Fyrir þá sem dvelja í Reykjavík um helgina og þyrstir í menningu er nóg um að vera í Hallgrímskirkju því fernir tónleikar eru framundan á Alþjóðlegu orgelsumri, á fimmtudag kl. 12, laugardag kl. 12, sunnudag kl. 17 og mánudag kl. 20. Á hádegistónleikum á fimmtudaginn kl. 12 leikur Eyþór Franzson Wechner verk eftir César Franck og Gustav Adolf Merkel á hið mikilfenglega Klais-orgel, en Eyþór starfar um þessar mundir sem afleysingaorganisti í Hallgrímskirkju.
Um verslunarmannahelgina sjálfa leikur Lára Bryndís Eggertsdóttir svo á tvennum tónleikum. Á laugardaginn heldur hún hádegistónleika ásamt GAIA kammerkórnum frá Árósum þar sem verk eftir Stefán Arason, Báru Grímsdóttur, Carl Nielsen og Rachmaninoff fá að hljóma.
Á sunnudaginn kl. 17 flytur Lára Bryndís síðan metnaðarfulla og fjölbreytta efnisskrá eingöngu fyrir orgel, þar á meðal spænska barokktónlist, umritanir á Vocalise eftir Rachmaninoff og Nótt á Nornagnípu eftir Mussorgsky, auk verka eftir Hafstein Þórólfsson og Hildigunni Rúnarsdóttur úr ,,vængjaverkefni“ Láru Bryndísar, en árið 2014 stóð hún fyrir viðamiklu nýsköpunarverkefni í kirkjutónlist og pantaði verk eftir sjö íslensk tónskáld undir heitinu Ég heyrði þytinn frá vængjum þeirra.
Á mánudaginn kl. 20 heldur svo danski kammerkórinn GAIA tónleika undir stjórn Søren Kinch Hansen, en á efnisskrá kórsins má finna perlur úr Vesper eftir Rachmaninoff, Messu eftir Rautavaara auk verka eftir Purcell, Chilcott, Nielsen, Báru Grímsdóttur og Stefán Arason.
Miðaverð á hádegistónleika Alþjóðlegs orgelsumars er 2000 kr. en á tónleikana á sunnudaginn kl. 17 og mánudaginn kl. 20 er aðgangseyrir 2500 krónur.