardóttir, æskulýðsfulltrúi Hallgrímskirkju. 

15.00  Sálmasöngur – samsöngur 

15.10  Sálmar á nýrri öld Kammerkórinn Schola cantorum undir stjórn Harðar Áskelssonar og Sigurður Flosason tónskáld og saxófónleikari kynna og flytja nýja sálma eftir Sigurð og Aðalstein Ásberg Sigurðsson skáld. Sigurður rammar inn flutninginn með spjalli og spuna á saxófón. 

15.55  Klukkuspil Hallgrímskirkju. Sálmar óma á  “Menningarnótt”. 

16.00  Sálmasöngur – samsöngur 

16.10  Söngsveitin Fílharmónía flytur fjölbreytta kórtónlist undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar. 

16.40  Lára Bryndís Eggertsdóttir leikur sálmforleiki á Klais-orgelið. 

16.55  Klukkuspil Hallgrímskirkju. Sálmar óma á  “Menningarnótt”. 

17.00  Sálmasöngur -samsöngur 

17.10  Mótettukór Hallgrímskirkju syngur sálmaútsetningar og mótettur undir stjórn Harðar Áskelssonar. Bergljjót Analds syngur Heyr, himna smiður með kórnum.  

17.30  Hannfried Lucke, konsertorganisti frá Salzburg, leikur á Klaisorgelið 

17.55  Klukkuspil Hallgrímskirkju. Sálmar óma á  “Menningarnótt”. 

18.00  Sálmasöngur – samsöngur 

18.10  Umbra, flytur maríusöngva frá miðöldum, antifón eftir Hildegard von Bingen og veraldlega og trúarlega þjóðsöngva. Hópinn skipa þær Alexandra Kjeld, Arngerður María Árnadóttir, Lilja Dögg Gunnarsdóttir og Sigrún Harðardóttir. 

18.35  Björn Steinar Sólbergsson organisti Hallgrímskirkju flytur fjölbreytta orgeltónlist. 

18.85  Klukkuspil Hallgrímskirkju. Sálmar óma á  “Menningarnótt”. 

19.00  Sálmasöngur – samsöngur 

19.10  Hildigunnur Einarsdóttir altsöngkona og Björn Steinar Sólbergsson flytja sálma og aríur eftir Bach o. fl. 

19.30  Sálmaspuni. Sigurður Flosason saxófónleikari og Gunnar Gunnarsson orgelleikari spinna út frá þekktum sálmum.  

19.55  Klukkuspil Hallgrímskirkju. Sálmar óma á  “Menningarnótt”. 

20.00  ManKan rafspunadúett. Guðmundur Vignir Karlsson og Tómas Manoury. Rafspunadúettinn ManKan tengist midi-búnaði Klaisorgelsins. 

20.30  Orgelspuni og sálmforleikir. Hannfried Lucke konsertorganisti frá Salzburg kemur sálmafossgestum á óvart með fjölbreyttri túlkun á Klaisorgelið 

21.00  Klukkuspil Hallgrímskirkju ómar út í nóttina. 

Kaffihús er í suðursal kirkjunnar á Menningarnótt til styrktar starfi Listvinafélagsins. Ilmandi vöfflur og aðrar kræsingar og kaffi borið fram í gullfallegum antíkbollum Listvinafélagsins.

Röð sálmanna: 

1. 848 Allt sem Guð hefur gefið mér 

2. 846 Ljósfaðir, viltu lýsa mér 

3. 918 Færðu mér ljósið langt og mjótt 

4. 881 Við heyrum Guðs heilaga orð 

5. 835 Heyr þann boðskap 

6. 916 Hver getur vakað um heimsins nótt 

7. 880 Kom lát oss syngja söng 

8. Í svörtum himingeimi (Sálmafoss 2017) 

eftir sr. Davíð Þór Jónsson og Arngerði Maríu Árnadóttur organista Laugarneskirkju 

9. 926 Á hverjum degi 

10. 534 Ég veit um himins björtu borg 

11. 592 Nú hverfur sól í haf 

Sálmafoss í Hallgrímskirkju á Menningarnótt