Hrífandi barokksveifla í Hallgrímskirkju! – Eurovisionstefið í allri sinni dýrð!

Mótettukór Hallgrímskirkju
30 ára vígsluafmæli Hallgrímskirkju – Hátíðartónleikar 29. október kl. 19 og 30. október kl. 17
01/10/2016
Genesis í Hallgrímskirkju
Listamannaspjall um sýninguna Genesis í Hallgrímskirkju
27/10/2016
Sýna allt

Hrífandi barokksveifla í Hallgrímskirkju! – Eurovisionstefið í allri sinni dýrð!

Mótettukór Hallgrímskirkju

Hátíðlegur lúðraþytur og pákuslög ásamt glæsilegum söng og hljóðfæraslætti fylla hvelfingar Hallgrímskirkju þegar Mótettukór Hallgrímskirkju ásamt Alþjóðlegu barokksveitinni í Hallgrímskirkju ( áður Den Haag) flytja glæsilegu hátíðarverkin Fanfare og Te Deum eftir Charpentier og Messu nr. 1 í F-dúr eftir J.S. Bach í tilefni af 30 ára vígsluafmæli Hallgrímskirkju, en kirkjan var vígð 26. október 1986. Einsöngvarar eru Sigríður Ósk Kristjánsdóttir mezzosópran, Auður Guðjohnsen alt, Oddur A. Jónsson bassi, Thelma Sigurdórsdóttir sópran og Guðmundur Vignir Karlsson tenór og stjórnandi er Hörður Áskelsson. Einsöngvararnir hafa allir tengst listastarfi Hallgrímskirkju um árabil og eru þrír þeirra m.a. meðlimir í Schola cantorum.
Alþjóðlega barokksveitin hefur jafnan hlotið ríkulegt lof gagnrýnenda og áheyrenda fyrir leik sinn. Konsertmeistari er finnski barokkfiðluleikarinn Tuomo Suni. Á tónleikunum að þessu sinni leika 25 hljóðfæraleikarar frá 10 þjóðlöndum, þar af 5 Íslendingar og einn Hollendingur búsettur á Íslandi.

Upphafsstef forleiksins að Te Deum eftir franska barokkmeistarann M.A. Charpentier er hin heimsþekkta tónlist sem allir þekkja sem kynningarstef í útsendingum Eurovision. Lofsöngurinn (Te Deum) er hrífandi verk, dæmigert fyrir tónlist barokktímans, þar sem kór og einsöngvarar skiptast á að flytja textann við fjölbreyttan hljómsveitarundirleik, þar sem ólíkir litir blásturshljóðfæranna, trompeta, óbóa og hinna viðkvæmu blokkflauta undirstrika stemmningar lofsöngsins.
Messa í F-dúr er heillandi meistaraverk sem J.S. Bach byggði á völdum köflum úr öðrum verkum sínum og skiptast þar á glæsilegir kórar og gullfallegar aríur. Verkið er ein af fjórum svokölluðum lúterskum messum sem Bach setti saman í kringum 1740. Fullyrða má að þær séu meðal minnst þekktu meistarasmíða hins fullþroska Bachs og hefur F-dúr messan til að mynda aldrei áður hljómað á tónleikum á Íslandi.

Upphafsverkið á tónleikunum, Marche de triomphe (Sigurmars) eftir Charpentier, kemur öllum í hátíðarskap.
Það verður því sannkölluð hátíðarstemmning í Hallgrímskirkju um kosningahelgina!

Meira:
Alþjóðlega barokksveitin í Hallgrímskirkju (áður Den Haag) er skipuð úrvals hljóðfæraleikurum víðs vegar að úr heiminum, en meðlimir sveitarinnar eiga það flestir sameiginlegt að hafa numið við Konunglega tónlistarháskólann í Den Haag sem er leiðandi í kennslu á barokkhljóðfæri. Þar hafa þeir unnið með færustu leiðbeinendum á sviði barokkflutnings, svo sem Ton Koopman, Jaques Ogg, Ryo Terakado, Enrico Gatti, Elizabeth Wallfisch, Jaap ter Linden og Kuijken bræðrum.
Að námi loknu hafa meðlimir Alþjóðlegu barokksveitarinnar haslað sér völl sem eftirsóttir hljóðfæraleikarar og leika nú reglulega með mörgum af helstu upprunasveitum heims undir stjórn nafntogaðra stjórnenda. Má þar nefna hljómsveitir á borð við Ricercar Consort, Les Arts Florissants, Amsterdam Baroque Orchestra, Bach Collegium Japan, Concerto Copenhagen, Orchestra of the Age of Enlightenment, Gabrieli Consort & Players, Collegium Vocale Gent, Capriccio Stravagante og Orcherstre des Champs-Élysées og stjórnendur á borð við Philippe Pierlot, William Christie, Masaaki Suzuki, Skip Sempé og Philippe Herreweghe.

Meðlimir Alþjóðlegu barokksveitarinnar í Hallgrímskirkju hafa verið tíðir gestir á Íslandi frá því að þeir komu fyrst til að taka þátt í flutningi Jólaóratóríu Bachs í á Jólatónlistarhátíð Hallgrímskirkju árið 2004 og aftur 2005. Alþjóðlega barokksveitin hefur komið fram með Mótettukór Hallgrímskirkju í Matteusarpassíunni eftir J.S. Bach á Kirkjulistahátíð 2005 og í h-moll messu J.S. Bach með Mótettukór Hallgrímskirkju og óratóríunni Ísrael í Egyptalandi eftir G.F. Händel með Schola cantorum á Kirkjulistahátíð 2007. Á Nýársdag 2009 flutti Alþjóðlega barokksveitin Messías eftir G.F. Händel með Schola cantorum í tilefni af 400 ára ártíð Händels og 2011 tók hún þátt í flutningi á Jóhannesarpassíu Bachs ásamt Mótettukór Hallgrímskirkju á þrennum tónleikum í Hallgrímskirkju og í Hofi á Akureyri. Árið 2012  flutti sveitin Jólaóratóríu J. S. Bachs í Hörpu á 30 ára afmæli Mótettukórsins undir stjórn Harðar Áskelssonar.  Síðast var sveitin fullskipuð hér á Kirkjulistahátíð 2015 og tók þátt í flutningi óratóríunnar Salómon eftir G.F. Händel með Mótettukór Hallgrímskirkju, sem hlaut 5* dóma og var flutningurinn tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2016.

Mótettukór Hallgrímskirkju hefur lengi verið meðal fremstu kóra Íslands. Verkefnalisti kórsins er langur og fjölskrúðugur. Þar má finna fjölmargar óratóríur, passíur og sálumessur en líka kórverk án undirleiks frá ýmsum tímum, auk þess sem kórinn hefur frumflutt fjölda íslenskra tónverka. Mótettukórinn hefur farið í margar tónleikaferðir og sungið í helstu dómkirkjum Evrópu og tekið þátt í listahátíðum hér á landi sem erlendis. Meðal stórverka sem Mótettukórinn hefur flutt á síðustu árum má nefna Matteusarpassíu, Jóhannesarpassíu,Jólaóratóríu og H-moll messu J.S. Bachs, sálumessur eftir Mozart, Duruflé og Fauré, óratóríurnar Elía og Paulus eftir Mendelssohn, Vesper eftir Rachmaninoff, Messu fyrir tvo kóra eftir Frank Martin og Solomon eftir Handel á Kirkjulistahátíð 2015 en fyrir þann flutning var kórinn ásamt stjórnanda sínum Herði Áskelssyni tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunana sem flytjandi ársins.

Mótettukórinn hefur gefið út marga geisladiska og unnið til verðlauna á alþjóðlegum kórakeppnum nú síðast árið 2014 á Festival Cancó Mediterrània í Lloret de Mar, Spáni, þ.s. hann vann 3 gullverðlaun og fékk „Grand Prix“ sem besti kór keppninnar 2014.

Hörður Áskelsson hefur verið organisti og kantor Hallgrímskirkju frá því hann lauk framhaldsnámi í Düsseldorf í Þýskalandi árið 1982. Hann hefur gegnt lykilhlutverki í uppbyggingu listalífs kirkjunnar og stóð meðal annars að stofnun Listvinafélags Hallgrímskirkju, Kirkjulistahátíðar og Alþjóðlegs orgelsumars. Árið 1982 stofnaði hann Mótettukór Hallgrímskirkju og kammerkórinn Schola cantorum árið 1996. Með kórunum hefur hann flutt flestar helstu perlur kórbókmenntanna bæði með og án undirleiks. Þá hefur hann stjórnað frumflutningi margra verka fyrir kór og hljómsveit sem íslensk tónskáld hafa skrifað á undanförnum árum, Með kórum sínum hefur Hörður komið fram á tónlistarhátíðum víða um heim bæði í Evrópu og N-Ameríku og farið tónleikaferðir auk þess að taka þátt í keppnum þ.s. kórar hans hafa unnið til verðlauna. Hörður hefur hlotið margsháttar viðurkenninga fyrir framlag sitt til tónlistarlífs á Íslandi, þ.á m. Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2001, Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2006 og Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 2004. Þá var hann útnefndur Borgarlistamaður Reykjavíkur 2002. Hörður hefur kennt orgelleik og kórstjórn við Tónskóla þjóðkirkjunnar og gegndi embætti Söngmálastjóra þjóðkirkjunnar árin 2005-2011.