Kristín Reynisdóttir: SYNJUN / REFUSAL- sýningaropnun sunnudaginn 25. febrúar kl. 12.15

Sýning Erlings Páls Ingvarssonar í Hallgrímskirkju – SÝNINGARLOK UM HELGINA
16/02/2018
Hannah Morrison
Matteusarpassían eftir J.S. Bach í Hallgrímskirku á föstudaginn langa 30. mars 2018 kl. 18
23/02/2018
Sýna allt

Kristín Reynisdóttir: SYNJUN / REFUSAL- sýningaropnun sunnudaginn 25. febrúar kl. 12.15

SYNJUN / REFUSAL - Kristín Reynisdóttir

Listsýning Kristínar Reynisdóttur, SYNJUN, verður opnuð í forkirkju Hallgrímskirkju sunnudaginn 25. febrúar 2018 við messulok kl.12:15.

Sýningin er á vegum Listvinafélags Hallgrímskirkju. Sýningarstjóri er Rósa Gísladóttir.

Allir eru hjartanlega velkomnir og verða léttar veitingar í boði Hallgrímssafnaðar.

Eins og fram kemur í umfjöllun Guju Daggar Hauksdóttur í sýningarskrá er vinnur Kristín með við, sem fenginn er úr ruslakompu trésmiðju og ber því á táknrænan hátt tilvísun í tilvistarlega stöðu flóttamanna, sem eru afgangs og aflóga á flótta sínum frá styrjöldum í heiminum. Viðurinn er í formi fínlegra og viðkvæmra lista af ýmsum tegundum trjáa, bæði harðvið og mjúkum við, dökku tré og ljósu, sem átt hefur rætur og vaxið hefur á ólíkum stöðum og við ólík skilyrði, en hefur á þessum tímapunkti skilað sér upp á Íslands strendur. Innsetning Kristínar í Hallgrímskirkju er auðmjúk og fínleg, en jafnframt margræð, þar sem hún ávarpar þann aukna straum flóttamanna sem verið hefur að undanförnu til Íslands, og þeirri miskunnarlausu ákörðum stjórnvalda að vísa meirihluta þeirra af hörku aftur úr landi.

Myndlistarmaðurinn Kristín Reynisdóttir (1961) stundaði nám sitt, fyrst við Myndlista- og handíðaskóla Íslands (1983-1987) og síðan við Staatlische Kunstakademie Düsseldorf í Þýskalandi (1987-1989). Verk Kristínar eru gjarnan innsetningar í rými, sem gera hvort tveggja; að ávarpa þann sérstaka stað sem þau eru sett inn í og velta upp sammannlegum þáttum með tilvísanir í upplifanir og tilfinningar.

Sýningin stendur til 13. maí 2018 og er opin alla daga kl. 9 – 17 út aprílmánuð en til kl. 21 í maí.

SYNJUN
Kristín Reynisdóttir í forrými Hallgrímskirkju, 2018

Í verkinu Skynjun, sem sett er upp í forrými Hallgrímskirkju nú á nýhafinni Góu, vinnur Kristín með við, sem fenginn er úr ruslakompu trésmiðju og ber því á táknrænan hátt tilvísun í tilvistarlega stöðu flóttamanna, sem eru afgangs og aflóga á flótta sínum frá styrjöldum í heiminum. Viðurinn er í formi fínlegra og viðkvæmra lista af ýmsum tegundum trjáa, bæði harðvið og mjúkum við, dökku tré og ljósu, sem átt hefur rætur og vaxið hefur á ólíkum stöðum og við ólík skilyrði, en hefur á þessum tímapunkti skilað sér upp á Íslands strendur. Viðurinn er óvarinn og með sýnilegar æðar, rétt eins og á manneskjum. Listarnir eru settir saman í geómetrísku mynstri sem minnir bæði á kristið krossform, en líka á krossa sem haka þarf í á endalausum eyðublöðum sem tengjast umsóknum um hæli. Krossformið er hengt á vegg í anddyri kirkjunnar með ákveðna fjarlægð frá fletinum, svo grillir í vægt ómandi endurvarp sterkappelsínugulrar húðar á bakhliðar þess, með tilvísun í litinn sem notast er við í neyð, svo sem í neyðarskýlum, -bátum og -vestum Björgunarsveita landsins. Krossarnir eru jafnmargir þeim sem vísað hefur verið úr landi til þessa. Á veggnum andspænis krossunum standa gegnheil form úr renndum viðarbolum, sem minnt geta á þanin móðurbrjóst, full af hlýju og kærleik. Viðurinn ber enn merki um börkinn sem verndar og umlykur mjúkt tréð, og formið er lífrænt og óreglulegt, sem vísar í persónuleg tengsl lífgefandi mjólkurgjafar móður til barns. Brjóst Maríu eru sjö talsins, tala sem hefur sterk tengsl við kristna táknfræði. Upp við þriðja veggflötinn hangir tvívíð mynd af risastórum hjartavöðva sem skorið hefur verið út í plastefni með sama neyðar-appelsínugula litinn og tifar í rýminu milli krossanna og veggjarins andspænis.

Innsetning Kristínar í Hallgrímskirkju er auðmjúk og fínleg, en jafnframt margræð, þar sem hún ávarpar þann aukna straum flóttamanna sem verið hefur að undanförnu til Íslands, og þeirri miskunnarlausu ákörðum stjórnvalda að vísa meirihluta þeirra af hörku aftur úr landi.

Myndlistarmaðurinn Kristín Reynisdóttir (1961) stundaði nám sitt, fyrst við Myndlista- og handíðaskóla Íslands (1983-1987) og síðan við Staatlische Kunstakademie Düsseldorf í Þýskalandi (1987-1989). Verk Kristínar Reynisdóttur einkennast af sambærilegum jafnvægisgangi á milli hins fínlega, margræða, gegnsæja og viðkvæma, og sterkra tifinninga og sannfæringarkrafts, eins og sjá má af heitum sérsýninga hennar allt frá upphafi: Strengir, Viðkoma, Ferðalag, Fellingar og Til staðar. Hin síðari ár hefur Kristín tengst öðrum myndlistarmönnum með snertiflöt við Norðurlöndin og hafið næst löndum Norður-Evrópu, sem sett hafa upp samsýningar á grundvelli listrænnar sköpunar með grunn í heimspekilegri afstöðu á tilvistarleg skilyrði lífs á norrænum slóðum. Meðal verka hennar á þeim vettvangi eru I Vesterveg – Netja og Red Snow – Ice in Motion, sýningar sem ferðast hafa víða um norðurhjara veraldar, auk Behind the North Wind – Hjarta í Bonhoga Gallery á Shetlandseyjum og Hverfing – Hryggjarsúla í Verksmiðjunni á Hjalteyri. Verk Kristínar eru gjarnan innsetningar í rými, sem gera hvort tveggja; að ávarpa þann sérstaka sstað sem þau eru sett inn í og velta upp sammannlegum þáttum með tilvísanir í upplifanir og tilfinningar. Kristín velur hráefnið í verk sín með tilliti til merkingarberandi eiginleika þeirra. Þannig hefur hún unnið með jafn ólík efni og plexigler og tré, plastefni í sterkum lit og netju (lífhimnu) úr kind, auk þess að spila með dagsbirtuna, skuggavarp og myrkur sem meðleikara í myndbirtingu og upplifun verka sinna.

 Smellið hér til að skoða sýningarskrána