Jólaóratórían eftir J.S. Bach í Eldborgarsal Hörpu 1. sunnudag í aðventu 28. nóv. 2021 kl. 17

Kammerkórinn Schola Cantorum
IN PARADISUM — TÓNLEIKAR SCHOLA CANTORUM Í HÁTEIGSKIRKJU SUNNUDAGINN 26. SEPT. 2021 KL. 17
20/09/2021
Mótettukórinn og Alþjóðlega barokksveitin í Reykjavík
Standandi lófatak og mögnuð stemmning á Jólaóratóríunni í Hörpu við upphaf 40. starfsárs Listvinafélagsins
15/12/2021

Jólaóratórían eftir J.S. Bach í Eldborgarsal Hörpu 1. sunnudag í aðventu 28. nóv. 2021 kl. 17

Jólaóratía 2021

Jólaóratórían BWV 248 eftir Johann Sebastian Bach er án efa frægasta tónverk jólanna og er flutt um allan heim í aðdraganda jóla og segir söguna af fæðingu Jesú á einstaklega áhrifamikinn og hrífandi hátt. Jólaóratórían er nú flutt í tilefni af upphafi fertugasta starfsárs Mótettukórsins og Listvinafélagsins í Reykjavík og 40 ára starfsafmæli Harðar Áskelssonar. Flytjendur eru Mótettukórinn, Alþjóðlega barokksveitin í Reykjavík og einsöngvararnir Herdís Anna Jónasdóttir sópran, Alex Potter kontratenór, Benjamin Glaubitz tenór, sem syngur hlutverk guðspjallamannsins og einsöngsaríur og Jóhann Kristinsson bassi. Stjórnandi er Hörður Áskelsson og konsertmeistari Tuomo Suni.

Með flutningi Jólaóratóríunnar halda Listvinafélagið og Hörður Áskelsson áfram að gefa íslenskum tónleikagestum kost á að upplifa stórverk tónbókmenntanna í flutningi einvalaliðs hljóðfæraleikara sem hafa sérhæft sig í barokkflutningi og einsöngvara og kórs í fremstu röð. Fluttar verða fjórar fyrstu kantöturnar (I–IV af VI) og tekur hver kantata u.þ.b. 30 mínútur í flutningi. Tónleikarnir eru um 2 og 1/2 klst með hléi. Flytjendur eru tæplega 100 — 60 manna kór, 29 hljóðfæraleikarar, 4 einsöngvarar og stjórnandi.

Mótettukórinn, sem fyrir löngu hefur sannað sig sem einn fremsti kór landsins, er fullur tilhlökkunar að flytja þetta verk nú í annað sinn í Eldborgarsal Hörpu, en kórinn flutti allar 6 kantöturnar í nývígðri Hörpu á 30 ára afmæli sínu 2012. Alþjóðlega barokksveitin í Reykjavík flytur verkið nú í 5. sinn undir stjórn Harðar Áskelssonar, en barokksveitin, sem skipuð er afburða hjóðfæraleikurum bæði frá Íslandi og víða að úr heiminum, hefur ávallt fengið mikið lof fyrir leik sinn. Með þessum tónleikum fagnar Hörður Áskelsson 40 ára starfsafmæli sínu, en hann var kantor við hina virtu Neanderkirkju í miðborg Düsseldorf 1981–82 og kantor Hallgrímskirkju í Reykjavík frá 1982–2021, þar sem hann byggði upp einstakt listastarf með kórum sínum og Klaisorgelinu og var listrænn stjórnandi Listvinafélagsins frá stofnun þess 1982 og Kirkjulistahátíðar frá 1987. Frá júní 2021 er Hörður sjálfstætt starfandi tónlistarmaður.

Alex Potter kontratenór, sem fer með eitt stærsta einsöngshlutverkið í Jólaóratóríunni, er einn af fremstu kontratenórum heimsins, en söngur hans í H-moll messu Bachs með Mótettukórnum á 35 ára afmæli kórsins 2017 gleymist seint þeim sem á hlýddu. Á heimasíðu hans eru upplýsingar um hann.

Benjamin Glaubitz tenór hefur hlotið mikið lof fyrir söng sinn m.a. sem guðspjallamaður og er mikil tilhlökkun að heyra hann syngja það hlutverk á Íslandi í fyrsta sinn — sjá ferilskrá hans hér.

Herdís Anna Jónasdóttir sópran hefur margoft komið fram með Herði Áskelssyni og Mótettukórnum í stórum einsöngshlutverkum frá ýmsum stíltímabilum og hlotið mikið lof — nú síðast í Messíasi eftir Händel í desember 2019 — sjá nánar hér.

Jóhann Kristinsson bassi hefur vakið mikla athygli og unnið til margra verðlauna en hann söng í fyrsta sinn sem einsöngvari með Mótettukórnum í Messíasi eftir Händel í desember 2019 — sjá nánar hér.

Miðaverð: 3.900 – 9.900 kr.

Miðasala er á harpa.is og tix.is